Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

25. maí 2018

Aðalfundur BSRB ályktar

Ályktun um dagvistunarmál var samþykkt á aðalfundi BSRB í gær. Þar segir að það sé óásættanlegt að foreldrar þurfi að bíða tekjulausir í óvissu þar sem engin úrræði séu til staðar. BSRB kallar eftir því að ríki og sveitarfélög brúi þegar í stað bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunarúrræða. 

Almennt eru það mæður sem brúa bilið með því að vera lengur frá vinnu en feðurnir sem stuðlar að misrétti kynjanna á vinnumarkaði. Aðalfundurinn skorar því á stjórnvöld að lögfesta rétt barna til dagvistunar að loknu fæðingarorlofi samhliða lengingu orlofsins í 12 mánuði, hækkun hámarksgreiðslna og því að greiðslur að 300 þúsund krónum á mánuði verði ekki skertar.

Fundurinn ályktaði líka um húsnæðismál og kallaði eftir því að stjórnvöld stígi næsta skrefið í uppbyggingu á öruggu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. Ljúka verði greiningu á framboði og eftirspurn húsnæðis, beina húsnæðisstuðningi til þeirra sem þurfi mest á honum að halda og tryggja stöðugleika í framboði húsnæðis. Þá telur fundurinn að styðja verði við uppbyggingu leigufélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.

BSRB stofnaði ásamt Alþýðusambandi Íslands Bjarg íbúðafélag sem gefa mun félagsmönnum kost á öruggu húsnæði á sanngjörnu verði. Lögum samkvæmt má félagið aðeins leigja tekjulágu launafólki íbúðir. Því er mikilvægt að stíga næsta skref og auðvelda þeim sem ekki eru innan tekjuviðmiðsins að komast í öruggt húsnæði.

Á vefsíðu BSRB má sjá allar ályktanir aðalfundar BSRB frá 24. maí 2018.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)