Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

28. apríl 2023

Neytendasamtökin fyrir þig í 70 ár

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna. Ljósmynd/Hag

Samfélagið og neyslan hafa tekið stórkostlegum breytingum frá því Neytendasamtökin voru stofnuð og málefni neytenda hafa því einnig færst inn á nýjar brautir. Hin nýja barátta um réttindi og tækifæri neytenda á sér meðal annars stað í stafrænum heimi þar sem gögn um einkamál neytenda ganga kaupum og sölum, og brotamenn sjá tækifæri til að „mæla rétt“.

Eftir Breka Karlsson

Líklega var 18. aldar maðurinn Skúli Magnússon fógeti fyrsti baráttumaður fyrir bættum neytendarétti á Íslandi; „Mældu rétt, strákur!“ á danski einokunarkaupmaðurinn að hafa fyrirskipað búðardrengnum Skúla, en átti við að hann skyldi mæla rangt svo hallaði á kaupandann. Þetta mun hafa sært réttlætiskennd Skúla svo mjög, að þegar hann varð fógeti barðist hann fyrir neytendavernd. Hann lét brjóta upp skemmur kaupmanna og kasta 1000 tunnum af skemmdu mjöli í sjóinn. Kaupmennirnir voru síðar dæmdir til að greiða svo miklar sektir, að sjóðurinn sem þær mynduðu, mjölbótasjóðurinn, varð mikil stoð og stólpi framþróunar íslensks landbúnaðar í áratugi, auk þess að kosta byggingu Menntaskólans í Reykjavík.


Meðal elstu samtaka neytenda í heiminum
Í ár eru 70 ár liðin frá því framsýnn hópur fólks undir forystu Sveins Ásgeirssonar hagfræðings, Jóhanns Sæmundssonar prófessors og Jónínu Guðmundsdóttur, formanns Húsmæðrafélags Reykjavíkur, stóðu að stofnun Neytendasamtakanna í Tjarnarcafé við Vonarstræti í Reykjavík. Eru Neytendasamtökin meðal elstu samtaka neytenda í heiminum, líklega þau fjórðu elstu. Stofnun samtakanna átti sér nokkurn aðdraganda sem hófst með tveimur útvarpserindum Sveins í októbermánuði árið áður, þar sem hann vakti athygli á því alvarlega jafnvægisleysi milli fjölda sundraðra neytenda annars vegar og framleiðenda og seljenda hins vegar, og hve margar misfellur í þjóðfélaginu mætti einmitt rekja til þess. Sveinn var kjörinn fyrsti formaður hinna nýju samtaka og bar hitann og þungann af starfseminni fyrstu fimmtán árin.

Í ávarpi frá stjórn samtakanna í fyrsta tölublaði Neytendablaðsins sem gefið var út strax í júní stofnárið 1953, segir: „Almenn neytendasamtök hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna í þjóðfélaginu, þar sem enginn aðili er til sem treystist til að halda fram sjónarmiðum og rétti neytendanna almennt og gæta hagsmuna þeirra fyrst og fremst. Þess vegna hefur skort mjög á, að neytendum væri sýnt fullt tillit, og þeir hafa vegna samtakaleysis jafnvel ekki getað spornað við hinu freklegasta tillitsleysi í þeirra garð.“


Neytendasamtökin og verkalýðshreyfingin
Saga Neytendasamtakanna og verkalýðshreyfingarinnar hefur frá fyrstu tíð verið samofin, enda má segja að neytendabaráttan sé önnur hlið á baráttunni fyrir bættum kjörum. Fyrsta verkefni samtakanna var einmitt að vinna að „bættri tilhögun á afgreiðslutíma sölubúða og opinberra stofnana…“ í samstarfi við Samband smásöluverzlana og Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, síðar VR. Þá má nefna samstarf ASÍ og Neytendasamtakanna í baráttunni við smálánaóáranina og fylgifiska þeirra, stuðning launþega-hreyfingarinnar við leigjendaaðstoð samtakanna og lögsóknir gegn bönkunum í Vaxtamálinu svokallaða, en samtökin telja skilmála og framkvæmd vaxtabreytinga lána með breytilegum vöxtum vera á svig við lög.

Það má með sanni segja að í 70 ára sögu sinni hafi Neytendasamtökin barist fyrir sjónarmiðum neytenda, vakið þá til meðvitundar um rétt sinn og unnið að margvíslegum umbótum í neytendamálum. Við sem nú erum í forsvari fyrir Neytendasamtökin erum bæði stolt og auðmjúk að fá að standa á herðum þessa framsýna fólks við að þoka áfram neytendabaráttunni fyrir fleiri tækifærum, betri réttindum og sanngjarnari kjörum. Allt frá innleiðingu mölunardagsetninga á kaffi á sjötta áratugnum, leiðbeiningabæklingum samtakanna á sjöunda áratugnum, fyrsta kartöflumálinu á þeim áttunda til baráttunnar gegn smálánum og Vaxtamálinu nú á síðustu árum.

 


„Það er vandratað í neytendafrumskógi dagsins í dag. Okkur er víða lofað gulli og grænum skógum, oft er erfitt að sjá í gegnum blekkingarvaðalinn og margar keldurnar að varast.“


Ný barátta í stafrænum heimi
Verkefni Neytendasamtakanna hafa ætíð verið afar fjölbreytt, en grunnur starfsins byggir þó á níu grunnkröfum neytenda: Réttinum til að fá grunnþörfum mætt, til öryggis, til upplýsinga, til að velja, til áheyrnar, til úrlausnar, til neytendafræðslu, til heilbrigðs umhverfis og til stafrænnar verndar.

Samfélagið og neyslan hafa tekið stórkostlegum breytingum frá því Neytendasamtökin voru stofnuð og málefni neytenda hafa því einnig færst inn á nýjar brautir. Hin nýja barátta um réttindi og tækifæri neytenda á sér meðal annars stað í stafrænum heimi þar sem gögn um einkamál neytenda ganga kaupum og sölum, og brotamenn sjá tækifæri til að „mæla rétt“. Þá fela mikilvæg græn umskipti einnig í sér áskoranir fyrir ábyrga neytendur, til dæmis þegar óábyrgir stjórnendur fyrirtækja beita grænþvotti til að villa um fyrir okkur, eða þegar reglur eru ekki til staðar í deilihagkerfinu.

Neytendasamtökin hafa veitt neytendum þjónustu í 70 ár og spornað gegn yfirburðastöðu valdhafa, sérhagsmunahópa og fyrirtækja – en samtökin gætu verið enn öflugri. Þau eru til að mynda einu samtök neytenda á Norðurlöndum sem ekki njóta beinna styrkja frá stjórnvöldum. Sem dæmi greiðir norska ríkið allan rekstrarkostnað norsku samtakanna og í Danmörku fá dönsku systursamtökin um helming tekna sinna frá ríkinu. Starfsmenn Neytendasamtakanna eru fimm, en til að halda í við hlutfallslegan fjölda starfsmanna hjá systursamtökum á Norðurlöndum, og jafnframt eiga möguleika á að sinna þeim verkefnum sem nauðsynleg eru, þyrftu þeir að vera tvöfalt fleiri. Neytendasamtökin hafa kallað eftir skýrri neytendastefnumótun stjórnvalda enda er staða neytenda háð umgjörð neytendamála.


Neytendamál flóknari nú en áður
Þó að neysla hafi aldrei verið auðveldari en nú á dögum, má segja að nú sé að sama skapi flóknara en nokkru sinni fyrr að vera neytandi. Einmitt þess vegna verður meðal stóru verkefna samtakanna á næstu árum að sjá til þess að neytendum verði gert kleift að velja góðar og öruggar vörur, með eins litlum umhverfissporum og mögulegt er.

Það er vandratað í neytendafrumskógi dagsins í dag. Okkur er víða lofað gulli og grænum skógum, oft er erfitt er að sjá í gegnum blekkingarvaðalinn og margar keldurnar að varast. Hrein og bein svikastarfsemi þrífst í skjóli góðrar trúar neytenda. Maðkað mjöl leynist víða og óvíst hvar Skúla fógeta bæri niður í neytendabaráttunni, væri hann uppi í dag.

Það er gott að finna fyrir stuðningi við Neytendasamtökin og þeim meðbyr sem samtökin njóta í samfélaginu. Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök sem reiða sig á árgjöld félagsmanna og styrkur samtakanna felst einmitt í krafti fjöldans. Þó fjöldi félagsmanna sé hlutfallslega mikill, er mengi landsmanna lítið og því skiptir hver einasti félagsmaður miklu máli. Því fleiri sem láta neytendamál sig varða, þeim mun öflugri er baráttan.

Höfundur er formaður Neytendasamtakanna.