Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

17. febrúar 2022

Barátta er framundan

Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis.

Hér þarf að hafa í huga að það ófremdarástand sem hefur verið á húsnæðismarkaði dettur ekki af himnum ofan. Hluti af vandanum er stefnu- og ábyrgðarleysi stjórnvalda í húsnæðismálum ...

Nú erum við komin inn á nýtt ár kjarasamninga. Kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum eru lausir í haust um mánaðamótin október/nóvember og kjarasamningar á opinbera markaðnum eru síðan lausir í lok marsmánaðar 2023. Það liggur fyrir að ýmislegt hefur farið á annan veg en áætlað var þegar skrifað var undir lífskjarasamningana, sem núverandi samningar hafa verið kallaðir. Auðvitað ber þar hæst heimsfaraldurinn sem skall á okkur þegar opinberu stéttarfélögin voru í miðjum samningaviðræðum í ársbyrjun 2020. Það þarf ekki mikla spádómsgáfu til að sjá fyrir sér að komandi kjarasamningar verða erfiðari en oft áður. Það er margt sem mun stuðla að því. Stórir hópar launafólks hafa farið illa út úr faraldrinum þó svo að atvinnuleysi hafi farið minnkandi. Verðbólgudraugurinn er aftur kominn á kreik og er vel er kynt undir honum með upphrópunum um verðhækkanir vinstri og hægri, vaxtahækkanir eru kynntar til leiks og lántakendur munu væntanlega standa frammi fyrir verulegri minnkun kaupmáttar. Og húsnæðiskostnaður, bæði hjá þeim sem leigja og þeim sem kaupa, er kominn út úr öllu korti.

Húsnæðismálin eru sér kapítuli í þeirri óheillaþróun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum. Hér þarf að hafa í huga að það ófremdarástand sem hefur verið á húsnæðismarkaði dettur ekki af himnum ofan. Hluti af vandanum er stefnu- og ábyrgðarleysi stjórnvalda í húsnæðismálum í bland við sérlega vondar ákvarðanir Seðlabanka Íslands í marsmánuði 2020 þegar bankinn losaði um bindiskyldu bankanna sem átti væntanlega að örva hagkerfið. Bankarnir fengu þar um 40 milljarða sem skilja mátti að ætti að styðja betur við atvinnulífið þegar óveðurskýin voru að hlaðast upp. Bankarnir hins vegar dældu fjármunum á lágum vöxtum inn á húsnæðismarkaðinn og áttu sinn þátt í að sprengja upp allan kostnað við húsnæðiskaup og húsaleigu. Og þetta fengu þeir að gera án þess að nokkuð væri að gert til að spyrna við fótum. Nú þegar afborganir af þessum vondu lánum hækka upp úr öllu valdi halla bankarnir sér makindalega aftur, vitandi að veð þeirra í heimilum almennings munu halda, en venjulegt launafólk mun lenda í verulegum vandræðum.

Ein afdrifaríkasta ákvörðun almennings á Íslandi er sú að koma sér þaki yfir höfuð fjölskyldunnar. Þessi lágmarksréttur, að eiga einhvers staðar fastan samastað í tilverunni sem heitir heimili, hefur reglulega verið forsmáður og um hann gengið af fullkomnu skilnings- og skeytingarleysi af stjórnvöldum. Krafan um að húsnæðiskerfinu verði stýrt með hagsmuni almennings að leiðarljósi verður sífellt háværari. Það er meðvituð ákvörðun að stýra ekki húsnæðismarkaðnum og láta frumskógarlögmálið ráða. Það er einnig meðvituð ákvörðun stjórnvalda að heimila fjármagninu að mergsjúga fjölskyldur landsins reglulega. Við það er ekki lengur hægt að una.

Í komandi kjarasamningum verður margt undir. Launahækkanir, tryggingar á vaxandi kaupmætti, réttmæt skipting sameiginlegra auðlinda, breytingar á skattkerfinu þannig að hinir vel stæðu greiði meira til samneyslunnar og margt fleira.

Barátta er framundan!

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)