18. nóvember 2025
Tímarit Sameykis á leið til félagsfólks

Tímarit Sameykis er nú á leið í pósti til félgasfólks. Að þessu sinni er þema tímaritsins gervigreind og áhrif sem hún hefur á störf, vinnuumhverfi og samfélag. Skúli Bragi Geirdal, sviðsstjóri hjá Netvís, veltir fyrir sér notkun samfélagsmiðla þar sem gervigreindin hefur tekið sér sess í umræðunni og er farin að hafa margbreytileg áhrif á hvernig við neytum upplýsinga. Hann gefur lesendum tíu heilræði um notkun samfélagsmiðla. Kolbeinn Stefánssonar, dósent við Háskóla Íslands, veltir fyrir sér hvort vélar geti í raun hugsað, eða hvort við mennirnir séum kannski sjálfir orðnir að forrituðum verum í samfélagi sem krefst sífellt meiri skilvirkni. Axel Jón Ellenarson, samskiptastjóri Sameykis, skrifar um áhættur og áskoranir sem fylgja notkun gervigreindar á vinnumarkaði.
Í tímaritinu er ítarlegt viðtal við Kára Sigurðsson, formann Sameykis, um störf hans, verkefni félagsins, áherslur og framtíðarsýn hans fyrir félagið. Kristín Heba Gísladóttir og Sóllija Bragadóttir hjá Vörðu kynna niðurstöður stofnunarinnar sem sýna að fimmtíu árum eftir kvennaverkfallið búa innflytjendakonur við lakari kjör og minna öryggi en innfæddar konur, sem er áminning um að jafnrétti er stöðugt verkefni.
Egill Kristján Björnsson, fangavörður og stjórnarmaður í Sameyki, fjallar um verkfallsréttinn, þennan heilaga rétt launafólks, og kallar eftir jafnræði í kjarabaráttu. Þá skrifar Þórður Kristófer Ingibjargarson pistil um brot á jafnræðisreglunni þegar menntun hans var ekki metin til launahækkunnar.
Jóhanna Þórdórsdóttir, fræðslustjóri Sameykis, skrifar um mikilvægi náms og þróunar sem eitt mikilvægasta verkfæri starfsfólks til að efla sig í starfi. Að venju er rætt við vinningshafa krossgátunnar. Að þessu sinni var það Ragnar Haraldsson, öryggisvörður á Landspítalanum, sem leysti krossgátuna. Fastir liðir eins og venjulega eru á sínum stað; Skop Halldórs Baldurssonar, Stoppað í matargatið eftir Harald Jónasson (Hara), krossgátur, fréttir af vettvangi Sameykis o.fl.
Vakin er athygli félagsfólks á eftirfarandi: Til að fá prentútgáfu tímaritsins senda í pósti þarf að skrá sig á póstlistann hér fyrir neðan með því að smella á hnappinn. Tímaritið er aðgengilegt á PDF-formi hér.
Fá Tímarit Sameykis sent í pósti
