Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

9. maí 2023

Bregðast þarf við hamfarahlýnun af mannavöldum

Guðfinna Aðalgeirsdóttir prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands

Guðfinna Aðalgeirsdóttir prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands hélt erindi á málþingi Umhverfis- og loftslagsnefndar Sameykis sem haldið var síðdegis í gær. Sagði Guðfinna að hamfarahlýnunin sé óumdeild innan vísindasamfélagsins og er af mannavöldum. Hlýnunin er að færast í aukana sem kemur m.a. fram í öfgakenndum veðrum á hnettinum.

„Hér á Íslandi sjáum við hlýnunina með berum augum. Við þurfum ekki að sannfæra fólk lengur um að jöklar landsins eru að bráðna hratt og þær loftslagsbreytingar séu hamfarahlýnun af mannavöldum. Ég sé breytingu á viðhorfum hjá fólki, því það er viðurkennt að um hamfarahlýnun sé um að ræða, og nú sé viðhorfið öðru fremur – hvað getum við gert í því núna?“


Brýnt að bregðast hratt við hamafarahlýnuninni
Guðfinna sagðist vilja leggja þunga áherslu á hversu brýnt það er að brugðist verði við strax.

„Ég vil leggja mikla áherslu á hversu brýnt það er að við bregðumst hratt við þessari stöðu. Það er krítískur áratugur fram undan í þessum efnum. Við verðum að bregðast við strax vegna þess að hamfarahlýnun af mannavöldum er að færast í aukana. Hamfarahlýnunin veldur m.a. aukinni ákefð í ofsaveðri, bráðnun jökla og hækkun á sjávarstöðu. Við þekkjum að aukin ákefð í ofsaveðri þýðir að tíðni ofsaveðra eykst, hitabylgjur eru tíðari, einnig í hafi. Þurrkar hafa aukist, fellibyljir eru sterkari og aftakaúrkoma meiri. Það er búið að sýna fram á það að hitabylgjan í Evrópu í apríl á síðasta ári hefði ekki orðið ef hitastig á jörðinni væri einnar gráðu kaldara. Við vitum líka núna að hnötturinn er 1,1 gráðu heitari nú en hann var í upphafi Iðnbyltingar. Skilaboðin eru þau að það sem jarðarbúar þurfa að gera til að sporna við vaxandi hitastigi á jörðinni er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Það er einfalt mál en flókið að gera því slík framkvæmd á sér margar hliðar og fleiri sjónarmið önnur. En, þetta er það sem við stöndum frammi fyrir,“ sagði Guðfinna.

Hreyfimynd frá NASA sem sýnir ársmeðaltal á hitastigi á jörðinni eftir breiddargráðum frá 1880 til 2022.

 

Koltvísýringur í andrúmsloftinu aldrei hærri en nú
„Frá árinu 2000 hefur norðurhluti hnattarins hitnað rosalega mikið og við sjáum frá árinu 1990 hefst hlýnunin og skýst upp síðustu ár. Um er að ræða hraðar breytingar vegna hlýnunar sem áhrif hefur á lofthjúpinn, einnig í hafi og freðhvolfi sem eru fordæmalausar, hvort sem litið er til síðustu áratuga, árhundruða eða árþúsunda. Til að leggja áherslu á þetta er vert að benda á að styrkur koltvísýrings í andrúmsloftinu er hærri núna en hann hefur verið á seinustu tveim milljónunum ára. Koltvísýringur eykst vegna þess að mannkynið brennir nú stöðugt meira af olíu, jarðgasi og kolum sem mynduðust úr gróðri sem óx á jörðinni fyrir milljónum ára. Gróðurinn tók þá upp koltvísýring úr andrúmsloftinu en við brunann fer hann aftur út í loftið. Koltvísýringurinn hefur aldrei verið jafn hár í andrúmsloftinu en núna. Afleiðingarnar eru að hækkun sjávarstöðu hefur aldrei verið jafn hröð og núna, miðað við a.m.k. síðustu 3000 árin, og hefur aldrei verið jafn há og nú, hafísinn á Norðuríshafi er að minnka og hann er minni núna en hann hefur verið sl. 1000 ár. Hop jöklana er fordæmalaus sl. 2000 ár. Það er ekki nokkur vafi á að athafnir manna valda loftslagsbreytingum eins og segir í skýrslu IPCC (The Intergovernmental Panel on Climate Change) sem kom út á síðasta ári. Í skýrslunni segir að það er óumdeilanlegt, ekki nokkur vafi leiki á, að athafnir manna valda loftslagsbreytingum. Ákefð og tíðni ofsaveðra eykst, hitabylgjur eru tíðari, einnig í sjó, þurrkar aukast, fellibyljir eru sterkari og úrkoma enn meiri en áður segir þar.“

 

Bráðnun jöklanna sláandi birtingarmynd hlýnunar
Guðfinna segir að sér standi hjarta næst áhyggjur sínar af bráðnum jöklana, ekki síst hér á landi og svo hækkun yfirborðs sjávar.

„Það sem stendur mér næst er hörfun jöklanna og hækkun sjávarstöðu. Við sjáum áhrif hlýnunar vel á ljósmyndum af Sólheimajökli sem Oddur Sigurðsson tók, hvernig Sólheimajökull hefur hörfað. Ljósmynd er fyrst tekin árið 1997 og síðan á sama stað árið 2000, 2003, 2005, 2006 og loks 2010. Ljósmyndirnar sína vel hve hratt jökullinn hefur hörfað yfir yfir þetta stutta tímabil. Þetta er að gerast út um allan heim. Stóru íshvelin, Suðurskautslandið og Grænlandsjökull, eru stærstu vatnsgeymar jarðar. Þegar þeir minnka fer vatnið út í hafið og við það hækkar yfirborð sjávar. Frá árinu 1992 hafa þessi íshveli aukið losun vatns mjög mikið, voru fyrst 2 millimetrar á áratug en er nú 13 millimetrar á síðustu tíu árum. Í hlutfalli hefur sjávarstaðan hækkað meira frá aldamótunum 1900 þegar mælingar hófust heldur en á síðustu 3000 árum. Frá upphafi tuttugustu aldar til dagsins í dag hefur yfirborð sjávar hækkað um 20 sentímetra samkvæmt mælingum. Hraðinn á hækkun yfirborðs sjávar hefur aukist mikið undanfarin áratug, var 1,3 millimetrar á ári, í það að vera 3,7 millimetrar á ári á tímabilinu 2006-2018,“ sagði hún.

 

Áhrif hlýnunar sést vel á ljósmyndum af Sólheimajökli.

 

Lausnin er að takmarka losun koltvísýrings út í andrúmsloftið
Þá sagði Guðfinna í erindi sínu að mjög brýnt væri að við bregðumst við og benti á að tæknilegar lausnir væru nú þegar til staðar til að draga úr losun og binda kolefni. Jafnframt sagði hún að samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda bætir bæði loftslag og loftgæði.

„Það er augljóst öllum, til að takmarka hlýnunina þarf að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta var bent á í skýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna sem kom út 2021. Það er beint samband á milli hækkun hitastigs og losun gróðurhúsalofttegunda, í þessu sambandi koltvísýrings. Losun koltvísýrings hefur vaxið gríðarlega eftir Iðnbyltingu, og eins og ég sagði áðan, þá eykst hitastigið eftir því sem meiri losun koltvísýrings er hleypt út í andrúmsloftið og nú þegar hefur hitastig jarðar hækkað vegna þess um 1,1 gráðu. Samkvæmt Parísasamkomulaginu er takmarkið að láta hitastigið ekki verða hærra en 2 gráður, en markmiðið er að gera allt sem í okkar valdi stendur að halda því við 1,5 gráður. Lausnin liggur í því að takmarka losunina, en við höfum mjög takmarkaðan tíma til að halda þessu markmiði Parísarsamkomulagsins en það er þó hægt ef brugðist er strax við,“ sagði Guðfinna að lokum.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)