Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

16. maí 2023

Kosningar hefjast í dag um harðari verkfallsaðgerðir

Formaður BSRB ræðir við verkfallsverði. Ljósmynd/BSRB.

Á vef BSRB segir að frekari verkfallsaðgerðir séu í undirbúningi og atkvæðagreiðslur um þær fara fram í dag og lýkur á föstudaginn. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir að starfsfólk sveitarfélaganna sé komið með nóg af óréttlæti Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Verkföll nær 1000 starfsmanna í 4 sveitarfélögum hófust í gær í leik, grunnskólum og frístundarmiðstöðvum og bætast við 6 til viðbótar á mánudag. Þá hefjast einnig verkfallsaðgerðir í sundlaugum, íþróttamannvirkjum og leikskólum í 10 sveitarfélögum til viðbótar á landsbyggðinni um og eftir hvítasunnuhelgina og þá verða starfsmenn í verkfalli orðnir um 1600 í 20 sveitarfélögum um allt land. Verkföll fóru vel af stað Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og Garðabæ í gær og mikill hugur í fólki.

Enn frekari verkfallsaðgerðir eru þó í undirbúningi hjá BSRB í ljósi þess að ekkert þokast í samningaviðræðum og hefjast atkvæðagreiðslur í dag um aðgerðir í 29 sveitarfélögum. Fari atkvæðagreiðslur á þann veg mun bæði lengjast í verkföllunum og bætast við fleira starfsfólk og starfstöðvar um landið allt, t.a.m. sundlaugar, áhaldahús og bæjarskrifstofur.

Niðurstöður atkvæðagreiðslna munu liggja fyrir í hádeginu á föstudag og verða kynntar í kjölfarið.

„Starfsfólk sveitarfélaganna er komið með nóg af þessu óréttlæti – og það vill fara í frekari aðgerðir. Það er sjálfsagt réttlæti að fólk fái sömu laun fyrir sömu störf og löngu tímabært að að hækka lægstu launin svo fólk í ómissandi störfum nái endum saman,“ sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Fréttin birtist fyrst á vef BSRB.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)