Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

25. október 2023

Konur sem breyta samfélaginu

Þúsundir komu saman á Arnarhóli í tilefni Kvennaverkfalls í gær. Ljósmynd/Kvennaverkfall

Kvennaverkfallið í gær fór ekki fram hjá neinu fólki á Íslandi, ekki heldur umheiminum þar sem konur og kvár kröfðust jafnréttis – að kynbudnum launamun verði útrýmt á vinnumarkaði þar sem atvinnutekjur kvenna eru enn um 21 prósent lægri en karla, auk margra annarra sjálfsagðra krafna sem varða jafnrétti og réttlæti.

Nokkrar mikilvægar staðreyndir sem Kvennaverkfallið vöktu athygli á, er að fatlaðar konur verða fyrir meira ofbeldi en aðrar konur, að amk 40 prósent kvenna verða fyrir kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni, að vinnudagar kvenna af erlendum uppruna eru lengri og óreglulegri en gengur og gerist meðal annarra kvenna á Íslandi, að sjöttu hverri stúlku í tíunda bekk í grunnskóla hefur verið nauðgað af jafnaldra, að sjö af hverjum tíu einstæðum mæðrum geta ekki mætt óvæntum 80.000 króna útgjöldum og að kvár upplifa sig ekki örugg á vinnumarkaði og treysta sér ekki til að vera þau sjálf í vinnunni af ótta við útskúfun.


Urður Bartels, stálp úr MH sagði í ræðu sinni á Arnarhóli: „Hvort sem við erum konur, kvár eða stálp krefjumst við jafnréttis á öllum sviðum. Við erum hér saman komin til að mótmæla feðraveldinu! Við erum öll í sama báti og með sameiginlegu átaki getum við gert samfélagið réttlátara og sanngjarnara fyrir alla!“

Ríkisstjórnin spjallar – ekki eitt orð um Kvennaverkfallilð
Í dag áttu blaðamenn Dagmála Morgunblaðsins viðtal við forystumenn ríkisstjórnarinnar, Bjarna Benediktsson nýskipaðan utanríkisráðherra sem talaði eins og hann væri enn fjármálaráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson innviðaráðherra og forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur í fallegu setti í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í Reykjavík. Þau minntust ekki einu orði á þennan stóra sögulega viðburð í lífi íslensku þjóðarinnar í gær þegar um 100 þúsund konur og kvár kröfðust jafnréttis á Arnarhóli og þúsundir annarra víða um land komu saman af sama tilefni. Þátturinn stóð í eina klukkustund og í því karlaspjalli var fjallað um ýmis álitamál sem hvíla á þjóðinni og trausti þeirra á hvort öðru – þau gætu hafa spurt hvort annað: „Mér finnst þú frábær, hvernig finnst þér ég?“, svo samheld voru þau í umræðunni um þau sjálf, en ekki einu orði var minnst á Kvennaverkfallið í 60 mínútna þætti.


Ráðherrar í spjalli við Dagmál Morgunblaðsins í Ráðherrabústaðnum. Ljósmynd/Skjáskot Dagmál

Kynbundinn launamunur
Í dag er m.a. krafist að kynbudnum launamun verði eytt. Hér á landi hafa konur ávallt verið mjög virkar á vinnumarkaði. Framlag þeirra hefur þó ekki verið metið til jafns við framlag karla. Á árum áður var talið eðlilegt að konur fengju lægri laun en karlar þó um sömu störf og sama vinnutíma hafi verið að ræða. Enn eru slík viðhorf ríkjandi, það staðfesta rannsóknir á vinnumarkaðnum.

Formaður Sameykis, Þórarinn Eyfjörð, skrifaði í pistli sem birtist í gær, og sagði að það væri augljóst að konur eru að stærstum hluta á lægstu laununum í samfélaginu og þær taka mesta skellinn vegna verðbólgunnar. Þá sagði hann að kynbundinn launamunur sé ríkjandi ástand á íslenskum vinnumarkaði og stórar kvennastéttir búa við algert vanmat á virði starfa sinna. Þessi orð formanns Sameykis eru staðreyndir sem Katrín og ríkisstjórn hennar hljóta að vita af. Ef ekki, er þá eitthver úr hópi aðstoðarfólks hennar nokkuð til í að hnippa í hana?

 

Kröfur um réttlæti
Það afl sem konur hafa sýnt fram á með Kvennaverkfallinu í gær virðist ekki ná inn í umræðuna hjá forystufólki ríkisstjórnarinnar. En það mikla afl mun gera kröfur um breytingar á íslensku samfélagi, og það er ekki í fyrsta skipti sem konur beita sér fyrir því að breyta samfélaginu með góðum árangri. Ríkisstjórnin mun ekki geta vænst þess að konur og kvár sitji stillt og prúð við gerð næstu kjarasamninga því þau munu krefjast réttlætis.

Í ályktun Kvennaverkfallsins í gær stendur:

Við krefjumst þess að stjórnmálin geri kröfur Kvennaverkfalls að forgangsmáli!
STRAX!
Við krefjumst aðgerða og breytinga!
NÚNA!


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)