Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

9. desember 2022

Mikilvægi íslenskukunnáttu og íslenskukennslu

Eiríkur Rögnvaldsson prófessor í íslenskri málfræði. Ljósmynd/Árni Sæberg

„Það liggur fyrir að eigi íslenska að halda stöðu sinni sem aðaltungumál landsins við þessar aðstæður þarf að gera stórátak í að kenna þeim sem hingað koma málið. Þar þurfum við öll að leggjast á eitt – stjórnvöld, atvinnurekendur, verkalýðsfélög og fólkið sjálft. Íslenskukunnátta erlends starfsfólks er nefnilega allra hagur.“

Eftir Eirík Rögnvaldsson

Á örfáum árum hefur orðið gífurleg fjölgun í hópi útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Fjöldi íbúa af erlendum uppruna nálgast óðum 20% landsmanna, meira en helmingur félagsmanna í næststærsta stéttarfélaginu, Eflingu, er nú þegar af erlendum uppruna og því er spáð að erlent starfsfólk verði orðið allt að helmingur vinnuaflsins fyrir miðja öldina. Það fólk sem hingað kemur talar ekki íslensku og iðulega ekki ensku heldur, en lærir samt yfirleitt ensku á undan íslensku vegna þess að enskan er notuð sem samskiptamál við Íslendinga og milli erlends starfsfólks af ólíku þjóðerni. Það er ljóst að þetta hefur mikil áhrif á stöðu íslenskunnar sem fram undir þetta hefur verið aðalsamskiptamálið – og raunar eina samskiptamálið – á Íslandi. Því miður höfum við ekki tekið á þessum málum sem skyldi.

Breytt staða íslensku í kjölfar fjölgunar útlendinga á vinnumarkaði
Áhrif þessara breytinga gætu orðið margvísleg. Það er t.d. hugsanlegt að sumir atvinnurekendur kæri sig ekkert um að erlent starfsfólk þeirra læri íslensku því að þeir óttist að það gæti þá farið að gera meiri kröfur og átta sig betur á réttindum sínum. Sú hætta er nefnilega fyrir hendi að íslenskan verði notuð, meðvitað eða ómeðvitað, til að búa til lagskipt þjóðfélag þar sem annars vegar erum „við“ – fólk sem ræður öllu í þjóðfélaginu, m.a. í krafti málfarslegra yfirburða, og situr að bestu bitunum hvað varðar menntun, tekjur o.s.frv. – og svo „hin“, fólk af erlendum uppruna, jafnvel önnur og þriðja kynslóð innflytjenda, sem hefur ekki gott vald á íslensku og kemst þess vegna hvergi áfram í skóla og á vinnumarkaði en situr eftir í láglaunastörfum, áhrifalaust um umhverfi sitt og framtíð.

Hér gætu myndast einangruð samfélög þar sem íslenska væri ekki notuð – aðaltungumál væri pólska eða annað erlent mál en enska notuð sem samskiptamál við umhverfið. Fyrir utan þau áhrif sem áður er nefnt að þetta hefði á fólkið sjálft væri það vitaskuld stórhættulegt fyrir lýðræði í landinu ef til yrðu stórir hópar sem ekki ættu kost á virkri þátttöku í samfélagslegri umræðu. Það skapar grundvöll fyrir margs kyns öfgastefnur og óróa eins og fjöldi dæma frá öðrum Evrópulöndum sýnir. Þar fyrir utan myndi þetta ógna íslenskunni verulega því að það væri ekki nóg með að stórir hópar landsmanna töluðu hana ekki – við hin, sem erum íslenskumælandi, myndum verða að nota ensku margfalt meira en áður í samskiptum við þau sem ekki kynnu málið og notkunarsvið málsins þar með dragast saman.

Íslenskukunnátta er allra hagur
Það liggur fyrir að eigi íslenska að halda stöðu sinni sem aðaltungumál landsins við þessar aðstæður þarf að gera stórátak í að kenna þeim sem hingað koma málið. Þar þurfum við öll að leggjast á eitt – stjórnvöld, atvinnurekendur, verkalýðsfélög og fólkið sjálft. Íslenskukunnátta erlends starfsfólks er nefnilega allra hagur. Atvinnurekendur fá starfsfólk sem getur sinnt fjölbreyttari störfum, fellur betur inn í samfélagið og er líklegt til að vera ánægðara. Fólkið sjálft verður sveigjanlegra og eykur möguleika sína á vinnumarkaði. Dregið er úr hættunni á því að fólk af erlendum uppruna einangrist í samfélaginu, með öllum þeim erfiðleikum og hættum sem því geta fylgt, bæði fyrir fólkið sjálft og samfélagið. Og íslenskan blómstrar – notkunarsvið hennar stækkar í stað þess að dragast saman.

Auðvitað verður aldrei hægt að kenna öllum sem hingað koma íslensku, en ég hef þá trú að fólk sem ætlar sér að setjast hér að vilji læra íslensku og leggja töluvert á sig til þess, því að það átti sig á að íslenskukunnátta bætir stöðu þess í samfélaginu. En margt fólk kemur hingað til skemmri dvalar, ætlar að vinna hér um tíma en hugsar sér ekki að ílendast hér. Það veit að íslenskan gagnast því hvergi nema á Íslandi og því er eðlilegt að það sé ekki ginnkeypt fyrir því að verja miklum tíma í íslenskunám. En ef um er að ræða fólk í þjónustustörfum sem þarf að hafa mikil samskipti við Íslendinga er samt hægt að ætlast til að því sé kenndur nauðsynlegasti orðaforði til að nota í samskiptum við viðskiptavini. Það er hægt að gera á tiltölulega stuttum tíma og myndi hafa jákvæð áhrif á ímynd viðkomandi fyrirtækja.

Íslenskukennsla í kjarasamningum
Í haust sló ég fram þeirri hugmynd að verkalýðshreyfingin gerði þá kröfu í væntanlegum samningum að erlendu starfsfólki yrði gefinn kostur á vandaðri íslenskukennslu í vinnutíma. Atvinnurekendur bæru kostnaðinn af þeirri vinnuskerðingu sem af þessu hlytist, en stjórnvöld kæmu á móti með því að sjá til þess að mennta hæfa kennara, greiða fyrir vinnu þeirra og útvega góð kennslugögn. Miðað við nýlegar yfirlýsingar Samtaka atvinnulífsins taldi ég ekki ástæðu til að ætla annað en kröfur af þessu tagi myndu mæta skilningi – „við hljótum að senda út hvatningu til allra sem eru í aðstöðu til þess að styrkja íslenska tungu frekar en að veikja hana hægt og bítandi“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtakanna nýlega í viðtali á Stöð tvö.

Þessi hugmynd olli nokkru fjaðrafoki og var misjafnlega tekið – formaður Eflingar og fleiri verkalýðsleiðtogar töldu hana fráleita en Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi og fleiri fögnuðu henni. Vitanlega má deila um aðferðina en ástæðan fyrir því að ég nefndi kjarasamninga í tengslum við þetta er sú að ef fólki á að vera heimilt að nýta hluta vinnutímans til íslenskunáms hlýtur það að verða að koma fram í kjarasamningi. Það þarf alls ekki að þýða, eins og víða var haldið fram í umræðunni, að verkalýðshreyfingin þyrfti þar með að lækka launakröfur sínar eða hverfa frá einhverjum öðrum kröfum. Það má vel hugsa sér að verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur semdu um að fólki gæfist kostur á íslenskunámi í vinnutímanum en sendi svo ríkinu reikninginn. Annað eins hefur nú gerst.

Að lokum
Hvernig sem staðið verður að þessu er ég sannfærður um að það er mikilvægt fyrir erlent starfsfólk að læra íslensku til að bæta stöðu sína á vinnumarkaði og í samfélaginu. Það er t.d. vitað að margt vel menntað fólk er hér fast í láglaunastörfum sem tengjast menntun þess ekkert og getur ekki unnið við sitt fag vegna skorts á íslenskukunnáttu. Ég held hins vegar að það sé nokkuð almenn skoðun að íslenskukennsla sem fer fram að loknum löngum vinnudegi sé ekki vænleg til árangurs. Grundvallaratriði er að kennslan fari fram á vinnutíma og helst á vinnustað –það eykur líkur á að kennslan höfði til fólksins og verði þar með árangursrík. Sem betur fer hafa nokkur fyrirtæki og stofnanir þegar hafið slíka kennslu og mjög mikilvægt er að fleiri fylgi í kjölfarið – sem fyrst. Við megum engan tíma missa.

Höfundur er prófessor í íslenskri málfræði og málfarslegur aðgerðasinni.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)