Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

12. október 2022

Kjaraviðræðukjötlokukaloríubomba

Kjaraviðræðukjötlokukaloríubomban hans Hara. Ljósmynd/Hari

Það eru til tvær tegundir af fólki. Fólk sem steikir samlokubrauðið á pönnu og fólk sem steikir ekki samlokubrauðið á pönnu. Við skulum reyna eftir fremsta megni að tilheyra fyrri hópnum.

Eftir Harald Jónasson

Samloka með skinku og osti í samlokugrilli er tæknilega séð kjötloka, þannig að þetta er ekki alltaf flókið. Við skulum þó flækja lífið aðeins hér og gera okkur steikarsamloku með hægelduðu nautahálsstykki, endursteiktu með ostasósu og svissuðum lauk. Jafnvel smá paprikustrimlum – fyrir þá sem höndla hana. Þetta er svakaleg kaloríubomba sem jafnvel hörðustu samlokuætur ættu að kætast yfir. Skyldar lokur hafa verið kenndar við Fíladelfíuborg í henni Ameríku.

 

Eldum kjötið
Byrjum á hægelduninni. Nautahálsstykkið kallast chuck á ensku og fæst með því að koma við hjá uppáhaldskjötsalanum. Hvort sem það er Christensen kjötkaupmaður í Kjöthöllinni, Geiri í Kjötbúðinni eða Hafnfirðingarnir síkátu í Kjötkompaníi. Svo má auðvitað fletta næsta nautaframleiðanda upp í símaskránni. Lisa og Þórarinn á Hálsi í Kjós eru þar örugglega. Nautahálsinn er kjötstykkið beint fyrir ofan rifjaaugað og ætti að fást á rétt um hakkverði. Þarna eru saman komnir margir vöðvar sem vinna mikið í að halda hausnum á nautgripnum uppi – þannig að það þarf að elda þetta stykki sæmilega hægt og lengi. Aðferðin við það skiptir ekki öllu í þessu tilfelli. Smá salt og pipar á kjötið og elda svo þangað til það er alveg að detta í sundur. Við erum þó ekki að gera kæfu þannig að ekki enda í ruglinu – en svona næstum því. Til dæmis með því að súvída í poka með smá smjeri í nokkra tíma á 60 gráðum í sirka sólarhring eða elda í lokuðu íláti inn í ofni með smá vökva í þrjá, fjóra tíma á 150 gráðum. Fyrir þá sem nenna ekki hægeldun er um að gera að nota hraðsuðupott. Algerlega nauðsynlegt tæki. Blasta þá kjötið í sirka 45 mínútur og afþrýsta náttúrulega í korter eða svo. Sama hvaða aðferð er notuð skiptir mestu máli að við erum að elda kjötið þangað til að það rétt hangir saman. Best að elda það degi eða tveimur áður en samlokan er sett saman og geyma í kælinum þangað til samlokutíminn rennur upp.

 

Ostasósan
Það eru margar leiðir til að gera ostasósu en að þessu sinni byrjum við á að gera jafning. Hveiti og smjör er brætt saman í potti, sirka matskeið eða svo af hvoru. Þetta er steikt í hálfa mínútu eða rúmlega það til að ná hrollinum úr hveitinu. Þá er sirka einn og hálfur desilítri af mjólk hrærður smátt og smátt saman við. Þegar jafningurinn er kekkjalaus er hnefafylli eða tvö af rifnum osti, t.d. blöndu af Cheddar og Sveitabita, bætt út í og hrært þangað til að allt er bráðið saman. Passa að taka af hitanum þegar osturinn fer út í pottinn. Hitinn af jafningnum ætti að vera nóg til að bræða ostinn. Til að færa sósuna upp um borð bætum við töfraefni við. Nokkrum sneiðum af amerískum osti. Hann er svo fullur af efnum til að halda honum saman að hann gerir allar ostasósur sem hann snertir silkimjúkar og gljáandi. Tvær þrjár sneiðar ættu að duga í þetta magn. Annað trix er að nota bara þann ameríska en þá langar okkur drekkja poka af nachos í sósunni þannig að það verður bara seinna. Nú erum við að gera samloku!


Punkturinn yfir i-ið er svo að rífa smá kjöt út í ásamt aðeins af vökvanum sem kjötið var soðið upp úr og blanda við sósuna. Jafnvel að sjóða vökvann aðeins niður fyrst. Allt eftir nennu.

 

Samlokugerðin
Laukur og mögulega paprika eru steikt á pönnu. Grænmetið er steikt þar til það er byrjað að mýkjast og taka örlítinn lit. Ekki sulta laukinn, þá verður hann of væminn fyrir þessa loku. Hægeldaða kjötið er tekið úr kælinum og skorið niður í þunnar sneiðar eða rifið niður eftir stemningu og eldun. Steikt við háan hita þar til á það kemur smá litur. Krydda með salti og pipar eftir smekk.

Það eru til tvær tegundir af fólki. Fólk sem steikir samlokubrauðið á pönnu og fólk sem steikir ekki samlokubrauðið á pönnu. Við skulum reyna eftir fremsta megni að tilheyra fyrri hópnum. Þannig er samlokubrauðið, eitthvað mjúkt og gott, steikt upp úr skófunum af kjöt- og lauksteikingunni. Þeir sem þora bæta smá smjöri á pönnuna fyrst.

Uppbyggingin hefst með því að sósa er sett á neðri helminginn sem grunnur, þá málamyndarlag af salati, kjötið þar ofan á og steikta grænmetið ofan á það. Ef það er til súr gúrka er það aldrei verra. Hún fer þá ofan á það steikta. Efst fer svo (ó)hóflegt magn af sósu. Ef það er hægt að loka lokunni er það gert, annars bara reyna að koma þessu ofan í sig, þurrka sér um munninn og fara svo lóðbeint á kjarasamningafund.

 


Haraldur Jónasson stappar í matargatið.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)