Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

28. apríl 2023

Spillingin og við

„Eitt heldur lífi í spillingunni umfram annað. Ágóðinn af spilltu umhverfi sem ýtir undir brask, frændsemi og föngun ríkisvaldsins og finnur sér að mestu leið í veski fárra.“

„Þegar kemur að baráttunni gegn spillingu er Ísland dæmi um land sem skorar tæknilega hátt en þegar kemur að framkvæmd og eftirfylgni og aðgerðum gegn spillingarvánni skrapar Ísland botninn.“

Eftir Atla Þór Fanndal

Á árunum eftir seinna stríð komu fram upplýsingar um gríðarlega leynireikninga og faldar eignir Íslendinga. Stærstu innflytjendur landsins hlutu þunga dóma fyrir falsaða reikninga og fyrir að fela reikninga erlendis. Yfirvöld töldu árið 1979 að íslenskur almenningur greiddi allt að 5% hærra verð fyrir innflutta vöru vegna svindls en ellegar væri. Þú þarft ekki að vita af spillingunni til að þurfa að borga fyrir hana.

 

Ekkert að sjá hér!
Málið rifjaðist upp fyrir mér þegar Panamaskjölin sýndu einfaldlega að Ísland bjó við aflönduðustu ríkisstjórn heims miðað við lekann. Þrjá ráðherra mátti finna í skjölunum og einn sagði af sér eftir umtalsverð mótmæli en stofnaði nýjan flokk og endaði aftur á þingi. Þáverandi og núverandi fjármálaráðherra var einnig að finna í skjölunum en flokksfélagar hans gerðu lítið úr málinu. Ráðherrann sjálfur notaði stöðu sína til að tala niður, trufla og tefja kaup skattstjóra á gögnum Mossack Fonseca, þau sömu og finna mátti upplýsingar um hans viðskipti í. Þessi angi málsins var aldrei rannsakaður þótt augljóst megi teljast að slík framganga sé pólitísk spilling. Án rannsóknar verður þó enginn kallaður til ábyrgðar.

Ég nefni þetta dæmi því fyrstu mánuðina í starfi mínu sem framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International var áberandi hvað margir spurðu; „Já, en Atli – er nokkur spilling hér á landi? Allavega ekki eins og í útlöndum eða hvað?“ Auðvitað er ekkert að því að spyrja grundvallarspurninga líkt og hvort spilling fyrirfinnist á Íslandi en þessi aðkoma fyrirbærisins í umfjöllun er merkileg vegna þess að hún útþurrkar hreint út sagt ótrúlega vel skrásetta sögu Íslands af braski allt frá gólfi til æðstu valda. Þá skiptir einnig máli að taka mark á svarinu. Annars erum við föst í sömu hjólförunum að eilífu. Kannski það sé markmiðið?

 

Yppt öxlum í landi faktúrfalsana
Ísland er nefnilega land faktúrfalsana, stríðsgróða, kosningasvindls, Samherjamálsins, bankahruns, lundafléttu, Alþingisökuþóra og áhrifakaupa. Þetta vitum við því í gegnum alla lýðveldissöguna hafa fjölmiðlar fjallað um ótrúlegustu mál og flest málin gufa að lokum upp á meðan yfirvöld yppta öxlum og fela eigið aðgerðaleysi annars vegar í þögninni og hins vegar í orðasalati um endurskoðun regluverks og lærdóm fyrir okkur öll. Allt annað en beinar aðgerðir, ábyrgð og lærdóm.

Hér birtist einmitt eðli spillingar. Hún felur sig í skugga eðlilegra gjörða. Þær ferðast nefnilega saman systurnar Spilling og Fúsk, oft þannig að erfitt er að skilja aðra frá hinni. Kannski á það sérstaklega við hér á landi þar sem viðbrögð yfirvalda eru oftar en ekki: Ég er ekki spilltur, bara gjörsamlega vanhæfur. Auðvitað orða menn þetta öðruvísi en skilaboðin eru alltaf klúður en alls ekki spilling. Kannski getum við hrósað okkur fyrir þann árangur að nú gangist menn við klúðri. Það er ef til vill nýtt, eða hvað?

 


„Getuleysi íslenskra yfirvalda er kannski ekki aðeins fúsk heldur val; spilling í sjálfu sér. Ráðin eru þekkt, aðstoðin er í boði, fjöldi mála er opinber, almenningur löngu kominn með upp í kok.“

 

Stjórnmálastétt sem jaðarsetur gagnrýni
Nýlegt dæmi röksemdarfærslu um fúsk en alls ekki spillingu má finna í einkavæðingu Íslandsbanka. Aðgerð sem alla tíð hefur verið gríðarlega óvinsæl. Raunar hafa kannanir sýnt að sú hugmynd að lífið liggi við að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka er hrein og klár jaðarskoðun í samfélaginu. Stjórnmálin komu þó alltaf fram við þessa stefnu ríkisins sem meginstraumsskoðun. Það er auðvitað ekki spilling að stjórnmálafólk búi í hliðarveruleika við almenning – þótt slíkt sé alls ekki eftirsóknarvert – en ég nefni þennan anga málsins vegna þess að það er hlutverk stjórnarflokkanna að sannfæra almenning um ágæti eigin stefnu. Stjórnmálastétt sem telur sig almennt yfir það hafna að ávinna sér lýðræðislegt umboð fyrir einstaka stefnumál er gerandi í sköpun umhverfis spillingar. Sala Íslandsbanka er dæmi þar sem andstaða almennings var raunar vopnavædd gegn góðum vinnubrögðum. Fyrst sem ástæðu til að hlusta ekki á varnarorð en síðar ástæðu til að jaðarsetja gagnrýnendur.

„Það er nú þannig að margir þeirra sem vilja lýsa vantrausti á öllu ferlinu að þeir eru gjarnan á móti því að allur bankinn sé seldur og eins stjórnarandstæðingar,“ sagði fjármálaráðherra í Kastljósi RÚV sjöunda apríl 2022. Ummælin féllu eftir að ljóst var að verklag við einkavæðinguna hafði með engum hætti staðið undir væntingum. Þessi hugsun ómaði þó í gegnum allt undirbúningsferlið sem fyrst og fremst virðist hafa falist í að sópa viðvörunum út af borðinu. Áður en hluti bankans var einkavæddur komu fram viðvaranir um allt frá áhættunni um að tekinn yrði snúningur, áhugi erlendis yrði ef til vill ekki nægur, aðferð sölunnar félli illa að lögum og að skilgreiningin á fagfjárfestum þýddi einfaldlega ekki það sem væri boðað. Allt var hunsað og kannski er ekki aðalatriðið hvor stýrði skútunni, spilling eða fúsk. Það blasir við að þær skiptu með sér vöktum.

 

Spillingin látin óátalin á Íslandi
Það stóð nú ekki til að greinin fjallaði eingöngu um sölu Íslandsbanka en dæmið er svo lýsandi fyrir áhugaleysið sem barátta gegn spillingu fyrir gagnsæi, réttlæti og lýðræði mætir hér heima. Hér á landi hafa yfirvöld ekki sett sér heildstæða stefnu um að uppræta spillingu. Íslendingar eiga ekki stofnun sem fer eingöngu með það hlutverk að rannsaka hana. Lítið sem ekkert er til af rannsóknum á eðli spillingar. Þær reglur sem settar hafa verið virðast oft fyrst og fremst settar í þeim tilgangi að bæta stemninguna á úttektarfundum OECD, GRECO, FATF og UNODC – alþjóðastofnunum sem reglulega mæta með úttektarnefndir til að meta aðgerðir íslenskra stjórnvalda í baráttunni gegn spillingu. Auðvitað er hundleiðinlegt að þamba slappt kaffi með köldum kleinum á meðan úttektarnefndir skammast í manni fyrir áralangt aðgerðaleysi en markmið þessa stofnana er ekki góð stemning á fundum heldur barátta við stórkostlega alþjóðlega vá sem holar samfélag að innan, rænir almenning innviðum, skaðar viðskipti, ýkir loftlagsvá og skaðar launafólk um allan heim.

Þegar kemur að baráttunni gegn spillingu er Ísland dæmi um land sem skorar tæknilega hátt en þegar kemur að framkvæmd og eftirfylgni og aðgerðum gegn spillingarvánni skrapar Ísland botninn. Dæmi um þetta er nýleg skýrsla Basel Institute on Governance, Ranking Money Laundering and Terrorist Financing Risks around the World þar sem Ísland er, ásamt Lettlandi, tekið sérstaklega út fyrir sviga. „Sum lögsagnarumdæmi, eins og Lettland og Ísland, skora hátt á tæknilegum skilyrðum (67% og 83% í sömu röð) en núll hvað varðar skilvirkni.“ Það er hér sem við komum aftur að spurningunni – er nokkur spilling á Íslandi? Svarið er já og við stöndum okkur hörmulega í baráttunni gegn henni.

Transparency International skilgreinir spillingu svo: „Misbeiting á opinberu valdi til persónulegs ávinnings. Spilling þrífst þar sem eftirlit skortir, ákvarðanataka er óljós og aðkoma og áhrif almennings eru lítil eða engin. Spillingu má fyrirbyggja með gagnsæi hvað varðar upplýsingar og gjörðir valdhafa, sem almenningur getur skilið, treyst og fylgst með.“ Skilgreiningin nær ekki utan um allt en hefur þjónað baráttunni gegn spillingu vel. Misbeiting til ávinnings. Það eru nú öll geimvísindin.

 

Sökinni varpað á ásakendurna
Þá má spyrja sig – eru viðbrögð yfirvalda almennt hröð, skýr og skilvirk þegar fram koma upplýsingar um hugsanlega spillingu? Aftur leyfi ég mér að svara – nei alls ekki! Hér vil ég nefna lítið og afar kjánalegt dæmi. Í síðasta mánuði sakaði dómsmálaráðherra þingmenn um mútuþægni við veitingu ríkisborgararéttar. Ráðherra hefur mánuðum saman ýjað að slíku og notaði tækifærið í umræðu um brot hans á þingskapalögum – sem ekki er uppi neinn raunverulegur lagaágreiningur um þrátt fyrir blaður einstaka þingmanna og ráðherra – þegar hann bannaði Útlendingastofnun að afhenda þinginu þau gögn sem þingið óskaði eftir á grundvelli 51. gr. þingskapalaga. Það var í þessari umræðu sem dómsmálaráðherra dró kanínu upp úr hatti og sakaði einfaldlega aðra um mútuþægni.

Ef við leyfum okkur að horfa fram hjá hugarflugi ráðherra og veltum fyrir okkur hvort dómsmálaráðherra trúi því í raun og veru að fulltrúar löggjafans séu í laumi að selja gullin vegabréf til að spenna upp launin sín – ímyndum okkur eitt andartak að vikum og mánuðum saman hafi ráðherra haft þennan grun. Hvað varð þá til þess að hann nefndi þetta fyrst í þingsal rúmu ári eftir að hann fór fyrst að ýja að þessu opinberlega? Ef dómsmálaráðherra hefur grun um stórfellt samsæri til mútuþægni á þingi en finnur sig svo máttlausan gagnvart málinu að hann gerir ekki annað en að ýja að brotum í stað þess að kalla eftir rannsókn – hvað segir það þá um getu yfirvalda til að takast á við spillingu?

 

Ráðherrar og spilltir vinir þeirra
Hér birtist aftur upphafspunktur greinarinnar. Við vitum öll að spillingu skolar ekki aðeins á fjörur Íslands heldur er hún ansi oft brugguð hér heima. Samherjamálið sýnir um leið að draumaeyjan í norðri er fær um að flytja hana beinlínis út. Sleppa henni lausri í Namibíu. Þegar allt kemst svo upp leyfum við þeim að þrífa upp á meðan okkar ráðherra hringir í félaga sinn til að stappa í hann stálinu og athuga líðan. Auðvitað er það rétt sem Drago Kos segir, yfirmaður vinnuhóps OECD gegn mútum, að það sé nánast vandræðalegt fyrir Ísland að yfirvöld í Namibíu dragi vagninn í rannsókn á Samherjamálinu.

Hugsanlega hefur vandamálið aldrei verið skortur á vitneskju. Getuleysi íslenskra yfirvalda er kannski ekki aðeins fúsk heldur val; spilling í sjálfu sér. Ráðin eru þekkt, aðstoðin er í boði, fjöldi mála er opinber, almenningur löngu kominn með upp í kok. Flöskuhálsinn er hjá stjórnvöldum sem hunsa, snúa út úr og forðast að reisa varnir og rannsaka augljósar vísbendingar um brot.

Eitt heldur lífi í spillingunni umfram annað. Ágóðinn af spilltu umhverfi sem ýtir undir brask, frændsemi og föngun ríkisvaldsins og finnur sér að mestu leið í veski fárra. Pólitískt aðgerðaleysi getur því verið ágætt fyrir þá sem eiga lausafé til að kaupa banka og enn betra fyrir þá sem þegar eiga Teslur og lúxusíbúðir en gætu vel hugsað sér að eiga stjórnmálamenn.

Stöndum saman gegn spillingu.

Höfundur er framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)