Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

14. október 2025

Líflegur félagsfundur haldinn á Akureyri

Kári Sigurðsson, formaður Sameykis. Ljósmyndir/Axel Jón

Stjórn Sameykis fundaði með félagsfólki á Akureyri í dag. Ferðin norður var auk þess nýtt til að heimsækja Kjöl stéttarfélag þar sem rekstrarstjóri Kjalar, Anna Guðný Guðmundsdóttir, tók á móti hópnum og fræddi gesti um starfsemi félagsins. Þá nýtti stjórnin tækifærið og skoðaði nýjar orlofsíbúðir við Austurbrú 12 í hjarta Akureyrar sem félagið opnaði til útleigu fyrir félagsfólk í maí á þessu ári. Að loknum félagsfundi kom stjórn Sameykis saman til stjórnarfundar í höfuðstað Norðurlands áður en haldið var til baka til Reykjavíkur.


Fh. Gunnsteinn R. Ómarsson, framkvæmdastjóri, Suzana Vranjes, Ingunn Hafdís Þorláksdóttir, Kári Sigurðsson, formaður, Herdís Jóhannsdóttir, Anna Guðný Guðmundsdóttir, rekstrarstjóri. Aftari röð f.h. Jakobína Þórðardóttir, deildarstjóri félagsdeildar, Egill Kristján Björnsson, Svanhildur Steinarsdóttir, Jón Brynjarsson og Ingibjörg Sif Sigríðardóttir. Ljósmynd/Axel Jón

Félagsfundurinn var haldinn í hádeginu á Hótel KEA og boðið var upp á súpu og kaffi. Formaður Sameykis, Kári Sigurðsson, bauð félagsmenn velkomna og lagði þunga áherslu á í orðum sínum hve mikilvægt það væri að hafa öfluga trúnaðarmenn á Norðurlandi. „Við viljum efla félagsstarfið og til þess þurfum við að hafa öfluga trúnaðarmenn hér á Norðulandi sem og annarsstaðar á landinu.“

Þá sagði Kári frá starfsemi Sameykis; skipulagi skrifstofunnar, kjaramál og stofnanasaminga, fræðslumál og orlofsmál. Hann sagði frá uppbyggingu orlofshúsa Sameykis á Úlfljótsvatni og víðar um landið og sagði að uppbyggingarverkefnið á Úlfljótsvatni væri mjög stórt og óvíst væri hvort áætlanir um opnun þeirra orlofshús myndu standast vegna ýmissa úrlausnarmála sem hafa tafið fyrir. Að loknum umræðum um orlofsmál, sem alltaf er vinsælt umræðuefni, snéri Kári máli sínu að lögum félagsins, breyttum áherslum og framtíð Sameykis. Hann sagði að nauðsynlegt hefði verið að breyta reglum í Styrktar- og sjúkrasjóði vegna þess hve hratt gekk úr sjóðnum af fé.

„Mikil sókn hefur verið í Styrktar- og sjúkrasjóð og því höfum við breytt áherslum hvað þar sem sjóðurinn gæti staðið tæpt ef ekki hefði verið brugðist við þeim vanda. Því var gripið til þess ráðs að breyta reglunum til að tryggja jákvæða stöðu sjóðsins til framtíðar og miðast hámarkið nú við 750.000 kr. mánaðarlaun,“ sagði Kári.

 

Uppstillingarnefnd heyri sögunni til
Kári boðaði breytingar á lögum félagsins á næsta aðalfundi og sagði að hann væri ekki hlyntur því, eins og verið hefur, að uppstillingarnefnd velji eftir kúnstarinnar reglum og umsóknum fólk á uppstillingarlista. Kári sagðist vilja opna félagið fyrir félagsfólki og gefa því tækifæri á að bjóða sig fram í stjórn og til að gegna ábyrgðarstörfum í þágu þess.

„Ég er hlynntur því að opna félagið með þeim hætti að félagsfólk geti með einföldum og aðgengilegum hætti kosið sér formann og stjórn með beinni kosningu en ekki í gegnum uppstillingarlista sem lagður er fyrir trúnaðarmannaráðsfund til samþykktar. Það er einhvern algjör ómöguleiki sem fylgir þeirri aðferð að búa til uppstillingarnefnd sem starfar leynt til að velja fólk til að leiða félagið sem það á,“ sagði Kári.

Í lok fundar skipti stjórnin sér á umræðuborð með félagsmönnum til að ræða málefnin og framtíðina hjá félaginu og í lokin var tekin saman helstu umræðiefnin á borðunum og þau kynnt á fundinum. Meðal þeirra voru eftirfarandi:

• Heildarþak sett á styrki í Styrktar- og sjúkrasjóð
• Breyta reglum í Styrktar- og sjúkrasjóði um að félagsfólk geti nýtt sér styrk út frá upphæð en ekki út frá tegund styrks eins og gleraugnastyrk
• Að Sameyki beiti sér gegn fyrirætlunum stjórnvalda að fella niður áminningarskylduna úr starfsmannalögum opinberra starfsmanna
• Séreignasparnaður verði ekki afnumin vegna húsnæðislána
• Fjölga skuli orlofsíbúðum á erlendri grundu
• Sleppa því að vera með punktakerfi í orlofsmálum
• Að skapaður verði vettvangur fyrir félagsfólk til að ræða sín á milli um verkalýðspólitík og málefni Sameykis
• Að áhersla verði lögð á að starfsaldurhækkanir verði tíðari
• Að bætt verði við fræðslu- og starfsmenntunarnámskeiðum á Norðurlandi

Að loknum skemmtilegum og líflegum umræðum var fundi slitið.


  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd