Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

24. maí 2022

Sumarið er tíminn

Fardagafoss steypist niður í gil í hlíðum Fjarðarheiðar, um sex kílómetra frá Egilsstöðum.

Íslenskt sumar er töfrandi. Bjartar sumarnætur, lækjarniður, jafnvel mátulega hlýr andvari. Félagsfólk í Sameyki dvelur í orlofshúsum félagsins um land allt, nýtur náttúrunnar og samveru með fjölskyldum sínum, vinum og vandamönnum.

Mikil uppbygging hefur átt sér stað undanfarin ár á orlofssvæði Sameykis í Munaðarnesi; orlofshús stækkuð, endurbyggð og ný risið með öllu sem þeim fylgja. Og umhverfið er fagurt hvert sem litið er í Borgarfirðinum. Það er víðar gott að dvelja í orlofshúsum félagsins. Á Akureyri, á Arnarstapa undir Snæfellsjökli, í Húsafelli þar sem ævintýrin lifna við í skóginum. Rétt að að minna á að gaman er að skoða Surtshelli ofan Kalmannstungu þegar dvalið er í orlofshúsum Sameykis í Húsafelli.

Margir hafa skapað góðar minningar í gegnum árin á orlofssvæðinu við Úlfljótsvatn, ungir sem gamlir farið saman að veiða í Þingvallavatni og Úlfljótsvatni sælla minninga. Í Biskupstungum, í Vaðnesi og víðar á suðurlandi, á Eiðum á austurlandi, reyndar um allt land, njóta gestir fjölbreyttrar útiveru og gæðastunda saman á þessu sumri.

Lítum aðeins til fortíðar, hvernig skáldið og verkakonan Halla Lóvísa Loftsdóttir, lýsir sumrinu hér á landi í kveðju einni. Í Kanadíska ársritinu Árdís, sem var ársrit bandalags lúterskra kvenna og kom út í Winnipeg árið 1961, er birt þessi kveðja til Vestur-Íslenskra kvenna sem heimsóttu landið sumarið 1953. Þar lýsir Halla með fögrum orðum sumrinu á Íslandi. Halla var fædd 12. júní 1886 að Kollabæ í Fljótshlíð. Hún gaf út ljóðabókina Kvæði árið 1975 og í ljóðum Höllu kemur greinilega fram hvernig hún tekst á við sorgir sínar og raunir, en að baki margra ljóða Höllu situr harmurinn yfir hlutskipti hennar. Samt skín í gegn í ljóðum hennar hlýjan og umhyggjan fyrir fólki og náttúru, lífinu sjálfu.


Kveðja til Vestur-Íslenskra kvenna sem heimsóttu Ísland sumarið 1953.

Þið funduð óm frá íslands ströndum kalla,
og ykkar bíða landsins „Fögru dyr",
og svifuð heim í faðminn dala og fjalla,
sem fagnar góðum börnum eins og fyr.
Þið sáuð land, er silfuröldur lauga,
þið sáuð nálgast fjöllin hvít og blá.

Með sælubros og sólskinstár í auga
þið sunguð ljóðin íslands hörpum frá.
Já, geislar enn á tignartindum ljóma
og tæru vötnin spegla himin sinn.

Já enn að nýju foldin býst í blóma
og bíður frændahópinn velkominn.
Hún skartar enn í fögrum lit og línum
við lóusöng og mildan aftanþey
og gefa vill af sumarauði sínum,
þótt sé það aðeins lítil Gleym-mér-ei.

Að alls hins bezta njótið sérhvern dag,
að fossinn hvíti og fjallalindin tæra
með fuglum himins ómi gleðibrag
þau vinarljóð sem ykkur gleymast eigi,
þótt allar góðar stundir líði skjótt,
að sérhver minning lifa og lýsa megi,
sem lítil stjarna á helgri jólanótt.

Já, þökk og heiður, vinir öldnu og ungu,
sem Ísland sóttuð heim um stundarbið.
Þið hélduð vörð um heiður vorn og tungu
og hverju góðu máli veittuð lið.

Nú hljóðar kveðjur sveima yfir sænum,
er svífur farið út í bláan geim
með ilm af fjólu, reyr og birki í blænum;
og blessun Íslands fylgir ykkur heim.

Halla L. Loftsdóttir


Helga Kress skrifaði eftirfarandi um Höllu.
„Höllu langaði til að læra í æsku en hafði ekki kost á því og var því með öllu sjálfmenntuð. Vorið 1911 fluttist hún að Sandlæk í Gnúpverjahreppi og giftist sama sumar Ámunda Guðmundssyni. Þar hófu þau búskap árið 1913, eignuðust sjö börn, en fimm komust til fullorðinsára. Ámundi lést úr spænsku veikinni 1. desember 1918 en þá bar Halla Lovísa sjöunda barn þeirra undir belti sem fæddist andvana þá um vorið. Halla bjó áfram með bróður sínum á Sandlæk við erfið lífskjör. Haustið 1931 fluttist hún til Reykjavíkur þar sem hún stundaði ýmsa heimavinnu, einkum vélprjón. Halla var mjög áhugasöm um félags- og menningarmál og starfaði lengi í Kvenréttindafélagi Íslands. Hún birti ljóð í tímaritum, m.a. Eimreiðinni og síðar Emblu. Ljóðabók hennar, Kvæði, kom út 1975, en Halla lést 15. nóvember sama ár.“


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)