Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

18. október 2022

Kjaravetur framundan

Framundan er líklegast langur kjarasamningsvetur þar sem flestir kjarasamningar bæði á opinberum og almennum vinnumarkaði verða lausir.

Sannleikurinn er hins vegar sá að krónutölur sem leggjast á lágar upphæðir vega þungt í prósentureikningum en gefa í engu fleiri krónur í vasann. Sannleikurinn er einnig sá að viðkomandi starfsmenn mælast enn með lægstu launin á vinnumarkaðnum eða á bilinu 619-627 þúsund krónur á mánuði í reglubundin laun til samanburðar við 689 þúsund á almenna markaðnum samkvæmt Kjaratölfræðinefnd í júní 2022.

Eftir Guðmund Frey Sveinsson

Framundan er líklegast langur kjarasamningsvetur þar sem flestir kjarasamningar bæði á opinberum og almennum vinnumarkaði verða lausir. Lífskjarasamningarnir sem aðildarfélög ASÍ gerðu við SA renna út 1. nóvember næstkomandi og sama gildir um kjarasamninga sem Sameyki hefur gert við opinber hlutafélög eins og Isavia, Fríhöfnina og Orkuveitu Reykjavíkur. Opinberu samningarnir renna svo flestir út 31. mars 2023, þ.e. til dæmis samningar Sameykis við ríkið, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga. Nokkrir kjarasamningar á vegum Sameykis eru þó með gildistíma fram á haust 2023, t.d. samningar við Faxaflóahafnir, Félagsbústaði og Strætó bs.

 

Línurnar lagðar út
Umræða um kjaramál er þegar farin að taka meira pláss á síðum fjölmiðla og margir hafa eflaust orðið varir við fréttir frá Eflingu sem hefur tekið ýmsar þjóðhagslegar breytur inn í myndina og lagt við útfærslur Lífskjarasamningsins sem myndi þá þýða krónutöluhækkanir upp á 52.250 kr. flatar á launataxta (sjá 10. tbl. af Kjarafréttum Eflingar). Nú er þetta innlegg Eflingar í umræðuna en ekki hluti af kröfugerð félagsins enda hefur hún ekki komið út enn sem komið er. VR hefur hins vegar gefið út sína kröfugerð og þar koma launakröfur ekki fram í krónutölum eða prósentum heldur eru þær m.a. orðaðar með þeim hætti: „Aukinn kaupmáttur ráðstöfunartekna liggur til grundvallar launakröfum VR og LÍV og að launafólk geti lifað mannsæmandi lífi á dagvinnulaunum“ (Kröfugerð VR og LÍV gagnvart SA 2022).

 

Krónutöluhækkanir og prósentur
Í síðustu kjarasamningum var samið um krónutöluhækkanir fyrir þá starfsmenn sem eru á föstum töxtum, sbr. opinbera starfsmenn. Heildartala hækkana á tímabilinu nam 90.000 kr. og komu á grunnlaun á eftirfarandi tímum:

Það sem hefur gerst í kjölfarið er að hentugleikaframsetning hefur verið notuð til að rökstyðja málflutning um að opinberir starfsmenn leiði launaþróun í landinu með því að vísa í prósentur, þ.e. að starfsmenn Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga hafi hækkað um allt að 30 prósent á tímabilinu meðan almenni markaðurinn hafi aðeins hækkað um rétt rúm 20 prósent.

Sannleikurinn er hins vegar sá að krónutölur sem leggjast á lágar upphæðir vega þungt í prósentureikningum en gefa engu fleiri krónur í vasann. Sannleikurinn er einnig sá að viðkomandi starfsmenn mælast enn með lægstu launin á vinnumarkaðnum eða á bilinu 619–627 þúsund krónur á mánuði í reglubundin laun til samanburðar við 689 þúsund á almenna markaðnum samkvæmt Kjaratölfræðinefnd í júní 2022.

 

Launamunur á milli markaða
Það er mikilvægt að nefna þennan launamun því árið 2016 gerðu stjórnvöld og heildarsamtök launafólks með sér samkomulag um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna sem miðaði að því að samræma lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Samræma átti lífeyrisréttindi á almennum og opinberum vinnumarkaði, aldurstenging réttinda átti að verða grundvallarregla kerfisins og lífeyristökualdur átti að hækka (úr 65 í 67 ára) til að stuðla að sjálfbærni. Um leið skuldbundu stjórnvöld sig til að jafna launakjör opinberra starfsmanna við almenna vinnumarkaðinn með markvissum aðgerðum á næstu 6–10 árum. Núna í haust eru einmitt liðin 6 ár frá samkomulaginu og það er skemmst frá því að segja að fram að þessu hafa ekki komið neinar skilgreindar krónur í vasa opinberra starfsmanna vegna þessa og ekkert í hendi um efndir stjórnvalda í þeim efnum. Það er því ekki hægt að útiloka að sverfa verði til stáls í vetur vegna þeirrar óþolandi stöðu sem málefni jöfnunar á milli markaða situr í.

 

Það þarf að horfa bæði afturábak og áfram
Í aðdraganda síðustu kjarasamninga var mikill einhugur meðal stéttarfélaga BSRB í baráttunni fyrir styttingu vinnuvikunnar sem hafði ekki breyst frá því 1971 þegar hún var lögfest í 40 klst. á viku. Eftir að baráttan hafði staðið nánast í heilt ár fram yfir gildistíma fyrri kjarasamninga tókst að semja um að dagvinnustaðir gætu tekið upp 36 klst. vinnuviku með sérstöku vinnustaðasamkomulagi og umfangsmiklar kerfisbreytingar urðu í vaktavinnu þar sem vinnuvikan varð 32–36 klst. eftir vaktabyrði.

Það er augljóst að þau vandkvæði sem komu fram í innleiðingu styttingarinnar, hvort heldur sem er í dagvinnu eða vaktavinnu, kalla á frekari vinnu og baráttu þeim tengdum í vetur. Til að mynda verða starfsmenn að geta treyst því að þeir komist í hefðbundin neysluhlé og geti sinnt brýnum persónulegum erindum s.s. heilbrigðisþjónustu á vinnutíma þó svo að styttingin hafi gengið í garð en félagsmenn okkar hafa á tíðum kvartað undan harðræði hvað þessa þætti varðar.

Þá hafa nýjar áskoranir og stöður birst í kjaramálum frá síðustu kjarasamningum, en covid kenndi landsmönnum t.d. að heimavinna getur í mörgum störfum verið ákjósanlegur kostur – bæði fyrir starfsmenn og vinnustaði. Um heimavinnu er hins vegar hvergi fjallað í kjarasamningum og spennandi að sjá hvort samningsaðilar geti náð saman um réttindi og skyldur í slíku starfsumhverfi. Þó ýmis réttindamál vegi þungt í kjara- og réttindabaráttu starfsmanna er ljóst að kaupmátturinn er yfirleitt efstur á blaði. Í þeirri verðbólgu sem nú ríkir þurfa allir að leggjast á eitt að tryggja sem mesta velferð í samfélaginu. Þar er ábyrgðinni oft skellt á launafólk sem situr undir áróðri um að launahækkanir geri ekki annað en að kynda undir verðbólgubálinu. Seðlabankinn hefur þar á meðal verið duglegur að vísa til ábyrgra kjarasamninga og um leið keyrt vexti áfram sem bitnar hvað mest á þeim sem minnst hafa. Á þessu eru hins vegar aðrar hliðar sem mætti heyrast meira um en það er ábyrgð þeirra sem selja vörur og þjónustu í landinu. Það hefur nefnilega hingað til ekki staðið á verðhækkunum þegar samfélagið má minnst við þeim og því er ánægjulegt að sjá nokkur fyrirtæki stíga fram í haust og lofa föstu verðlagi á vörum sínum a.m.k. fram að áramótum. Einnig er alveg ljóst að í landinu eru mikil verðmæti og enginn peningaskortur á mörgum stöðum. Viðfangsefnið í kjarasamningum er nefnilega ekki aðeins að tryggja kaupmátt heldur líka réttláta skiptingu í landinu. Það er nefnilega nóg til.

 

Kjarasamningar lausir á eftirfarandi tíma
1. nóvember 2022
Fríhöfnin
Isavia
Orkuveita Reykjavíkur
Rarik
31. desember 2022
Ríkisútvarpið
31. mars 2022
Ás styrktarfélag
Klettabær
Reykjavíkurborg
Ríkið
Samband íslenskra sveitarfélaga v/Inneimtustofnunar sveitarfélaga
Samband íslenskra sveitarfélaga v/Seltarnarnesbæjar og
Akraneskaupstaðar og Höfða
Samband íslenskra sveitarfélaga v/Slökkviliðs
höfuðborgarsvæðisins
Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV)
Skálatún
Vinakot
30. september 2023
Faxaflóahafnir
Félagsbústaðir
Strætó bs.


Baráttan skipulögð og kröfur settar fram
Í lok september mun Sameyki kalla til fulltrúaráð sitt, sem samanstendur af hátt í 200 félagsmönnum sem hafa verið kosnir sem trúnaðarmenn á sínum vinnustöðum, til að fjalla um stöðuna í kjaramálum og móta komandi kjarabaráttu. Í vinnunni verða lagðar meginlínur um þær sameiginlegu kröfur sem félagið mun leggja á borð viðsemjenda sinna á næstu mánuðum en gagnvart hverjum og einum samningsaðila eru svo skipaðar sérstakar samninganefndir sem gera fastmótaðar kröfur til viðkomandi starfsumhverfis. Þannig byggir Sameyki upp samstöðu og einingu um stóru línurnar í kröfugerðunum en um leið aðlagar hver samninganefnd sig að viðkomandi vinnuveitanda eftir því sem við á hverju sinni.

Það er ljóst að ofansögðu að það er mikið framundan í kjaramálum félagsins enda margir samningar lausir á næstunni. Félagið er þessa dagana að senda samningsaðilum viðræðuáætlanir en markmið allra kjarasamninga er að einn samningur taki við af öðrum þegar samningstímabili lýkur. Sagan hefur hins vegar kennt okkur að það er ekki á vísan að róa með viðbrögð vinnuveitenda og ómögulegt að spá fyrir um framhaldið. Ef í hart fer skiptir samstaða launafólks öllu máli og með einhug og staðfestu munum við ná okkar markmiðum.

Höfundur er deildarstjóri kjaradeildar Sameykis.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)