Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

14. febrúar 2024

Orlofslandið í Munaðarnesi nú í eigu aðildarfélaga BSRB

Guðrún Soffía eigandi landsins, Ólafur Hallgrímsson, formaður rekstrar-félagsins ROM, og Gunnar Örn Gunnarsson, gjaldkeri ROM, að lokinni undirskrift kaupsamnings á landi í Munaðarnesi.

Rekstrarfélag orlofsbyggðar í Munaðarnesi (ROM) hefur gengið frá kaupum á 20 hekturum í landi Munaðarness. Að félaginu standa stéttarfélög innan BSRB sem eiga orlofshús á svæðinu. Ólafur Hallgrímsson, formaður rekstrarfélagsins ROM, sagði af þessu tilefni að aðildarfélögin hefðu með kaupunum á landinu tryggt framtíð orlofssvæðis aðildarfélaga innan BSRB í Munaðarnesi.

Ólafur sagði að stuttur tími hefði verið þangað til að leigusamningurinn rynni út. BSRB hefði leigt lóðirnar undir orlofshúsin alla tíð frá árinu 1969 en aðeins 18 ár hefðu verið eftir af leigusamningnum. Með það til hliðsjónar hefði getað skapast mikil óvissa um eignarhald landsins og þar með orlofshúsin og framtíð orlofssvæðisins.

„Það er mjög gott fyrir ROM að eyða ákveðnum áhyggjum, t.d. ef einhverjir aðrir en stéttarfélögin hefðu keypt landið. Það hefði getað skapað mikil vandræði og óvissu um framtíðina á orlofssvæðinu. Hugsaðu þér ef að einhverjir, segjum einhverjir fjárfestar, hefðu keypt þetta land og ætlað sér eitthvað annað með það. Við gætum þá staðið frammi fyrir því að félögin yrðu jafnvel að fara með orlofshúsin af svæðinu. Það er óbærileg tilhugsun. Því er mjög gott að eyða þessari óvissu allri og geta litið björtum augum til framtíðar orlofssvæðisins, ef svo má segja, því nú eiga aðildarfélögin landið undir sín orlofshús.“ 

Ólafur sagði að landið, alls 20 hektarar að stærð, hefði verið boðið til kaups með stuttum fyrirvara og öll stéttarfélögin sem stóðu að kaupunum einróma samþykkt að gera gagntilboð sem var samþykkt og loks undirritað 10. janúar síðastliðinn.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)