5. maí 2022
Húsnæðislán er ekki neyslulán

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis.
Þórarinn Eyfjörð segir í grein á Kjarnanum að einn mikilvægasti þátturinn í kröfum verkalýðshreyfingarinnar um launahækkanir byggi á því að launafólk verði að geta greitt afborganir af hækkandi húsnæðislánum sínum án þess að missa fótanna. Þá gagnrýnir hann harðlega stýrivaxtahækkanir Seðlabanka Íslands og þær afleiðingar sem hækkun stýrivaxta hafa á samfélagið.
„Launafólk á Íslandi neyðist til að taka gríðarlega há lán til að fjármagna húsnæðiskaup sem ríkisstjórn Íslands og Seðlabanki Íslands eru ábyrg fyrir. Í raun leggja þau blessun yfir og tryggja, að fasteignaverð hækki svo gríðarlega eins og raun ber vitni sem bitnar verst á ungum fjölskyldum á vinnumarkaði. Einn mikilvægasti þátturinn í kröfum verkalýðshreyfingarinnar um launahækkanir byggir á því að launafólk verður að geta greitt afborganir af hækkandi húsnæðislánum sínum án þess að missa fótanna. En ástæðan fyrir hækkandi afborgunum er óstöguleiki í efnahagsmálum og skertur kaupmáttur. Fyrir þeim óstöðugleika eru stjórnvöld og Seðlabanki Íslands ábyrg.“
Þá segir Þórarinn að það þurfi að taka húsnæðislán húsnæðislán út úr neysluvísitölunni.
„Vísitala neysluverðs mælir breytingar á verðlagi einkaneyslu. Hagstofa Íslands mælir vísitölu neysluverðs mánaðarlega en þá er verð allra vara og þjónustu sem tilheyra neyslukörfunni kannað og inni í neysluvísitölunni eru húsnæðislán almennings. Húsnæðislán eru ekki neysla. Þá er einnig augljóst að stjórnvöld hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að færa frekar fjármuni til tekjuhæstu íbúðareigenda en að styðja við tekjulægri og yngri íbúðareigendur. Aðferðin er meðvituð um að færa framtíðarskatttekjur til þeirra sem hafa hærri tekjur og með því er ungu fólki og þeim sem eru á lægri launum, sem er að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið, gert erfiðara fyrir.“
Pistillinn birtist á Kjarnanum.