Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

28. september 2022

Jöfnun launa og kjarasamningar til umræðu á Akureyri

T.v. Guðmundur Freyr Sveinsson, deildarstjóri kjaradeildar Sameykis, á morgunverðafundi með félagsfólki í morgun.

Morgunverðarfundir Sameykis með félagsfólki um land allt hafa verið á góðu skriði. Sameyki hélt fund á Akureyri í morgun með félagsfólki sínu. Efni fundarins var sem áður kjaramálaumræðan í samfélaginu, efnahagsmál, samfélagsmál og kjarasamningar.

Formaður Sameykis, Þórarinn Eyfjörð, sagði á fundinum að orðræðan sé á þann veg hjá vinnuveitendum að ekki sé rými fyrir launahækkanir. Það væri þekkt herbragð hjá fulltrúum vinnuveitenda að halda því fram. Þá sagði hann stjórnvöld reka efnahagsstjórn sem gerir launafólki erfitt fyrir að ná endum saman því kaupmáttur launa hafi rýrnað mikið. Stjórnvöld hafi skapað þetta ástand.

 

Launafólk hvatt til að skuldsetja sig
„Laun fullvinnandi fólks á vinnumarkaði eru þannig að starfsfólk á almenna markaðnum er betur launað en á opinbera vinnumarkaðnum. Munurinn er að meðaltali tæp 17 prósent starfsfólki á almenna markaðnum í hag. Þá hafa ákvarðanir um stýrivaxtahækkanir Seðlabanka Íslands haft slæm áhrif á launafólk í landinu. Í raun var launafólk hvatt til að skuldsetja sig því lán væru orðin svo ódýr. Nú sitja alltof margir með sárt ennið eftir að hafa til dæmis fjárfest í húsnæði. Og gæðum hefur verið misskipt. Í verkefninu „Allir vinna“ sem stjórnvöld ákváðu fór helmingur allrar skattaendurgreiðsla til hæstu tíundarinnar. Unga fólkinu er líka gert mjög erfitt fyrir t.d. þegar afborganir af 40 millj. króna óverðtryggðu láni fór úr 110 þús. á mánuði í 240 þús. Og seðlabankastjóri segir ungu fólki að búa bara áfram heima hjá foreldrum sínum.“

Ríkisstjórnin lækkar tekjur sínar um tugi milljarða
Varðandi tekjustofna samfélagsins sagði Þórarinn að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi lækkað tekjur ríkissjóðs um tugi milljarða. Ekki sé sótt í þá tekjustofna sem augljóslega séu fyrir hendi hjá hinum efnameiri; veiðigjöld, hvalrekaskatta, bankaskatt o.fl. Þórarinn sagði að búið sé að eyðileggja styrktarkerfin; barnabótakerfið og vaxtabótakerfið.

„Allir styrkir eru nú tekjutengdir niður í lægstu laun. Það gerir tekjulágu fólki og ungum fjölskyldum mjög erfitt fyrir að koma sér þaki yfir höfuðið í kerfi sem byggist á eignamyndun,“ sagði Þórarinn Eyfjörð.


Opinberir starfsmenn enn á lægri launum
Guðmundur Freyr Sveinsson, deildarstjóri kjaradeildar Sameykis, fór yfir launaþróun frá því samið var í síðustu kjarasamningum frá 1. apríl 2019 til 1. janúar 2022 þar sem krónutöluhækkanir voru samtals 90 þús. yfir tímabilið.

„Rétt er að benda á að mikil rangtúlkun hefur verið í umræðunni um launaavísitöluna og þróun launa milli markaða. Margt af því er í raun vitleysa þegar verið er að yfirfæra krónutöluhækkanir yfir í prósentureikning eins og vinnuveitendur á almenna markaðnum tala fyrir. Auðvitað hækka lægstu launin meira í slíkum prósentuútreikningum sem hent er inn í launavísitöluna, en í síðustu kjarasamningum var samið um krónutöluhækkanir fyrir launalægstu sem í prósentum hækkar lægstu launin mest.

Þó eru opinberir starfsmenn enn á lægri launum en launafólk á almenna vinnumarkaðnum og er launamunurinn um 17 prósent eins og áður sagði. Ríkið, Reykjavíkurborg og sveitarfélögin gerðu samkomulag við BSRB, BHM og KÍ og samingurinn á að jafna þennan launamun milli markaða. Samkomulagið sem undirritað var fólst meðal annars í því að lífeyrisréttindi starfsmanna á almenna markaðinum var breytt á þann veg að lífeyrisréttur þeirra var jafnaður á við opinbera starfsmenn. Á móti kom að ríkið, Reykjavíkurborg og sveitarféögin lofuðu að hækka laun opinberra stafsmanna til jafns á við laun starfsfólks á almenna markaðnum. Nú eru liðin 6 ár og atvinnurekendur hafa ekki staðið við samkomulagið á meðan opinberir starfsmenn hafa staðið við sinn hluta samkomulagsins. Þetta sættum við okkur ekki við,“ sagði Guðmundur Freyr.


Tekist á um kaffitímana
Guðmundur ræddi um neysluhléin í tengslum við styttingu vinnuvikunnar og sagði að vinnuveitendur vildu því miður rangtúlka ákvæði sem samið var um í síðustu kjarasamningum.

„Sumir vinnuveitendur vildu meina að jarðafarir, læknaheimsóknir, umönnun barna og slíkt ætti að falla inn í styttinguna og vildu banna fólki að sinna þeim nauðsynlegu þáttum sem snerta daglegt líf fólks. Þá var víða harkalega tekist á um kaffitímana sem nú heita neysluhlé. Vinnuveitendur sumir vildu túlka kjarasamninga þannig að fólk hefði ekki rétt á kaffitímum. Það er auðvitað rangt því í kjarasamningunum er kveðið á um að fólk taki hefðbundin neysluhlé eftir sem áður, en skreppi ekki frá vinnustaðnum í neysluhléinu án samráðs við vinnuveitanda.“

Fundinum lauk með hópavinnu og umræðum þar sem helstu áherslumálin voru m.a. stytting vinnuvikunnar og festa að hana í kjarasamninga óháð vinnustaðasamkomulagi, hækkun grunnlauna með krónutöluhækkunum, að helgidagar; aðfangadagur og gamlársdagur verði að fullu stórhátíðardagar. Þá var áhersla lögð á að ríkið, Reykjavíkurborg og sveitarfélögin standi við samkomulag um jöfnun launa milli markaða og einnig að Sameyki þrýsti á stjórnvöld að efla styrktarkerfin; húsnæðiskerfið, vaxtabótakerfið og barnabótakerfið.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)