Merki Sameykis á smærri skjá

Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-840
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

21. janúar 2020

Að rjúfa samstöðu og semja af sér

Í yfirstandandi kjarabaráttu hafa Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu, Félag flugmálastarfsmanna ríkisins og Landsamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna unnið saman að gerð kjarasaminga við Isavia. Slíkt samstarf milli félaganna liggur beint við því þau semja að hluta til um sömu starfsheiti við Isavia. Samningarnir hafa dregist á langinn eins og aðrir kjarasamningar við ríkið, en ástæða þess er meðal annars sú að nokkur þung mál hafa verið á dagskrá og hart tekist á um þau. Má þar meðal annars nefna til sögunnar styttingu vinnuvikunnar (bæði dag- og vaktavinna), orlofsmál og endurskoðun á launatöflu.

Eins og við aðra kjarasamninga þá er það samtakamátturinn sem er sterkasta vopnið í baráttunni við atvinnurekendur. Með góðri samstöðu er hægt að hámarka þann árangur sem hugsanlega er hægt að ná við samningaborðið. Í stærra samhengi skiptir samstaða einstakra stéttarfélaga einnig mjög miklu máli innan BSRB. Bandalagið á núna, fyrir hönd margra aðildarfélaga, í erfiðum samningum sem áhrif munu hafa inn í öll aðildarfélög bandalagsins og á kjör félagsmanna þeirra. Samstaða félaga innan BSRB er því einn af lykilþáttum í að hámarka árangur í yfirstandandi kjarabaráttu. Þar eru allir kjarasamningar undir.

Nú hefur það gerst í skjóli nætur að samninganefnd Félags flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR) hefur með leynd og án samráðs skrifað undir kjarasamning við Isavia. Fyrstu fréttir herma að innihald samningsins hjá FFR sé töluvert langt frá þeim kröfum sem settar hafa verið fram á sameiginlegu borði. Auk þess hefur FFR skilið eftir baráttuna um styttingu vinnutímans og ætlar sér að láta önnur félög vinna að því máli fyrir sig og með því fá þann rétt gefins sem önnur félög semja um. 

Stjórnarfundur Sameykis haldinn þann 21. janúar 2020 harmar þá framgöngu FFR er birtist í því að kljúfa þá samstöðu, sem er forsenda hámarks árangurs þegar um sameiginleg réttinda- og kjaramál er að ræða. Með þessu hefur FFR gengið gegn þeirri samstöðu sem BSRB hefur lagt áhersu á og veikt stöðu sína gagnvart viðsemjendum.

Stjórn Sameykis fordæmir vinnubrögð af þessu tagi sem gerir ekkert annað en að veikja stöðu stéttarfélaga gagnvart atvinnurekendum.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)