Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

28. nóvember 2023

Tímarit Sameykis á leið í pósti

Tímarit Sameykis.

Fjórða og síðasta tölublað tímarits Sameykis á þessu ári er nú leið í pósti til félagsfólks.

Spila með ótta og samsæriskenningar
Meðal efnis í tímaritinu er viðtal við Huldu Þórisdóttur prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Hennar sérsvið er stjórnmálasálfræði, stjórnmálaviðhorf, samspil tilfinninga og stjórnmálaskoðana og samsæriskenningar. „Það er algjörlega þannig, af ýmsum sálfræðilegum ástæðum, að covid-faraldurinn er einn sá frjóasti jarðvegur sem þú getur fundið fyrir uppsprettu samsæriskenninga, enda urðu þær til í miklu magni sem tengdust tilurð faraldursins, hvernig hann dreifðist og svo tengt bóluefnum – hverjir væru að hagnast á þeim og hvað lægi þar að baki,” segir Hulda m.a. í viðtalinu.

Þórarinn Eyfjörð skrifar í leiðara: „Á síðustu sex árum hafa eigendur HS Orku greitt sér um 33 milljarða króna í hagnað af raforkusölu fyrirtækisins. Áætlað er að bygging varnargarða í kringum orkuframleiðslu HS Orku og Bláa lónið kosti almenning 2,5 milljarða króna um leið og eigendur HS Orku hafa greitt sér út að jafnaði 5,5 milljarða á ári. Í ljósi þeirra hörmunga sem nú dynja yfir er tækifæri til að taka upp umræðuna um lögfestingu þess að almenningur eigi klárt og skýrt alla innviði og allar náttúruauðlindir landsins og njóti arðsins af þeim.“

Samhengisleysi efnahags-, peninga- og atvinnumála
Ásgeir Brynjar Torfason doktor í fjármálum skrifar að mikilvæg opinber stofnun eins og seðlabanki sem eykur óróa á vinnumarkaði sé augljóslega ekki að sinna verkefnum sínum vel. „Ef stefnumörkun miðar ekki í sömu átt þá verður mikil óreiða á góðæristímum en það hefur enn hræðilegri afleiðingar þegar á reynir við ágjöf og erfiða tíma.”

Jafnlaunavottun – eru störf kvenna minna virði en karla?
„Ýmsar kenningar hafa verið settar fram um orsakir kynbundins vinnumarkaðar og kynbundinna launa sem fyrirfinnst, þrátt fyrir tilraunir stjórnvalda og fleiri aðila til að afnema slíkt með lagasetningu og fleiri aðgerðum,“ skrifa Ragna Kemp Haraldsdóttr, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir.

Margt fleira er fjallað um í tímaritinu eins og 31. þing PSI sem haldið var dagana 14.–18. október í Genf þar sem rætt var um á þinginu ásókn einkafyrirtækja í rekstur opinberrar þjónustu og afleiðingar þess fyrir almenning, spillingu í stjórnmálum og stríðsátök. Þá er skop Halldórs Baldurssonar á sínum stað, Stoppað í matargatið, krossgátan, af vettvangi Sameykis, Kvennaverkfall o.m.fl til umfjöllunar.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)