Merki Sameykis á smærri skjá

Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

2. desember 2020

Stórt stökk fram á við að bættu samfélagi

Árni Stefán Jónsson, formaður Sameyki.

Formaður Sameykis, Árni Stefán Jónsson sagði í viðtali við morgunþáttinn, Í bítið á Bylgjunni, að stytting vinnuvikunnar gangi vel hjá ríkinu en halda verður því til haga, að miðað er við að stytting vinnuvikunnar hjá dagvinnufólki taki gildi 1. janúar n.k., en hjá vaktavinnufólki þann 1. maí 2021.

„Það er miklu flóknara og erfiðara að skipuleggja styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki og því tekur það meiri tíma,“ sagði hann.

 

Ekki má skerða neysluhlé, þjónustu né laun
Spurður um ávinninginn með styttingu vinnuvikunnar; hvort ekki sé um lífskjarabót að ræða og hvort þetta muni draga úr þjónustu.

„Þetta er algjör snilld að mínu viti. Við erum að taka ansi gott skref með því að stytta vinnuvikuna niður í 36 tíma,“ sagði Árni Stefán.

Hann sagði að samninganefndin hafi sett sér ansi ströng markmið þegar farið var út í þetta í kjarasamningunum en styttingin mætti ekki skerða þjónustu stofnananna. Ekki mætti heldur skerða rétt starfsfólksins á neysluhléum né launum. Það þýddi að neysluhléin hverfa ekki, heldur haldi sér eins og áður, en eru tekin í vinnutímanum líkt og hjá vaktavinnufólki. Áður stóðu neysluhléin utan vinnutímans en nú eru þau innan vinnutímans.

„Styttingin má ekki skerða þjónustu og ekki laun,“ lagði Árni Stefán áherslu á.

„Menn hafi svolítið verið að teygja á skilningnum varðandi neysluhléin og jafnvel talið að styttingin þýði að neysluhléin detti út. Það sé mikill misskilningur, því þau eru áfram inni, óbreytt eftir sem áður, en færast inn í vinnutímann. Áður voru þau utan hans.“

Enn fremur, sagði Árni Stefán, að ef menn halda neysluhléum áfram utan vinnutímans, þá er verið að stytta vinnuvikuna niður í u.þ.b. 39 tíma vinnuviku en ekki 36 stunda vinnuviku. Þannig er einungis verið að stytta vinnuvikuna um 65 mínútur á viku í stað 4 klukkustunda.

„Um þetta eru menn að takast svolítið á um, en við höfum heyrt að stjórnendur hafi viljað ýta þeirri aðferð að, að stytta bara vinnuvikuna um 65 mínútur í staðinn fyrir 4 klukkustundir og það erum við afar óhress með,“ sagði Árni Stefán.

 

Vinnustaðalýðræði
Hann ræddi um þá nýlundu í þessari vegferð að vinnustaðirnir hafi tekið virkan þátt í styttingu vinnuvikunnar. Innan vinnustaðanna voru skipaðar vinnutímanefndir og hugmyndafræðin var útfærsla á styttingu vinnuvikunnar en ekki samningar um styttingu vinnuvikunnar. Með slíku vinnustaðalýðræði hafa útfærslurnar verið mismunandi á vinnustöðunum innan opinbera geirans. Skipun nefndanna er þannig háttað að í þeim eru, að auki starfsfólks, þrír fulltrúar stéttarfélaganna og einn stjórnandi vinnustaðarins.

 

Vel heppnað tilraunaverkefni og framtíðin
Bæði ríki og borg fóru í tilraunaverkefni sem staðið hefur yfir í þrjú ár. Verkefnið hafi dregið fram þann lærdóm, fyrir utan þá almennu ánægju, að stytting vinnuvikunnar yki lífsgæði. Fólk hefur mun meiri tíma til að sinna fjölskyldunni og áhugamálum í framtíðinni.

„Þetta þýðir svo rosalega mikið fyrir daglegt líf fólks að geta lokið vinnudegi 12 mínútur yfir þrjú. Samfélagið verður fjölskylduvænna en áður. Þetta er stórkostlega breyting. Varðandi vaktavinnufólkið, að geta stytt úr 40 tímum niður í 36 tíma á viku, og jafnvel niður í 32 tíma fyrir erfiðustu vaktirnar er algjör bylting,“ bætti Árni Stefán við.

Spurður um hvort Ísland sé að færast nær norrænni fyrirmynd líkt og þau lönd sem við berum okkur saman við segir Árni Stefán að svo sé.

„Algjörlega, við erum að taka stórt stökk fram á við. Við höfum verið að vinna óheyrilega mikið í yfirvinnu en við höfum við líka verið að taka á yfirvinnunni í þessu verkefni. Markmiðin eru að bæta líf fólks; bæta vinnuaðstæður, bæta fjölskyldulíf, bæta öryggi á vinnustöðum og sérstaklega hjá vaktavinnufólki. Það er allt annað að vinna 36 tíma á viku heldur en að standa þessar löngu vaktir sem hafa verið hingað til.“

Árni Stefán segir að atvinnurekendur hagnist líka á þessu fyrirkomulagi með ýmsum hætti.

„Skrepp minnkar, fjölskyldulífið batnar eins og fram kom í tilraunaverkefninu, vinnumenningin verður betri, fólk er í vinnunni á vinnutíma og afköstin verða ekkert minni. Þetta verður allt annað líf. Ekki hafa enn allar stofnanir klárað innleiðinguna en margir eru með þetta í pípunum og ríkisstofnanir eru að skila sér. Reykjavíkurborg á þó eftir að skila sínu en við sjáum til,“ sagði formaður Sameykis að lokum.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)