Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

10. desember 2021

Gul verkalýðsfélög: Lævís þau í leyni liggja

Annað ráð atvinnurekenda og félagabrjóta er að hlutast til um starf stéttarfélaga með beinni íhlutun í innra starf þeirra.

Sigurður Pétursson, sagnfræðingur og framhaldsskólakennari, skrifar grein í 4.tbl. tímarits Sameykis um gul verkalýðsfélög á Íslandi.

 

Gul verkalýðsfélög eru félög sem eru stofnuð og starfa undir hæl atvinnurekenda, gera aldrei alvarlegan ágreining við eigendur fyrirtækja og afrita samninga annarra verkalýðsfélaga án þess að leggja nokkuð til baráttunnar.

Gul verkalýðsfélög eiga sér langa sögu. Þau komu fyrst fram í Frakklandi snemma á 19. öld, undir merkjum kristilegrar stéttasamvinnu, neituðu að taka þátt í aðgerðum gegn fyrirtækjaeigendum og voru skjól fyrir verkfjallsbrjóta. Nafnið kemur frá verkfalli verksmiðjufólks í Frakklandi sem brutu rúður í verksmiðju, þar sem verkfallsbrjótar voru að störfum. Gluggar verksmiðjunnar voru þá huldir með gulum pappa, til að ekki sæist hvað gerðist innan veggja. Guli liturinn festist á þá sem svikust undan merkjum verkalýðsbaráttunnar.

Gul verkalýðsfélög eru ein leið til að halda aftur af samtakamætti þeirra sem selja vinnuafl sitt. Önnur aðferð til að vinna gegn samtakamyndun og réttindabaráttu vinnandi fólks er starfsemi félagabrjóta. Félagabrjótar eru þeir sem í krafti efnahagslegs og samfélagslegs valds vinna gegn stofnun og starfsemi frjálsra verkalýðssamtaka. Félagabrjótar eru náskyldir verkfallsbrjótum og lögbrjótum enda orð og gjörðir þeirra lík. Félagabrjótar hafa verið til allt frá því launafólk tók að mynda samtök gegn ofurvaldi atvinnurekenda og þeir hafa orðið meira áberandi í seinni tíð.

Félagabrjótar og gul verkalýðsfélög eiga það sameiginlegt að vinna gegn réttindum og stöðu stéttarfélaga í samfélaginu. Þau eru tæki til að verja og tryggja einokun atvinnurekendavalds í efnahagslífi og stjórnmálum.

 

Hunsun og ofsóknir
Á árum áður notuðu atvinnurekendur vald sitt til að koma í veg fyrir stofnun verkalýðsfélaga eða brjóta niður félög sem stofnuð voru. Þrjár leiðir voru áberandi. Í fyrsta lagi að hunsa tilveru félaganna, neita öllum samningum, og bægja forsprökkum þeirra frá vinnu og svipta þá þannig afkomu sinni. Í öðru lagi, að senda fulltrúa sína inn á fundi félaganna með gylliboð og viðvaranir til að koma í veg fyrir að félögin gengju í Alþýðusamband Íslands eða önnur heildarsamtök. Í þriðja lagi, ef hin tvö ráðin dugðu ekki, að stuðla að stofnun auðsveipra félaga, til að sundra samstöðu vinnandi fólks.

Þegar verkafólk og sjómenn á Ísafirði sameinuðust í fjölmennu verkalýðsfélagi árið 1906, brugðust stærstu atvinnurekendurnir í bænum við með því að hunsa félagið og neita öllum kröfum þess um bætt kjör. Þegar verkafólk gerði verkfall var það rekið úr vinnu, unglingar og utanbæjarmenn ráðnir í staðinn og verkfallið brotið á bak aftur.

Þegar verkafólk í Súðavík stóð að stofnun félags til varnar hagsmunum sínum árið 1928, var forystumönnum þess gert ókleyft að fá vinnu í plássinu. Leituðu þeir þá til skólastjórans í þorpinu, Hannibals Valdimarssonar, um að taka við forystu félagsins. Það var upphafið af gifturíkum ferli hans sem verka-lýðs- og stjórnmálaleiðtoga. Hann var eini opinberi starfsmaður-inn í þorpinu og því ekki háður atvinnurekendum á staðnum um afkomu og atvinnuöryggi.

 

Útsendarar á ferð
Annað ráð atvinnurekenda og félagabrjóta er að hlutast til um starf stéttarfélaga með beinni íhlutun í innra starf þeirra. Oft var það gert með útsendurum, sérstökum fulltrúum atvinnurekanda, sem báru fram sjónarmið þeirra á fundum félaganna. Grímur Jónsson kaupmaður í Súðavík bauðst til þess að ganga að öllum kröfum verkalýðsfélagsins, ef það gengi ekki í Alþýðusamband Íslands. Á Hólmavík og Borðeyri í Strandasýslu og víðar þar sem samvinnuhreyfingin var sterk, mættu kaupfélagsstjórarnir á fundi félaganna og létu í ljós þá skoðun að óþarfi væri að stofna stéttarfélag þar sem allir væru í kaupfélaginu.

 

Gul verkalýðshreyfing
Þriðja og langlífasta aðferðin til að brjóta niður stéttarfélög er að stofna velviljuð eða auðsveip félög til höfuðs almennum verkalýðsfélögum. Stundum eru þessi félög sögð „óháð“, en það er mikið rangnefni þar sem þau eiga alla tilvist sína undir náð atvinnurekandans. Þess vegna eru þau „gul verkalýðsfélög“. Þau starfa undir „verndarvæng“ atvinnurekenda og fá án fyrirhafnar og án átaka þær réttindabætur sem almennu félögin ná fram með baráttu og fórnum. Atvinnurekendur reyndu á árum áður að stofna gul verkalýðsfélög til höfuðs almennum verkalýðsfélögum, svo sem á Ólafsvík og í Bolungarvík. Ekki urðu þessi félög langlíf. Þau misstu tilgang sinn þegar alvöru verkalýðsfélög sönnuðu tilveru sína í heildarsamtökum.

Eftir að lög um stéttarfélög og vinnudeilur voru sett á Íslandi árið 1938 var skipulagi og reglu komið á almennan vinnumarkað. Réttindi og skyldur verkalýðsfélaga voru skilgreind og staða þeirra gagnvart atvinnurekendum tryggð. Starfsemi félagabrjóta hurfu þá að mestu úr sögunni, í bili.

 

Ný kynslóð félagabrjóta
Á síðustu árum og áratugum hefur starfsemi félagabrjóta og gulra verkalýðsfélaga orðið áberandi víða um lönd. Starfsemi félagabrjóta hefur verið mjög áberandi í Bandaríkjunum og sérstök ráðgjafafyrirtæki sprottið upp sem þjóna fjölþjóðlegum stórfyrirtækjum með „sérfræðingum“ sem beita öllum tiltækum ráðum til að koma í veg fyrir stofnun sjálfstæðra verkalýðsfélaga og brjóta niður hefðbunin frjáls stéttarfélög. Starfsemi þessara félagabrjóta hefur nú breiðst út um Evrópu og atvinnurekendur sækja sífellt meir í smiðju þeirra.

Gul verkalýðsfélög, stofnuð með velvilja og jafnvel að undirlagi atvinnurekenda, hafa haslað sér völl í löndum Evrópu með nýjum krafti. Í Danmörku hafa slík félög náð til sín um fimmtungi alls launafólks á síðustu áratugum.

Þessum nýju aðferðum hefur einnig skolað hér á land. Nýtt gult stéttarfélag var stofnað fyrir nokkrum árum að undirlagi fyrrverandi formanns VR, sem valt úr þeim stóli í uppgjöri félagsmanna við fortíðina. Þetta er Félag lykilmanna, stofnað árið 2012. Félagið starfar í anda sambærilegra félaga sem stofnuð hafa verið á Norðurlöndunum. Þau standa utan heildarsamtaka launafólks og gera ekki ágreining við atvinnurekendur, en afrita samninga sem önnur félög ná, án þess að leggja nokkuð til baráttunnar sjálf.

Hefðbundin stéttarfélög flugmanna og flugfreyja hafa þurft að takast á við gul verkalýðsfélög í nokkur ár. Félög skráð í öðrum löndum „útvista“ starfseminni til að forðast kjarasamninga við íslensk stéttarfélög. Önnur fyrirtæki stofna eigin stéttarfélög og semja eingöngu við þau, án aðkomu starfsmanna, líkt og frægt er af fréttum af flugfélagi sem nefnir sig Play. Afleiðingin er niðurbrot og veiking hefðbundinna réttinda og kjara viðkomandi stétta.

 

Samstaðan virkar
Eina ráðið gegn þessari þróun er samstaða og félagslegur styrkur stéttarfélaganna. Það sanna dæmin. Á síðasta ári vakti samstaða félagsmanna í Flugfreyjufélagi Íslands verðskuldaða athygli þegar félagsmenn þess stóðu fast gegn hótunum forsvarsmanna Icelandair um að stofna gult stéttarfélag ef launalækkanir og afsláttur mikilvægra ráðningarskilmála yrðu ekki samþykktar. Flugþjónum tókst með mikilli samstöðu og stuðningi heildarsamtakanna að hrinda þessari grófu aðför að samningsrétti stéttarinnar.

Þannig eru félagabrjótar víða á ferðinni í íslensku samfélagi og full þörf á að vera á verði gagnvart þeim, hvar sem þeir birtast. Vald atvinnurekenda í samfélaginu er mikið bæði efnahagslegt og samfélagslegt. Samtök atvinnurekenda ráða yfir miklu fjármagni og virðast í æ ríkari mæli nýta sér „ráðgjöf“ og „aðstoð“ sérfræðinga á sviði lögfræði, almannatengsla og áróðurs, sem beita aðferðum félagabrjóta.

Ráðið gegn félagabrjótum er ætíð það sama. Samstaða vinnandi fólks um réttindi sín og kjör gegnum lögleg, frjáls og óháð stéttarfélög. Öflug stéttarfélög eru ein af undirstöðum velferðar og lýðréttinda í okkar landi. Því skal ekki sofna á verðinum, þegar lævís óvinur læðist að.

Höfundur er sagnfræðingur og framhaldsskólakennari.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)