Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

6. desember 2022

Tímarit Sameykis á leið til félagsfólks

Tímarit Sameykis 4. tbl. 2022.

Á morgun hefst dreifing á Tímariti Sameykis til félagsfólks. Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis segir í leiðaragrein tímaritsins: „ Nú hækkar matvöruverð og einnig húsnæðislán. Rekstur heimilanna rýkur upp og laun duga ekki til framfærslu. Á sama tíma eru tekjustofnar ríkisins vannýttir; bankaskattar, fjármagnstekjuskattar, auðlegðarskattar, hvalrekaskattar og hækkun auðlindagjalda. Ríkisstjórn íhalds og nýfrjálshyggju leggur til að rekstur samfélagsins, innviðanna, komi lóðbeint úr launaumslagi almennings á sama tíma og verðmætustu eignir okkar eru afhentar útvöldum. Það er vaðið áfram á móti þjóðarvilja og mjólkurkúnum slátrað.“

 

Sigurður Pétursson, sagnfræðingur, skrifar um sögu verkalýðshreyfingarinnar og verkalýðspólitíkina og segir: „Verkalýðshreyfingin var sköpuð til að breyta valdahlutföllum í samfélaginu. Á síðustu árum hefur nýr tónn heyrst úr herbúðum verkalýðsfélaga. Herskárri tónn, raddir sem vilja breyta valdahlutföllum. Staðnaðri samstöðu er hafnað. Hafnað er þeirri leið að láglaunafólk sætti sig við brauðmola af borði hinna hærra launuðu, hvort sem er utan eða innan stéttarfélaganna. Kröfur eru gerðar í nafni láglaunafólks til að breyta tekju- og eignaskiptingu þjóðfélagsins.“

 

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði, fjallar m.a. um mikilvægi íslenskukunnáttu og íslenskukennslu í grein sinni. Eiríkur segir: „Það liggur fyrir að eigi íslenska að halda stöðu sinni sem aðaltungumál landsins við þessar aðstæður þarf að gera stórátak í að kenna þeim sem hingað koma málið. Þar þurfum við öll að leggjast á eitt – stjórnvöld, atvinnurekendur, verkalýðsfélög og fólkið sjálft. Íslenskukunnátta erlends starfsfólks er nefnilega allra hagur.“

 

Heiður Margrét Björnsdóttir, hagfræðingur hjá BSRB, prýðir forsíðu Tímarits Sameykis að þessu sinni. Hún skrifar um velsæld í íslensku samfélagi út frá grunnþörfum fólks og kjöraðstæðum af kögunarhóli hagfræðingsins. Hún segir að ríkisstjórn Íslands þurfi að gera betur, því velsæld er ekki einungis hagvöxtur. Hún segir m.a.: „Ákvarðanir ættu alltaf að taka mið af samfélagslegum áhrifum og velsæld allra íbúa en ekki eingöngu fjárhagslegum áhrifum. Hér á landi eru umsvif ríkissjóðs og stefna ríkisstjórnarinnar hverju sinni bundin umgjörð sem lög um opinber fjármál skapa. Orðið velsæld kemur hvergi fyrir í þeim lögum, hið sama á raunar við um orðin íbúi eða fólk.“

 

Margt fleira er í tímaritinu sem er 48 blaðsíður. Guðmundur Freyr Sveinsson fjallar um kjarasamninga og kröfugerðir Sameykis, Maya Staub skrifar um byrði umönnunarbilsins frá 12 mánaða til 12 ára, Guðmundur D. Haraldsson fjallar um hegðunarmynstur, vinnutíma og loftslagsmál o.fl. Félagsfólk í Sameyki rita fjölbreytta pistla. Fastir liðir eru á sínum stað eins og skop Halldórs Baldurssonar, Matargat Haraldar Jónassonar, krossgátan og verðlaunahafi krossgátulausnarinnar o.fl.

Sameyki er annt um umhverfismál og því er tímaritið prentað á umhverfisvænan og svansvottaðan pappír úr hringrásarferli Svansins. Einnig er það prentað með svansvottuðum jurtalitum en ekki jarðolíulitum.

Þeir sem hafa óskað eftir því að fá tímaritið ekki sent heim til sín geta lesið það hér þegar það kemur út.


 

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)