Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

10. febrúar 2023

Siðferði, fagmennska og trúverðugleiki

Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands.

Fagfólk má vera stolt af að starfa í almannaþjónustu. Í nútímasamfélagi gegnir það að vissu leyti, ásamt eftirlitsstofnunum og fjölmiðlum, hlutverki verndaranna sem Platon gerir að umtalsefni í Ríkinu. Slíkir varðmenn veita viðnám þeim öflum sem vinna gegn almannahagsmunum, hvort heldur sem þau eru á vettvangi stjórnmála, fjármála eða menningar.

Eftir Vilhjálm Árnason

Það er mikilvægt að átta sig á hve samofið siðferði er hversdagslegum athöfnum, jafnt í einkalífi, störfum og á opinberum vettvangi. Þetta gleymist oft þegar rætt er um siðferði, líkt og það feli einkum í sér háleitar kröfur sem séu utan og ofan við hið hversdagslega. Mér finnst þetta vera skaðleg afstaða sem villir okkur oft sýn. Nærtækt er taka dæmi um fagmennsku í þessu tilliti. Algengt er að fagmennska sé einungis rædd út frá tæknilegri kunnáttu og verklegri færni en hið siðferðilega sé líkt og til hliðar og einungis þurfi að huga að því þegar spurningar rísa um tiltekin álitamál. Færa má þó sterk rök fyrir því að hin siðferðilega vídd sé óaðskiljanlegur hluti fagmennskunnar. Réttnefndur fagmaður er ekki aðeins vel að sér í fræðunum sem varða starfssvið hans og sérsvið, leikinn í að beita þeirri þekkingu á viðfangsefnið eða koma henni á framfæri, heldur sýnir hann jafnframt hæfni í samskiptum við þá sem þekkingin og færnin varðar og býr yfir dómgreind til að meta í hvaða skyni henni er beitt. Jafnframt leggur fagmanneskja sig fram af alúð til að rækja starf sitt vel.

Þessi atriði – alúð, samskiptahæfni og dómgreind – eru siðferðilegir þættir fagmennskunnar. Með orðum Aristótelesar má segja að fagmennska útheimti í senn bókvit, verksvit og siðvit.i Siðvitið birtist í dómgreindinni til að meta hvað er við hæfi að gera, en líka í dygðum á borð við samviskusemi og hugrekki sem gerir það kleift að víkja ekki frá því sem er við hæfi. Þegar fagmennska er skilin með þessum hætti þá virkar hún sem viðnám gegn spillingu. Með orðum Platons mætti segja að hinn siðferðilegi þáttur sé rotvarnarefni fagmennskunnar. Platon sagði þetta um hugrekkið sem felur í sér þrek til að standast freistingar og gylliboð, hótanir og hópþrýsting. Mikilvægt er að þessi hugsun verði hluti af sjálfsmynd allra fagstétta. Ef hinn siðferðilegi þáttur er skýr í sjálfsmynd fagmannsins þá gengur hann ekki á mála í þágu annarra markmiða né er hann falur til að þjóna öðrum öflum en þeim sem samrýmast þeirri skuldbindingu sem hann hefur undirgengist sem fagmaður.

„Með orðum Aristótelesar má segja að fagmennska útheimti í senn bókvit, verksvit og siðvit.“

 

Verkferlar bæta ekki óheflaða framkomu
Ég vitna hér í forna spekinga vegna þess að þeir lögðu áherslu á siðferði sem innri eiginleika, þá manngerð eða „karakter“ sem birtist þegar á reynir. Er hægt að reiða sig á viðkomandi þegar til kastanna kemur? Nú á tímum er okkur tamt að ræða siðferðið sem ytra reglukerfi sem á að tryggja sanngirni í samskiptum. Bæði mannkostir og réttlátar leikreglur eru mikilvægar fyrir gott siðferði og fagmennsku. Þegar eitthvað fer úrskeiðis í samskiptum borgaranna við stofnanir og fyrirtæki er gjarnan sagt að bæta þurfi verkferla. Það geta verið nauðsynleg viðbrögð til að bæta fyrir mistök, en sjaldnast nægileg. Mistök eða misgjörðir eiga sér oft rætur í óheflaðri framkomu, tillitsleysi og skorti á að hlustað sé á fólk. Slík hegðun verður ekki bætt með verkferlum heldur þarf að brýna mikilvægi þess að auðsýna þjónustuþegum og skjólstæðingum virðingu. Það er hluti þess að rækja starf sitt af alúð.

Enn er ónefnt það atriði fagmennskunnar að hún felur í sér eins konar loforð eða skuldbindingu gagnvart almenningi. Fagfólk nýtur tiltekinna réttinda til að gegna ákveðnum störfum í krafti menntunar og sérþekkingar. Andlag þessara réttinda eru skyldur við samfélagið eða almenning. Fagmennska er því starf í almannaþágu og það veitir mikilvæga leiðsögn fyrir hinn siðferðilega þátt. Athyglisverða framsetningu á þessari hugmynd er að finna í grein eftir Michael Davis „Thinking like an engineer“.ii Að hugsa eins og verkfræðingur er að mati Davis að lúta kröfum fagsins en ekki t.d. stjórnmála eða viðskipta sem stundum þrýsta á að sveigt sé frá verkfræðilegum kröfum. Að mati Davis eru tvö atriði þungamiðja í fagmennsku verkfræðinga: „Að vernda og þróa heilindi, heiður og reisn verkfræðingastéttarinnar með því: I. Að nota þekkingu sína og færni til að efla almannaheill. II. Að vera heiðarlegir og óhlutdrægir og þjóna almenningi af trúmennsku […]“.

Michael Davis segir það vera eitt meginhlutverk skráðra siðareglna að minna á þetta atriði. Þess vegna er það svo mikilvægt að siðareglur séu séðar sem yfirlýsing faghópsins sjálfs um hvernig meðlimir hans skilja frumskyldur sínar og ábyrgð. Að öðrum kosti verða siðareglur eins og ytri kvaðir, úr tengslum við sjálfsmynd fagfólksins og hinn siðferðilegi þáttur fagmennskunnar verður óskýr. Þá er hin ytri hlið siðferðisins rofin úr tengslum við hinn innri þátt sem felur í sér skilning á þeim gildum sem siðareglurnar standa vörð um. Þegar leiðarljósið um almannaþjónustu er óaðskiljanlegur hluti af skilningi fólks á fagmennsku þá skapast forsendur trúverðugleika. Trúverðugleiki er til staðar þegar fólk hefur góðar ástæður til að treysta starfsmanni eða stofnun. Hann er því annars eðlis en sú staðreynd að fólk treysti starfsmanni eða stofnun. Traust getur verið blint eða byggt á vanþekkingu.

 

Grafið undan trúverðugleika og árásir á vandaða blaðamennsku
Nútímasamfélag er gegnsýrt af viðleitni til að grafa undan trúverðugleika og byggja upp traust á fölskum forsendum. Hið fyrra birtist til dæmis í árásum á vandaða blaðamennsku sem veitir aðhald bæði valdhöfum og valdamiklum aðilum í krafti fjármagns og eigna. Það kemur líka fram í margvíslegum tilraunum til að grafa undan vísindalegri þekkingu. Hið síðara birtist til dæmis í spuna og upplýsingaóreiðu. Þetta er alvarleg meinsemd í lýðræðissamfélagi því að hún kemur í veg fyrir að borgararnir geti myndað sér upplýstar skoðanir. Með því að leggja rækt við hinn siðferðilega þátt starfsins, getur fagfólk á öllum sviðum hamlað gegn þessum öflum. Það er borgaraleg skylda fagfólks að láta til sín taka á opinberum vettvangi þegar efni á þeirra fagsviði er rætt þannig að réttu máli sé hallað eða upplýsingum leynt. Það er hluti þess að „þjóna almenningi af trúmennsku“, svo orðalag Michaels Davis sé notað.

 

Hluti af lýðræðinu að ástunda opinskáa og gagnrýna samræðu
Fagfólk má vera stolt af að starfa í almannaþjónustu. Í nútímasamfélagi gegnir það að vissu leyti, ásamt eftirlitsstofnunum og fjölmiðlum, hlutverki verndaranna sem Platon gerir að umtalsefni í Ríkinu.iii Slíkir varðmenn veita viðnám þeim öflum sem vinna gegn almannahagsmunum, hvort heldur sem þau eru á vettvangi stjórnmála, fjármála eða menningar. Vitaskuld liggur það ekki í augum uppi hverjir almannahagsmunir eru hverju sinni, en það er mikilvægur hluti af lýðræðinu að ástunda opinskáa og gagnrýna samræðu um það meðal borgaranna. Við Íslendingar brenndum okkur illilega á því þegar samfélagið varð viðskiptavæðingu að bráð í aðdraganda hrunsins. Spunameistarar fjármagnsaflanna áttu greiðan aðgang að þjóðinni sem treysti því í blindni að samfélagið væri á réttri leið. Margir fagmenn gengu á mála fjármagnsfyrirtækja og aðrir vanræktu þá skyldu að taka þátt í samfélagsumræðu til að veita viðnám.iv Einn mikilvægasti lærdómurinn sem við getum dregið af þessu er að leitast við að þjóna almenningi af trúmennsku og heilindum. Þar tvinnast saman siðferði, fagmennska og trúverðugleiki.

Höfundur er prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands.

-------------------------------------------------------------------------------

i) Aristóteles. Siðfræði Níkomakkosar, Svavar Hrafn Svavarsson þýddi. Hið íslenska bókmenntafélag 1995.

ii) Greinin „Thinking Like an Engineer: The Place of a Code of Ethics in the Practice of a Profession“ birtist í vorhefti tímaritsins Philosophy and Public Affairs (1991), bls. 150–167.

iii) Platon, Ríkið, Eyjólfur Kjalar Emilsson þýddi. Hið íslenska bókmenntafélag 1991.

iv) Um þetta má lesa í 8. bindi skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis 2010: Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008. Höfundar Vilhjálmur Árnason, Salvör Nordal og Kristín Ástgeirsdóttir.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)