Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

2. mars 2023

Stjórnmál fyrir fólk en ekki fjármagn

Sonja Ýr Þorbegsdóttir, formaður BSRB.

„Ríkisstjórn og Seðlabanki bera ábyrgð á hagstjórn landsins. Þessir aðilar beina þó oftast sjónum sínum að launafólki sem virðist eitt eiga að bera stöðugleikann á herðum sér.“

Verðbólgan stigmagnast og helstu sérfræðingar búast við því að Seðlabankinn bregðist við með harkalegum vaxtahækkunum og hvetja jafnvel til þess. Kvíða er farið að gæta á mörgum heimilum landsins vegna verðs á nauðsynjavörum og síhækkandi hús¬næðis-kostnaðar.

Ríkisstjórnin verður að bregðast við. Og hún verður að gera það núna með aðgerðum sem koma til framkvæmda strax, ekki á næstu árum. Það þarf sértækar tekjuöflunaraðgerðir gegn verðbólgu, aukið aðhald á markaði og stuðningsaðgerðir við heimili í vanda.

 

Líður og bíður
Nú höfum við beðið eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar mánuðum saman. Í stað þess að bregðast við hafa ráðherrar eftirlátið Seðlabankanum algerlega hagstjórnina – sem hefur einungis takmörkuð og almenn tæki til. Þetta hefur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir almenning.

Þrátt fyrir þessa alvarlegu stöðu í efnahagsmálum er mikill hagnaður fyrirtækja og arðgreiðslur virðast síður en svo vera að dragast saman. BSRB hefur bent á að ríkisstjórnin þurfi að bæta stöðu ríkisfjármála með tekjuöflun hjá þeim sem sannarlega hafa svigrúm til að leggja meira af mörkum til samneyslunnar. Þar má nefna hátekjuskatt, stóreignaskatt, bankaskatt, hækkun fjármagnstekjuskatts og hærri hlutdeild almennings í tekjum fyrir afnot á sameiginlegum auðlindum. Verðbólga er nú í tveggja stafa tölu og því þarf að grípa til ráðstafana strax en ekki bíða næsta fjárlagaárs.

Það eru fyrirtækin sem ákveða verðlag. Hér ríkir fákeppni á mörkuðum með nauðsynjavörur og mun sú staða ekki breytast af sjálfu sér. Stjórnvöld geta og eiga að tryggja virka samkeppni og neytendavernd. Hjá stórfyrirtækjunum er svigrúm til þess að minnka álagningu, sem eykst þó með degi hverjum og veldur aukinni verðbólgu.

 

Verjum almannaþjónustu
BSRB hafnar því að gripið verði til úreltra aðferða í ríkisfjármálum með frekari skerðingu almannaþjónustunnar. Sagan hefur sýnt að slíkar aðgerðir eru skammgóður vermir og hafa alvarlegar langtíma afleiðingar í för með sér. Opinberu kerfin okkar hafa enn ekki jafnað sig eftir niðurskurð áranna eftir hrun. Skortur á starfsfólki til þess að sinna nauðsynlegri almannaþjónustu er viðvarandi vandamál. Niðurskurður mun leiða af sér aukið álag, verri starfsaðstæður og ósamkeppnishæf launakjör sem munu bitna á umfangi og gæðum þjónustu við almenning.

 

Samstaða með launafólki
Ríkisstjórn og Seðlabanki bera ábyrgð á hagstjórn landsins. Þessir aðilar beina þó oftast sjónum sínum að launafólki sem virðist eitt eiga að bera stöðugleikann á herðum sér. Það gengur ekki lengur og stjórnvöld verða nú að sýna samstöðu með heimilum í landinu og beina stuðningi til þeirra sem verst verða fyrir barðinu á hækkun verðlags og húsnæðiskostnaðar. Besta leiðin til þess er að hækka barnabætur, vaxtabætur og stuðning við leigjendur. Þessi kerfi eru öll tekjutengd og beina þarf stuðningnum þangað sem mest er þörf á. Þessar aðgerðir getur Alþingi afgreitt fyrir páska.

Greinin birtist fyrst á vef Fréttablaðsins.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)