Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

25. janúar 2024

Formaður Sameykis ræddi stöðu kjarasamninga á trúnaðarmannaráðsfundi

Frá trúnaðarmannaráðsfundi Sameykis í dag.

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, setti fund trúnaðarmannaráðs í dag á Hótel Reykjavík Grand. Hann ræddi komandi kjarasamninga sem eru 17 talsins og sagði að samninganefndir Sameykis hafa verið í markvissri undirbúningsvinnu hver á sínu samningssviði. Sú vinna hófst með greiningarfundi Trúnaðarmannaráðs þann 11. desember síðastliðinn þegar um 200 trúnaðarmenn unnu að megináherslum og kröfum í komandi kjarasamningum.


Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis.

„Áhersluatriðin voru fjölbreytt og snertu alla kjarasamninga sem Sameyki gerir, en þeir eru 17 talsins. Samninganefndir félagsins hittust síðan á námskeiði og vinnufundi þann 15. janúar síðastliðinn, þar sem nefndirnar einbeittu sér að því að fullgera kröfugerðirnar. Kröfur nefndanna eru tilbúnar fyrir fyrstu samningana sem losna í janúar og febrúar og nú er verið að vinna að lokaútfærslu kröfugerðar fyrir samningana sem losna í lok mars. Fyrstu samningarnir eru við Isavia, Orkuveituna, Fríhöfnina, RARIK og RÚV og síðan eru samningarnir við Reykjavíkurborg, ríki og aðra aðila sem starfa að almannaþjónustunni lausir þann 31. mars næstkomandi,“ sagði Þórarinn.

Þá sagði hann að fyrir síðustu áramót hafi komið fram mjög jákvæðar fréttir af viðræðum innan ASÍ og Samtaka atvinnulífsins. Þær fréttir snerust um að unnið væri að því að koma saman samningum sem byggðu á hógværum launahækkunum, endurreisn bótakerfa og lækkun verðbólgu og vaxta. Þórarinn sagði að þar hafi verið rætt um þjóðarsátt þar sem allir aðilar á markaði myndu leggja sitt af mörkum, „allt góðar áherslur og nauðsynlegar,“ sagði hann.

„Um miðjan janúar slitnaði síðan upp úr þessu samtali, að sögn vegna þess að SA hugnaðist ekki að gera krónutöluhækkanir að forgangsatriði í samningunum. Í gær vísuðu svo stéttarfélögin innan Alþýðusambandsins kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara,“ sagði Þórarinn að lokum.


Jenný Stefánsdóttir, lögfræðingur hjá Sameyki.

Jenný Stefánsdóttir, lögfræðingur hjá Sameyki, fór yfir ýmsa dóma sem fallið hafa hjá Félagsdómi og Landsrétti. Þar fjallaði Jenný um dóm sem féll í Félagsdómi þar sem krafist var viðurkenningar á því með dómi, að vinnuveitanda sé óheimilt að skikka starfsmann til að mæta til trúnaðarlæknis vinnuveitandans. Hægt er að lesa grein sem Jenný skrifaði um dóminn hér. Þá sagði hún frá dómi í Landsrétti, „Ferðatími á vegum vinnu er vinnutími“. Sagt var frá dóminum á vef Sameykis, sjá hér. Hún sagði frá dómi Hæstaréttar þar sem málsatvik voru þau að einstaklingur varð fyrir líkamstjóni þegar ekið var á hann á gangbraut við Ánanaust. Starfsmaðurinn gekk til vinnu og hljóp frá vinnustað til heimilis. Sjá dóm Hæstaréttar Íslands hér.

Síðan sagði hún frá dómi Landsréttar um ólöglega uppsögn þegar starfsmaður hjá Kópavogsbæ höfðaði mál gegn bænum til heimtu bóta vegna uppsagnar úr starfi hjá Kópavogsbæ. Málið var byggt á því að Kópavogsbær hefði brotið gegn rétti starfsmannsins með því að tengja uppsögn viðkomandi ætluðum skipulagsbreytingum án þess að bjóða starfsmanninum tilfærslu í starfi þegar breytingunum var hrundið í framkvæmd. Hægt er að lesa dóminn hér. Að lokum fjallaði Jenný um dóm sem féll í Hæstarétti Íslands í máli um Veikindarétt- Kynrænt misræmi þar sem Hæstiréttur staðfesti rétt einstaklingsins til launa í veikindaforföllum vegna kynstaðfestandi skurðaðgerð (brjóstnám). Lesa má um dóminn hér.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)