Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

26. október 2022

„Á Íslandi ríkir kerfisbundin andúð á kven-vinnuaflinu“

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

Í morgun var haldið jafnréttisþing í Hörpu sem fjallaði um jafnréttismál á íslenskum vinnumarkaði og í samfélaginu; staða kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði, aðgengi, möguleikar og hindranir. Katrín Jakobsdóttir, forsæitisráðherra, setti Jafnréttisþingið og sagði hindranir og tengsl væru vandamál erlendra kvenna á vinnumarkaði og að þær fái ekki jöfn tækifæri og störf við hæfi á vinnumarkaðnum. Katrín lýsti dæmi um skort á tengslum útlendra kvenna og það væri t.d. ósýnileg hindrun er útlendar konur væru ekki með í íslenska saumklúbbnum.

„Það skiptir máli að við, sem t.a.m. eru aldnar upp á Íslandi að það skiptir máli að vera í saumaklúbbi. Og það er erfitt að komast inn í saumaklúbbinn. Þetta hef ég heyrt fjölda margar konur af erlendum uppruna lýsa fyrir mér.“

Benti hún ráðstefnugestum á að hlutfall innflytjenda á Íslandi væri nú hátt í 16 prósent. Þá hefur það ekki breyst á vinnumarkaðnum að konur bera hitann og þungann í lægst launuðu störfunum og í þeim hópi séu konur af útlendum uppruna fjölmennar.

„Margar þeirra hafa menntað sig til allt annarra og betri launaðra starfa en fá menntun sína ekki metna á vinnumarkaði, festast í láglaunastörfum og eiga ekki möguleika á framgangi.“


Verðmætamat starfa er ekki náttúrulögmál
Katrín sagði að konur hafi barist fyrir uppbyggingu leikskóla á tíunda áratugnum. Þá benti hún á ólaunuð störf kvenna í samfélaginu, umönnun barna og umönnun heimilis hafa lagst á herðar kvenna fremur en karla. Þannig væri samfélagsgerðin. Bætti hún við í máli sínu að jafnrétti hafi ekki enn náðst á vinnumarkaði og að konur bæru hitann og þungann af láglaunuðum umönnunarstörfum. Katrín sagði að launamunurinn væri einmitt vegna hins kynskipta vinnumarkaðar og spurði: „Af hverju metum við sum störf til færri fiska en önnur?“ Hún sagði að leiðrétta þurfi það vanmat á störfum kvenna sem framsæknar konur hófu báráttu um fyrir hálfri öld síðan. Þess vegna hafi hún nú stofnað í ráðuneyti sínu nefnd sem á að rannsaka ólaunuð störf kvenna í samfélaginu og vermætamat starfa.


Kúgun kvenna á vinnumarkaði staðreynd
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður eflingar flutti erindi og sagði að raunveruleg efnahagsleg kúgun á konum á íslenskum vinnumarkaði væri mikil sem hefði hræðileg áhrif á þær. Þessi kúgun leiddi til heilsuleysis sem endaði með örorku og styttra lífi en hjá konum ofar í stigveldinu.

„Hvaða tól skila verkakonum árangri í baráttunni við arðránið? Samstaða er máttugasta vopnið. Samstaða þvert á tungumál, menningu og upprunaland. Þarna þarf ég ekki að leita í kenningabanka annarra eða í sjálfa mannkynssöguna, heldur hef ég séð þetta og upplifað á eigin skinni. Og fremstar í samstöðu verkefni vinnuaflsins standa aðfluttar konur. Þetta erindi er tileinkað þeim [...] og öllum hinna sem vita að framlag þeirra til þjóðfélagsins er þúsund sinnum meira virði en kven-hatursniðurstaða arðránsverkefnis yfirstéttarinnar segir að það sé,“ sagði Sólveig Anna.

Sólveig Anna sagði að á Íslandi ríkti kerfisbundin andúð á kven-vinnuaflinu. Verka- og láglaunakonur og fulltrúar þeirra hafa verið jaðarsettar með markvissum hætti.

„Um það er hægt að nefna fjölmörg dæmi. Eitt að því nærtækasta er jafnréttisþing 2020 en þá gleymdust láglaunakonur Reykjavíkurborgar þrátt fyrir að þær væru þá í verkfalli þar sem að meginkrafan var leiðrétting á sögulega vanmetnum kvennastörfum. Þá ákváðum við Eflingarkonur að tryggja að valdastéttin horfði ekki í gegnum okkur, sögðum; samstaðan er okkar beittasta vopn, með henni getum við breytt samfélaginu og birtumst óboðnar hér í Hörpu við setningu þingsins. Gengum svo burt til að halda áfram með okkar árangurríka verkfall, en um hinn raunverulega og markverða árangur má m.a. lesa í skýrslum Kjaratölfræðinefndar og heyra um í hræðsluáróðri Samtaka atvinnulífsins nú í aðdraganda kjarasamningsviðræðna en þar eru menn verulega daprir yfir því að láglaunakonur Eflingar hafi náð að kýja á um leiðréttingu á sögulega vanmetnum kvennastörfum.

Hlýða má á Jafnréttisþing 2022 hér.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)