Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

21. desember 2018

Aukning í greiðslu sjúkradagpeninga

Styrktar- og sjúkrasjóður SFR stéttarfélags tók nýlega saman greiðslur fyrstu 10 mánuði ársins. Mikil aukning hefur verið í umsóknum í sjóðinn og hafa heildargreiðslur hans aukist um 32% á tímabilinu. Mest er þó hækkunin í greiðslu á sjúkradagpeningum eða 61% á milli ára, eða 36,2% fleiri umsóknir. Sjúkradagpeningar eru fjárhagsstuðningur til félagsmanna í veikindum og slysatilvikum og hægt er að sækja um þegar veikindarétti hjá atvinnurekanda lýkur. Þetta þýðir því í reynd að það er gífurleg aukning á þeim sem glíma við lengri veikindi.

Þetta er svipuð þróun og við höfum séð hjá sjúkrasjóðum annarra stéttarfélaga og því mikilvægt að það sé skoðað í því ljósi. Í gögnum sjóðsins er ekki að finna ástæður þess að fólk neyðist til þess að sækja um sjúkradagpeninga, því ekki er gerð krafa um sjúkradagpeningavottorð og því er erfitt að greina nákvæmlega hvers vegna þessi aukning á sér stað núna. Starfsfólk sjóðsins finnur þó fyrir því að hluta aukningarinnar má rekja til kulnunar og kvíða sem virðist hafa aukist hjá starfsmönnum. Mögulega má rekja það til gífurlegs álags á opinbera starfsmenn í og eftir efnahagshrunið og rætt hefur verið um að þau einkenni séu einmitt að koma fram núna hjá mörgum.

Þess má að lokum geta að Styrktar- og sjúkrasjóður SFR stendur undir þessari aukningu nú og því kemur ekki til skerðingar á réttindum vegna þessa en auðvitað verður fylgst vandlega með þróuninni.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)