Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

3. október 2023

Kvennaverkfall 24. október 2023

Sonja Ýr Þorbergsdóttir.

Eftir Sonju Ýri Þorbergsdóttur

Fyrir 48 árum boðuðu konur hér á landi í fyrsta sinn til Kvennafrís en alls hafa konur lagt niður vinnu í sex skipti til að mótmæla kynbundnu misrétti. Aðdraganda fyrsta Kvennafrísins árið 1975 er að rekja til þess að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna helgaði áratuginn 1975 til 1985 málefnum kvenna. Í tilefni þess tóku kvennasamtök, kvenfélög og stéttarfélög sig saman og skipulögðu dag þar sem konur lögðu niður vinnu til að leggja áherslu á mikilvægi vinnuframlags kvenna á Íslandi. Var 24. október valinn, en það er dagur Sameinuðu þjóðanna.


Frá kvennaverkfallinu 1975. Ljósmynd Ólafur K. Magnússon


Kynbundið ofbeldi útbreiddasti faraldurinn sem við er að etja
Talið er að 90% kvenna á Íslandi hafi lagt niður vinnu þann dag og um 25.000 konur söfnuðust saman á einum fjölmennasta útifundi Íslandssögunnar á Lækjartorgi og víðs vegar um landið allt. Samtakamáttur þeirra leiddi til umfangsmikilla breytinga í átt að auknum tækifærum og möguleikum kvenna, m.a. með kosningu fyrstu konunnar sem var lýðræðislega kjörinn forseti í heiminum.

Þrátt fyrir áratugalanga baráttu búum við enn í samfélagi þar sem langlífasti og útbreiddasti faraldurinn sem við eigum við að etja er kynbundið ofbeldi, ásamt því að framlag kvenna til samfélagsins er gróflega vanmetið. Hver rannsóknin á fætur annarri sýnir fram á sláandi tölur um misrétti og ofbeldi, en viðbrögðin eru lítil sem engin. Við sem samfélag virðumst orðin samdauna stöðunni og teljum að jafnrétti komi með tímanum – jafnvel þó vitað sé að það muni taka a.m.k. heila ævi. En við ætlum ekki að bíða lengur! Því blásum við til baráttu enn á ný og leggjum niður launuð sem ólaunuð störf þann 24. október næstkomandi. Við höfum fengið nóg, meðal annars út af þessu:

• Að minnsta kosti 40% kvenna hafa á lífsleiðinni orðið fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi heima eða í vinnunni og ungar konur búa við mestu hættuna. Konur með fötlun, af erlendum uppruna og trans konur eru líklegri til að verða fyrir ofbeldi en aðrir hópar.
         » Algengast er að ofbeldismenn séu vinir eða kunningjar, maki eða tengdir öðrum fjölskylduböndum sem leiðir af sér að einn hættulegasti staðurinn fyrir konur er heimilið þeirra.

• Stórir hópar kvenna búa ekki við fjárhagslegt sjálfstæði eða öryggi þrátt fyrir að vinna fullt starf.

• Einstæðar mæður og öryrkjar eru í mestri hættu á að búa við fátækt.

• Konur eru enn með rúmlega 21% lægri atvinnutekjur að meðaltali en karlar.

        » Launamunurinn skýrist af miklu leyti af kynjaskiptum vinnumarkaði og vanmati á framlagi kvenna, en laun stétta þar sem konur eru í meirihluta eru lægri en í öðrum sambærilegum störfum og með þeim lægstu á vinnumarkaði.
         » Fyrir einstæðar mæður og konur með meðaltekjur eða þar fyrir neðan, getur reynst sérstaklega erfitt að slíta sig frá ofbeldi í nánu sambandi eða koma undir sig fótunum eftir slík sambandsslit. Fjárhagslegt ofbeldi er sú tegund ofbeldis sem lengst heldur konum föstum í ofbeldissamböndum. Slíkt ofbeldi heldur oft áfram lengi eftir að sambandi er slitið, þar sem gerandi stjórnar manneskju í gegnum fjármál.

• Ekki er enn búið að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla – og konur bera enn meginþunga ábyrgðarinnar sem felur í sér að þær eru almennt að minnsta kosti helmingi lengur frá vinnumarkaði en karlar.

• Önnur og þriðja vaktin við að sinna börnum, öldruðum eða veikum ættingjum og heimilinu er meginástæða þess að konur geta ekki unnið fullt starf en um þriðjungur þeirra er í hlutastarfi af þessum orsökum. Vinnuvika kvenna er mun lengri en karla þegar ólaunuð störf eru tekin með í reikninginn.

• Andleg líðan kvenna og heilsa er lakari en karla vegna aukinnar ábyrgðar þeirra á ólaunuðu störfunum, í launuðum störfum s.s. vegna álags í starfsumhverfinu, vegna fjárhagsstöðu eða áfallasögu.

Við erum á ólíkum aldri, með ólíkan húðlit, með fötlun og ekki, við erum hinsegin, með ólíkar kynhneigðir, sís, trans, við trúum á allskonar og höfum ólíkar skoðanir, fæddumst á Íslandi og víðs vegar um heiminn, erum af ólíkum uppruna og líkamar okkar eru allskonar. Við erum í launaðri vinnu og ekki og fjárhagslegt svigrúm okkar er ólíkt. Við höfum orðið fyrir ofbeldi, áreitni eða misrétti eða þekkjum konur sem hafa orðið fyrir því.

Við fléttum saman baráttur okkar og leggjum niður störf til að sýna að sameiginlegur kraftur okkar er óstöðvandi. Þannig ætlum við að breyta samfélaginu og knýja fram jafnrétti strax. Okkar grundvallarkröfur eru að kynbundu ofbeldi verði útrýmt og kvennastörf verði metin að verðleikum.

Sjáumst á Arnarhóli og baráttufundum víðs vegar um landið kl. 14 þann 24. október næstkomandi!

Höfundur er í framkvæmdastjórn um Kvennaverkfall.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)