Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

13. desember 2023

„Svigrúm til kjarabóta mikið“

Stefán Ólafsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands og sérfræðingur hjá Eflingu stéttarfélagi. Ljósmyndir/BIG

Stefán Ólafsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands og sérfræðingur hjá Eflingu stéttarfélagi, hélt erindi á trúnaðarmannaráðsfundi Sameykis sem haldinn var á Hótel Reykjavík Grand 11. desember. Erindi Stefáns fjallaði um svigrúm til kjarabóta, leiðir til að efla kaupmátt og styrkja velferðarsamfélagið. Færði hann rök fyrir því að svigrúmið væri mikið til kjarabóta í næstu kjarasamningum, ekki síst þegar litið er til þess gríðarlega hagnaðar sem fyrirtækin í landinu skila þessi árin. Hagvöxtur væri nú í háum hæðum en það kæmi ekki verkalýðshreyfingunni á óvart að alveg sama hvernig veðurfarið væri í atvinnulífinu, það væri aldrei gott veður þegar kæmi að kjarabótum. Það væri aldrei svigrúm til kjarabóta.


Stefán Ólafsson á fundi trúnaðarmannaráðs Sameykis.

„Þið þekkið þessa sögu sem hafið starfað á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar þegar kemur að kjarabótum. Það er aldrei svigrúm – en hvernig hafa heimilin það núna þegar kjarasamningar eru framundan? Ef við lítum á tölur Hagstofunnar þá spáir hún að kaupmáttaraukning verði 0,9 prósent í ár. Á síðasta ári var kaupmáttaraukningin 0,0 prósent og ef við skoðum hver kaupmáttaraukningin hefur verið síðastliðin 25 ár, er hún að meðaltali 2,4 prósent,“ sagði Stefán.


Verið að biðja launafólk að ná verðbólgunni niður
Stefán sagði stöðuna nú vera þá að engin kaupmáttaraukning hefði verið á verðbólgutímum síðastliðin tvö ár. Ef farið væri að kröfum Seðlabankans nú um stundir væri um að ræða enn eina kaupmáttarskerðinguna í næstu kjarasamningum. Enn á ný væri verið að biðja launafólk að taka að sér að ná verðbólgunni niður.

„Sumum okkar í verkalýðshreyfingunni finnst að launafólk sé búið að skila sínu. Nú erum við búin að fara í gegnum tvö mögur ár án kaupmáttaraukningar sem eru þessi verðbólguár eftir COVID-19. Enn er verið að fara fram á að verkalýðshreyfingin stilli sínum launakröfum í mikið hóf og Seðlabankinn vill ekki að laun hækki meira en 4 prósent á meðan verðbólgan er nú rúm átta prósent. Hagstofa Íslands spáir að verðbólgan verði á næsta ári 5,6 prósent og ef farið verði að kröfum Seðlabankans um 4 prósent launahækkun eru það samningar upp á kaupmáttarskerðingu.

Skoðum afkomu launafólks. Til þess samanburðar höfum við tölur frá hinum Norðurlöndunum og sjáum að erfiðleikar launafólks á Íslandi eru mun meiri við að ná endum saman en í nágrannalöndum okkar. Síðustu tvö árin höfum við verið að rjúka upp fyrir hin Norðurlöndin sem ná yfirleitt ekki lengra en 22 prósent enn sem komið er. Samkvæmt könnunum á hinum Norðurlöndunum er ekki að vænta hækkana um leið og við hér á landi rjúkum upp í 44,2 prósent. Við þessu þarf að bregðast í komandi kjarasamningum en kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hefur minnkað mikið, eða um 5 prósent nú, sem gefur okkur raunsærri mynd af afkomunni. Það er ljóst að auka þarf kaupmátt launafólks.“


Stefán sagði að hækkun á íbúðaverði væri hvergi meiri í Evrópu en á Íslandi frá árinu 2010 til 2023. Alls næmi hækkun húsnæðisverðs á þessum tíma 230 prósentum. Á sama tíma hafa vaxtabætur hrunið. Hann sagði að tími væri til kominn að endurreisa velferðarúrræðin, sækja kaupmáttaraukningu og endurræsa tilfærslukerfin fyrir launafólk í landinu. Auka þyrfti barnabætur, vaxtabætur og húsaleigubætur umtalsvert og hækka þyrfti kaupmátt lægri og millilauna. Flatar krónutöluhækkanir skiluðu mestu til lægstu hópanna.



„Rauða línan sýnir þróun íbúðaverðs. Það er auðvitað þessi þróun á húsnæðismarkaði sem setur stórt strik í erfiðleika launafólks. Mjög mikil hækkun íbúðaverðs þýðir að fólk þarf að skuldsetja sig miklu meira en áður til að kaupa sér húsnæði. Svo þegar Seðlabankinn kemur með þessar stýrivaxtahækkanir þá er það gríðarlega þungur baggi fyrir ungt fólk og ungar barnafjölskyldur sem eru að stofna heimili. Þessar stýrivaxtahækkanir lenda auðvitað á heimilunum í landinu. Á sama tíma hefur vaxtabótakerfið hrunið sem hefur verið eitt helsta stuðningskerfi fólks til að geta keypt sér húsnæði.

Áður fyrr var vaxtabótakerfið að skila heimilunum meira en 20 prósent af vaxtakostnaði en eftir 2013 er búið að skera kerfið niður í 1 prósent. Það er góður mælikvarði á stöðuna. Þörfin fyrir vaxtabótakerfi er mikil og nú er kominn tími til að endurreisa stuðningskerfin sem skorin hafa verið niður af stjórnvöldum, en það eru tilfærslukerfi vinnandi fólks. Þess vegna leggjum við línuna um leiðina til kjarabóta með tveimur tillögum. Í fyrsta lagi að endurreisa tilfærslukerfin; barnabætur og húsnæðisstuðning í heild sinni (vaxtabætur og húsaleigubætur) og þannig ná til baka því sem fólk hefur tapað úr þeim stuðningskerfum á síðustu áratugum. Í öðru lagi er að sækja aukinn kaupmátt með hækkun launa, bæði fyrir lægri launahópa og millitekjuhópa. Áherslur á þeirri leið eru auðvitað mismunandi, og menn þurfa að koma sér saman um þær á endanum, hvort sem um er að ræða flatar krónutöluhækkanir eða blandaða leið með prósentuhækkunum.“

 

Hagvöxtur ekki mælst meiri síðan á gullflöguátsárinu mikla 2007
„Aðstæður til að hækka laun eru góðar. Hagvöxtur er mikill. Þið munið eftir fyrrverandi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni, sem talaði alltaf annað slagið um hvað Ísland stæði vel, hvað hagvöxtur væri mikill og atvinnugreinunum gengi svo vel. Að nýsköpunargreinum, sjávarútveginum og ferðaþjónustunni gengi svo ljómandi vel. Hagvöxtur á síðasta ári var 7 prósent og hefur ekki verið meiri síðan á árinu 2007 „þegar menn borðuðu gullflögur í veislum forstjóranna,“ sagði Stefán.

Hann sagði að skuldir íslenska ríkisins væru einar þær lægstu sem þekktust á Vesturlöndum og því væri mikið til skiptanna. Þá hefur ekki verið meiri heildarvelta fyrirtækja síðan 2002 en síðastliðin tvö ár. Hagnaður þeirra var 11,9 prósent af heildarveltu fyrir árið 2022, sem er óvenju mikið.

 

Hagnaðaraukning fyrirtækjanna ein meginástæða verðbólgunnar
Stefán sagði að það væri gríðarlegur hagnaður hjá fyrirtækjunum á meðan launafólk upplifir mikla kjaraskerðingu. Góðærið væri gríðarlegt hjá fyrirtækjum landsins.

„Ég áætla að hagnaðaraukning fyrirtækjanna sé 14,9 prósent á meðan kaupmáttur launa er 0,9 prósent, samanlagt á verðbólguárunum 2022 og 2023. Við höfum verið að segja í verkalýðshreyfingunni að ein ástæða verðbólgunnar sé vegna hagnaðaraukningar fyrirtækjanna. Þessar tölur sanna það. Aukning hagnaðar íslenskra fyrirtækja er sú þriðja mesta í Evrópu á síðastliðnum tveimur árum. Það er því mjög langsótt að kenna launahækkunum einum um verðbólguþrýstinginn.“

Snúa þurfi af leið skerðingaráráttu og styrkja tilfærslukerfin
„Í umræðunni hjá ASÍ er mikið verið að tala um að endurreisa tilfærslukerfin. Þau kosta nú um 25 milljarða og við viljum hækka þau um helming. Við teljum að það sé nauðsynlegt að fá þessar hækkanir til launafólks og fyrir mjög stóran hluta heimilanna. Ef við ætlum að ná þessu í gegnum hækkun launa þurfa þau að hækka um 60 til 70 þúsund krónur. Efling leggur áherslu á flatar krónutöluhækkanir. Við erum að tala um að ef ríkið komi til móts við verkalýðshreyfinguna verði um að ræða minni launahækkanir í samningum við ASÍ. Með þessu móti myndi vera hægt að lækka verðbólguna. Það er útilokað að launafólk innan ASÍ gefi ekkert eftir í kjarasamningum ef önnur hvor leiðin verði ekki valin. Það má ekki skilja eftir í komandi kjaraviðræðum að fyrirtækin geti látið launahækkanir renna beint út í verðlagið. Það þarf að setja reglur um það,“ sagði Stefán.


Að lokum sagði hann að útgjöld hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu frá 1988 til fjárlaga næsta árs væru komin niður í 0,6 prósent en voru hæst 1,9 prósent. Stefán sagði að heimilin í landinu hefðu tapað gríðarlega á sama tíma – meðalfjölskyldan var áður að fá 60 þúsund úr tilfærslukerfunum en nú eru hún að fá um 20 þúsund krónur. Það væri hreint tap um 40 þúsund krónur fyrir heimilin.

„Hvernig ætlum við að bæta þetta upp með öðrum hætti en að snúa af þessari grófu skerðingu með tilfærslukerfunum? Hérna tíðkast skerðingarárátta,“ sagði Stefán Ólafsson að lokum.


  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)