17. október 2023
Boðað er til kvennaverkfalls 24. október – Kallarðu þetta jafnrétt?
Þriðjudaginn 24. október 2023, eru konur og kynsegin fólk hvatt til að leggja niður launaða og ólaunaða vinnu allan daginn eins og konur gerðu þegar fyrst var boðað til Kvennafrís árið 1975. Það var sögulegur viðburður á alheimsvísu enda lögðu 90% kvenna á Íslandi niður vinnu þann dag til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir samfélagið.
Það sást með skýrum hætti m.a. þar sem að leikskólar og grunnskólar lokuðu, kennsla féll niður í framhaldsskólum og Háskóla Íslands, þjónusta var skert eða loka þurfti í verslunum, bönkum og fjölmörgum fyrirtækjum og stofnunum. Fiskvinnsla og flug féll niður og konur lögðu niður störf á skipum sem voru úti við veiðar og svo mætti lengi telja.
Í ár mótmælum við sérstaklega vanmati á störfum kvenna ásamt kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi gegn konum og kvárum.
Samstöðufundir verða haldnir um allt land þennan dag. Í Reykjavík verður fundur á Arnarhóli kl. 14:00 og við hvetjum konur og kvár í nærsveitum Reykjavíkur, svo sem Borgarfirði, Akranesi, Selfossi og af Suðurnesjum til að sýna samstöðu í verki, fylkja liði og mæta á hann. Nánari upplýsingar um samstöðufundi og aðra viðburði verður að finna á kvennaverkfall.is.
Sýndu stuðning þinn í verki
Við hvetjum þig og þitt/þína fyrirtæki/stofnun til að sýna konum og kvárum stuðning í baráttunni með því að hvetja þau til þátttöku í Kvennaverkfallinu án þess að það hafi áhrif á laun þeirra eða kjör.
Starfsemi vinnustaða er fjölbreytt og sumstaðar þess eðlis að ekki er hægt að leggja alfarið niður störf þar sem það myndi stofna nauðsynlegu öryggi eða heilsu fólks í hættu. Dæmi þar um eru tiltekin störf innan heilbrigðisstofnana, stofnana í öldrunarþjónustu eða í þjónustu við fatlað fólk. Eigi það við um þína stofnun/fyrirtæki hvetjum við til þess að leitað sé allra leiða til að gera konum og kvárum kleift að leggja niður störf þann 24. október n.k. til dæmis með breytingu á mönnunarskipulagi þann daginn og fá karlkyns starfsfólk til að taka að sér þjónustuna eða verkefnin.