Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

4. mars 2020

Ríkið neitar að greiða samkvæmt lífskjarasamninginum

Í gær var fundað fram á kvöld með ríkinu til þess að reyna að ná samkomulagi í yfirstandandi kjaraviðræðum og hefur annar fundur verið boðaður í dag. Búast má við því að reynt verði til hins ítrasta til að ná samningum áður en verkfall skellur á næstkomandi mánudag og eigum við von á fundum fram á kvöld næstu daga og um helgina. Fundur með Reykjavíkurborg er á morgun og hefur einnig verið fundað stíft þar á bæ.

Við vonumst til þess að nú sé loks verið er að leggja lokahönd á samkomulag um styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki eftir þrotlausa vinnu síðustu mánaða.
Það sem helst stendur út af í viðræðunum nú er launaliðurinn sjálfur. Atriði sem hefði átt að vera nokkuð skýrt að hálfu viðsemjenda að minnsta kosti. Þar sem þeir hafa sjálfir gefið út að farið yrði eftir lífskjarasamningunum í þeim efnum.

Staðan er einfaldlega sú að ríkið neitar að greiða félagsfólki Sameykis það sem felst í lífskjarasamningunum. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur þegar boðið hærri hækkunina til félagsfólks okkar (90 þús.), en ríkið neitar enn og Reykjavíkurborg virðist ætla að elta þá vitleysu. Deilan snýst um það hvort að Sameykisfólk séu starfsmenn á taxtalaunum eða markaðslaunum, en það hefur skilið á milli upphæðanna sem lífkjarasamningurinn gefur (annars vegar 68 þúsund kr. hækkun á mánaðarlaunum á samningstímabilinu og hins vegar 90 þúsund kr. hækkun á sama tíma). Saminganefndir Sameykis eru vægast sagt orðnar langþreyttar eins og allflestir okkar félagsmanna og við erum sannarlega tilbúin í aðgerðir. Boðað verkfall hefst á miðnætti aðfararnótt mánudagsins 9. mars.

Samningseiningar BSRB þ.e. formenn og fulltrúar aðildarfélaganna  hafa einnig fundað í vikunni til að ráða ráðum sínum en sama er uppi á teningnum hjá flestum félögum okkar.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)