Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

18. október 2016

Misskipting og jafnréttismál á fundi trúnaðarmanna

Á fundi trúnaðarmanna SFR fjallaði Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans meðal annars um misskiptingu gæða í íslensku samfélagi. Í máli hans komu fram sláandi staðreyndir um eignamyndum í samfélaginu. Hann sagði mikilvægt að skoða skiptingu gæða út frá fleiru en launum. Hér á landi væru reglulega birtar jákvæðar tölur um hagvöxt og brauðmolakenningin lifir góðu lífi, en hún gerir ráð fyrir því að þegar hagur eins hóps vex þá skili það sér niður til hinna. Þórður sagði að þetta gerðist hins vegar ekki svona. Í landinu byggju tvær þjóðir, þeir ríku sem væri tiltölulega lítill hópur og almenningur. Ástæður ríkisdæmisins væru helst tvær, annars vegar aðgangur að nýtingu á náttúruauðlindum, sérstaklega fiskvinnslu og hins vegar aðgengi að tækifærum. Hér á landi höfum við horft upp á hóp sem hreinlega hefur verið handvalinn til að græða peninga, sagði Þórður. Hann sagðir einnig að á Íslandi væri gjarnan talað um að þar væri mikill jöfnuður í launum, en það segði alls ekki alla söguna um jöfnun í samfélaginu. Misskipting eigna og ójafn aðgangur fólks að mikilvægri þjónustu spiluðu þar einnig stórt hlutverk. Góður rómur var gerður að erindi Þórðar og sköpuðust góðar umræður að því loknu.

Næst fjallaði Árni Stefán Jónsson formaður SFR um stöðuna í SALEK umræðunum og skýrði málin fyrir trúnaðarmönnum. Eins og fólk veit var okkar fólk ekki sátt við hvernig samkomulagið skilaði sér inn í frumvarp en umfjöllun um það hefur nú verið frestað fram yfir þingkosningar. Sonja Þorbergsdóttir lögfræðingur fjallaði að lokum um þau verkefni sem eru á hennar borði og snúa að jafnréttismálum. BSRB hefur undanfarið beitt sér sterklega fyrir betra fæðingarorlofi og hefur m.a. vakið mikla umræðu um það í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Sonja skýrði einnig frá því að verið er að safna saman gögnum frá sveitarfélögum um það hvaða þjónustu foreldrum er boðið upp á tímabilinu milli fæðingarorlofs og þess tíma sem börn komast almennt inn á leikskóla. Þá er nú að hefjast val á stofnunum sem munu taka þátt í tilraunaverkefni BSRB og ríkisins um styttingu vinnuvikunnar.  Að lokum sagði hún frá því að á vettvangi heildarsamtaka launafólks og kvennasamtakanna er nú í undirbúningi kvennafrí þann 24. október en meiningin er að konur gangi út af vinnustöðum sínum kl. 14:38 þann dag og safnist saman á baráttufundi. Nú þegar hefur verið skipulagður fundur á Austurvelli og vonandi verða einnig baráttufundir víða um land.


  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)