Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

29. september 2021

Ötul barátta BSRB skilar sér í bættu samfélagi

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra á 46. þingi BSRB.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra sagði í ávarpi sínu á 46. þingi BSRB, að undir ötulli forystu bandalagsins lögðu samtök launafólks hér á landi í samstarfi við norræn systursamtök sín fram þýðingarmikla skýrslu síðastliðið vor um áhrif loftslagsbreytinga á hagkerfi og vinnumarkaða með áherslu á mikilvægi réttlátra umskipta í þeim umfangsmiklu breytingum sem samfélögin standa frammi fyrir.

„Fyrir liggur að nauðsynlegar aðgerðir og aðlögun vegna loftslagsbreytinga hafa í för með sér grundvallar breytingar á framleiðslu-, neyslu- og samgönguháttum sem breyta munu atvinnuháttum og geta haft víðtækar efnahagslegar- og félagslegar afleiðingar. Þetta kallar á nýja nálgun og ný viðfangsefni m.a. í samtali aðila vinnumarkaðarins. Þar trúi ég því að sú ríka hefð sem við höfum fyrir samtali og samráði milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins mun gagnast okkur vel til að tryggja að umskiptin í átt að kolefnishlutleysi verði árangursrík og réttlát. Því hef ég gert að tillögu minni að þjóðhagsráð taki málefnið til sérstakrar skoðunar og umfjöllunar á vettvangi sínum, sagði forsætisráðherra.

 

Launajafnrétti brýnt mannréttindamál
Katrín sagði að í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga aðildarfélaga BSRB vorið 2020 hafi hún skipað starfshóp með fulltrúum aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um endurmat á störfum kvenna sem falið var að leggja fram tillögur að aðgerðum til að leiðrétta vanmat á hefðbundnum kvennastörfum.

„Starfshópurinn um endurmat á störfum kvenna hefur nú lokið störfum og til að fylgja eftir tillögum hans hef ég nú skipað aðgerðahóp um launajafnrétti með aðkomu aðila vinnumarkaðarins. Ég vænti mikils starfi hans á komandi mánuðum, því þó jafnlaunamál séu auðvitað fyrst og fremst brýnt mannréttindamál sem snýst um jafnrétti á öllum sviðum og fjárhagslegt sjálfstæði sem lykilinn að frelsi kvenna og grundvallar atriði í baráttunni gegn kynbundu ofbeldi, eru þau ekki síður mikilvægt efnahagslegt og félagslegt framfaramál sem eykur verðmætasköpun, velferð, velgengni og hamingju í samfélaginu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að lokum.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)