Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

17. september 2014

Enginn blekkingarleikur í gangi

20131104-_MG_4233Árni Stefán Jónsson formaður SFR stéttarfélags í almannaþjónustu segir ummæli Vigdísar Hauksdóttur formanns fjárlaganefndar byggð á misskilningi og vanþekkingu.

 

Á Alþingi í gær sagði Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, að hjá hinu opinbera væri stundaður blekkingarleikur með laun og reynt væri að villa um fyrir ráðuneytum þar sem stór hluti launa opinberra starfsmanna væri óunnin yfirtíð. Þarna vitnaði Vigdís til frétta af niðurstöðum könnunar SFR sem kynntar voru í vikunni. Þar kom m.a. fram að stór hluti starfsmanna fær einhvers konar aukagreiðslur, m.a. í formi óunnar yfirvinnu, karlar þó meira en konur. Vigdís sagði að með þessu væri verið að villa um fyrir ráðuneytum og spurði m.a. hvernig í ósköpunum væri hægt að reka ríkið þegar svona blekkingarleikur væri í gangi.

 

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, segir nauðsynlegt að  bregðast við þessum ummælum, enda séu þau byggð á vanþekkingu og misskilningi. Hann segir það vera mjög miður að formaður fjárlaganefndar sé ekki betur að sér en þetta um hvernig laun ríkisstarfsmanna eru ákvörðuð og reiknuð. Sannarlega væri enginn blekkingarleikur í gangi, því laun ríkisstarfsmanna eru vel þekkt bæði innan ráðuneyta sem utan. Þetta ætti formaður fjárlaganefndar að vita.

Ummælin dæma sig kannski sjálf, segir Árni  en til að skýra málin viljum við ítreka að það er launasamsetningin sjálf sem er gagnrýnisverð. Það að hluti launa starfsmanna sé greiddur í yfirvinnu sem er óunnin er ekkert annað en merki um að verið sé með þessu að gera tilraun til að lagfæra laun opinberra starfsmanna til móts við starfsmenn á almennum markaði. Aðferðin finnst okkur hins vegar röng því forstöðumenn hafa alla möguleika á að hækka laun m.a. í gegnum stofnanasamninga.

Allar kannanir sýna að laun opinberra starfsmanna eru u.þ.b. 20% lægri en laun á almennum markaði, þá eru allar aukagreiðslur meðtaldar, segir Árni Stefán. Það er þetta sem Vigdís Hauksdóttir ætti að hafa áhyggjur af og einnig af því að kynbundinn launamunur er aftur aukast hjá ríkinu. Ég vona bara að þegar Vigdís hefur kynnt sér þessi mál betur að við fáum þá í henni öflugan bandamann við nauðsynlegar launaleiðréttingar.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)