Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

15. desember 2022

BSRB mótmælir stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum

Áhersla ríkisstjórnarinnar er að ekki eigi að efla tekjustofna ríkissjóðs og laga ósjálfbæran rekstur hans nema með auknum álögum á almenning.

Fram kemur á vef BSRB hörð mótmæli bandalagsins vegna breytingartillaga meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um tekjuöflunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar. Bandalagið bendir á að hækkun ýmissa gjalda lenda á almenningi á meðan ríkisstjórnin fellur frá tekjuöflun t.d. vegna fiskeldis. Þá gagnrýnir BSRB ríkisstjórnina fyrir að efla ekki tekjustofna ríkissjóðs eins og bankaskatt, fjármagnstekjuskatt og hvalrekaskatt, en lætur þess í stað launafólk taka þungan af gjaldhækkunum á meðan atvinnulífinu er hlíft.


„BSRB mótmælir harðlega þeirri forgangsröðun sem endurspeglast í breytingartillögum meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um tekjuöflunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar sem birt var þann 12. desember sl. þar sem 7,7% hækkun gjalda á almenning er látin standa óbreytt á sama tíma og t.d. er fallið frá aukinni tekjuöflun vegna fiskeldis í sjó sem áætlað var að myndi skila 500 m.kr. í ríkissjóð á næsta ári.

Hér endurspeglast enn og aftur sú áhersla ríkisstjórnarinnar að ekki eigi að efla tekjustofna ríkissjóðs og laga ósjálfbæran rekstur hans að neinu marki nema með auknum álögum á almenning. Þingnefndin samþykkir óbreyttar tillögur ríkisstjórnarinnar um gjaldahækkanir á launafólk sem áætlað er að leiði hið minnsta til 0,4% hækkunar á vísitölu neysluverðs á næsta ári á sama tíma og verðbólga mælist 9,3% á ársgrundvelli.

Miklu nær hefði verið að almenningur fái að njóta vafans af áhrifum gjaldahækkana, en ekki eingöngu atvinnulífið. Líkt og fram kom í umsögn bandalagsins bitna krónutöluhækkanir verst á þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Má í þessu samhengi má nefna að 38 þúsund heimili áttu mjög erfitt eða erfitt með að ná endum saman á árinu 2021 og 52% einstæðra foreldra. BSRB fjallaði um þá staðreynd og lagði fram fjölda tillagna um frekari tekjuöflun í umsögnum sínum um fjárlaga- og tekjuöflunarfrumvörp.“

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)