Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

11. desember 2023

Kjaraþróun efst á baugi hjá trúnaðarmannaráði

Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis á fundi trúnaðarmannaráðs í gær. Ljósmyndir/BIG

Formaður Sameykis, Þórarin Eyfjörð, setti síðasta fund í trúnaðarmannaráði á þessu ári sem haldinn var á Hótel Reykjavík Grand í dag. Góð mæting var á fundinn og setið var í hverju sæti. Þórarinn fjallaði um kjarasamningana fram undan og kröfugerð félagsins sem byggðar verða m.a. á þeim tillögum sem komu fram hjá trúnaðarmönnum á fundinum.


Ingrid Khulman, ráðgjafi og framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar, sá um fundarstjórn og leiddi hópvinnuna með þjóðfundarfyrirkomulagi.

Ingrid Khulman, ráðgjafi og framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar, sá um fundarstjórn og leiddi hópvinnuna með þjóðfundarfyrirkomulagi þar sem skipt var upp í umræðuhópa. Meðal umfjöllunarefnis hjá hópunum voru launakjör og réttindi, samfélagsmál, húsnæðismál, stytting vinnuvikunnar og lengd kjarasamninga. Lagt var upp úr því hvað þætti mikilvægast kjarasamningunum fram undan. Þær niðurstöður mun svo Sameyki vinna áfram með við kjarasamningagerðina.

Mikil samstaða var meðal trúnaðarmanna um efni kröfugerðarinnar sem endurspeglast einnig í þjóðmálaumræðunni. Má þar nefna húsnæðismál, að hækka þurfi persónuafsláttinn, að samið verði til tveggja ára vegna stöðu efnahagsmála hjá ríkisstjórninni og um verði að ræða krónutöluhækkanir. Í hópvinnunni kom fram að hækka beri húsnæðisbætur og húsaleigubætur því niðurskurður á þeim niðurskurði bitnar verst á þeim sem hafa lægstu launin. Þá kom fram að þeir sem ekki hafa bakland kemur frí í skólum landsins illa niður á þeim hópi og því þurfi að bæta við frídögum í kjarasamningagerðina til að bæta upp launatap vegna starfsdaga í skólum. Áhersla var lögð á hækkun lægstu launa og að auka þurfi kaupmátt láglauna- og millitekjuhópa. Skoða þurfi að stytta vinnuvikuna enn frekar niður í 35 stundir eins og krafa BSRB er, en jafnvel niður í 32 stundir.


Frá trúnaðarmannaráðsfundi Sameykis.

Umönnun nákominna þarf að vera skýrt kveðið á um í næstu kjarasamningum, en ekki einungis óljós loforð um sveigjanleika. Það verði að endurskoða veikindaréttinn vegna veikinda nákominna. Samræma þurfi vinnuskyldu og frítíma og auka stuðning við foreldra og fjölskyldur. Gildistími næstu kjarasamninga má ekki vera of langur svo að kjarabætur sem samið verður um brenni ekki upp í verðbólgubáli, og einnig að hækkanir á opinberum gjöldum éti ekki upp kjarabæturnar. Vaktahvatinn, sem samkomulag náðist um í síðustu kjarasamningum, kemur illa út fyrir vaktavinnufólk. Fram kom að til að ná fullum vaktahvata þarf fólk að vinna 19 vaktir í mánuði til að ná sömu launum og það hafði áður.

Trúnaðarmannaráðið lagði til að í kröfugerðinni verði kveðið á um að bótakerfin verði styrkt. Þau tilfærslukerfi hafi ríkisstjórnin skorið stórkostlega mikið niður. Vaxtabætur og barnabætur þurfi að byggja upp á ný því niðurskurður styrkjakerfanna hefur skaðað launafólk, ungt fólk og barnafjölskyldur mikið.

Þórarinn sagði að tillögur frá trúnaðarmannaráði komi til að leggja góðan grunn að kröfugerðum félagsins. Að lokum sagði Þórarinn að það væri ánægjulegt að sjá endurnýjunina í trúnaðarmannaráðinu. Stór hluti væri ungt fólk og ungar konur sem endurspegli samsetningu félagsfólks í Sameykis.

Hægt er að skoða ljósmyndir frá fundinum í myndasafni Sameykis hér.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)