Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

15. febrúar 2024

Hugum að velsæld starfsfólks á vinnustað

Aristóteles fjallaði um „eudaimonia“ sem mætti þýða sem velsæld og hann taldi að væri æðsti tilgangur lífsins.“ Mynd/Gervigreind AI

Velsæld á vinnustað snýr að öllum þáttum í starfsemi vinnustaðarins; aðbúnaði, öryggismálum, skipulagi og hvernig stjórnun er háttað. Að starfsfólk upplifi að það hafi tilgang í starfi, að unnið sé að settum markmiðum eða skýrri framtíðarsýn.

Eftir Guðrúnu Jóhönnu Guðmundsdóttur
og Hildi Halldórsdóttur

Fram kom í ávarpi og í viðtali við forseta Íslands nú um áramótin, í tengslum við ákvörðun hans um að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í forsetastól, að forsenda hans í starfi væri að hann hlakkaði til á hverjum degi að fara í vinnuna og að þjóðin ætti ekkert minna skilið. Betra væri að láta hjartað ráða en fylgja öðrum rökum sem hlytu að teljast veikari þegar allt kæmi til alls.

Með þessu getum við ályktað að hann leggi áherslu á að við upplifum vellíðan í starfi á hverjum degi sem hefur áhrif á að við gerum okkar besta alla daga. Getum við öll samsamað okkur við hans skoðun? Hvernig líður okkur í starfi? Áherslur í mannauðsmálum núorðið snúa einmitt að vellíðan og velsæld. Auknar kröfur eru gerðar til stjórnenda og vinnustaða um að hugað sé að velsæld starfsfólks þannig að starfsfólk geti sýnt sínar bestu hliðar og nái að blómstra. Í þessari grein ætlum við að fjalla um velsæld á vinnustað.

Hvað er velsæld?
Vönduð mannauðsstjórnun gengur í raun út á velsæld, jafnt starfsfólks og vinnustaða. Hún snýst um að stjórnendur axli ábyrgð og stígi inn í sitt hlutverk. Vandað sé til verka við ráðningar, að ráða hæft fólk, að það sé þjálfað og nái að vaxa í starfi. Að starfsumhverfið sé nærandi þar sem jákvæð og uppbyggileg vinnustaðamenning ríki.

Að tekið sé á erfiðum málum, sbr. erfiðum samskiptum og framkomu sem og frammistöðuvanda. Að fólk upplifi sig öruggt, að það geti tjáð skoðanir sínar og borin sé virðing fyrir þeim. Kannanir sýna að samskipti á vinnustað eru einn stærsti þátturinn hvað varðar vellíðan á vinnustað. Að komið sé fram við okkur í starfi af virðingu, að við upplifum að séum metin að verðleikum og að traust ríki til stjórnenda.

Hægt er að rekja umræðuna um velsæld langt aftur í tímann og fjölluðu heimspekingar fyrri alda um hugtakið. Aristóteles fjallaði um „eudaimonia“ sem mætti þýða sem velsæld og hann taldi að væri æðsti tilgangur lífsins. Mörg trúarbrögð fjalla líka um velsæld í tengslum við trúarlega iðkun og siðfræði. Í stuttu máli þá snýst velsæld um hið heildræna, það sem hefur áhrif á okkur bæði utan frá og innan, tengingu á milli líkama og hugar.

Eins og forsetinn okkar lagði áherslu á þegar hann kynnti ákvörðun sína á að spyrja sjálfan sig hvað skiptir mestu máli og hvernig manni líður. Einnig má segja að við tölum um velsæld þegar við upplifum okkur örugg, erum metin að verðleikum, erum elskuð og finnum fullnægju í því sem við erum að gera. Margir fræðimenn sem fjalla um mannauðsstjórnun hafa skrifað um velsæld og er Liggy Webb ein af þeim.

Hún hefur m.a. sett fram þessa mynd til að útskýra velsæld í stóra samhenginu með sjö þáttum velsældar:

    1. Andleg velsæld sem snýr að sjálfsrækt og andlegri líðan
    2. Tilfinningaleg velsæld sem snýr að því að hafa betri stjórn á tilfinningum okkar
    3. Líkamleg velsæld, að við hugum vel að líkamlegri heilsu
    4. Félagsleg velsæld, að við eigum góð samskipti og tilheyrum hópi
    5. Fjárhagsleg velsæld, að við getum lifað við fjárhagslegt öryggi
    6. Stafræn velsæld, að við kunnum að umgangast tæknina okkur í hag, að hún skerði ekki okkar heilbrigði
    7. Umhverfisvelsæld, að við hugum að umhverfinu og náttúrunni

Velsæld á vinnustað
Velsæld á vinnustað snýr að öllum þáttum í starfsemi vinnustaðarins; aðbúnaði, öryggismálum, skipulagi og hvernig stjórnun er háttað. Að starfsfólk upplifi að það hafi tilgang í starfi, að unnið sé að settum markmiðum eða skýrri framtíðarsýn. Stuðlað er að heildrænni heilsu starfsfólks með því að skapa umhverfi og aðstæður þar sem starfsfólk getur styrkt líkamlega heilsu. Jafnframt að starfsfólk fái stuðning og hvatningu til að styrkja andlega heilsu og sinna henni, sbr. stuðning vegna áfalla og að geta tekist á við streitu.

Hvers vegna ættu vinnustaðir að huga sérstaklega að velsæld starfsfólks?
Með aukinni áherslu á velsæld er stuðlað að auknu heilbrigði starfsfólks sem um leið dregur úr veikindum og fjarveru. Með því er einnig stuðlað að aukinni helgun og starfsánægju sem getur skilað sér í aukinni framleiðni og árangri fyrirtækja og stofnana. Það má því segja að það sé til mikils að vinna að stuðla að velsæld á vinnustöðum. 

Umræðan um geðraskanir og andleg veikindi í íslensku samfélagi hefur sjaldan verið meiri en nú og er helsta orsök örorku á Íslandi. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) eru andleg veikindi stærsta heilbrigðisógn í heiminum nú á dögum. Samkvæmt henni mun fjórðungur mannkyns einhvern tíma á ævinni glíma við andlega erfiðleika. Flestar þjóðir reikna orðið saman þann kostnað sem hlýst vegna veikinda starfsfólks og að undanförnu hafa andleg veikindi og kostnaður vegna þeirra sérstaklega verið skoðuð.

Samkvæmt könnunum Landlæknisembættisins, sem framkvæmdar eru reglulega, eykst hlutfall bæði kvenna og karla frá ári til árs sem meta andlegu heilsu sína sæmilega eða lélega.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2022 kemur fram að kostnaður ríkissjóðs vegna geðheilbrigðismála hafi aukist frá ári til árs. Beinn kostnaður vegna geðheilbrigðismála á árinu 2020 var um 13 milljarðar króna. Þá ber einnig að hafa í huga að á bak við þessa upphæð eru á níunda þúsund einstaklingar sem voru óvinnufærir að hluta eða að fullu vegna geðraskana.

Þá hafa framtíðarfræðingar spáð því að vinnustaðir eigi í auknum mæli eftir að sjá um heilbrigðisþjónustu fyrir sitt starfsfólk og bera meiri ábyrgð á þeirra velsæld með áherslu á andlega heilsu. Það er því eðlilegt að á vinnustöðum séu umræður og vangaveltur orðnar algengari um hvernig hægt sé að hlúa sérstaklega að andlegri heilsu starfsfólks.

Hvað er til ráða, hvernig getum við stuðlað að aukinni velsæld á vinnustöðum?
Mikilvægt er að vinnustaðir hvetji starfsfólk til að sinna og bera ábyrgð á eigin heilsu. Að það hafi svigrúm til að sinna eigin heilsu eins og þörf er á, án þess að það bitni á starfi þeirra. Það er hagur samfélagsins alls að stuðlað sé að góðri heilsu einstaklinga, bæði andlegri og líkamlegri. Með því að stuðla að betri heilsu á vinnustöðum eru meiri líkur á að starfsfólk njóti sín betur í starfi og að árangur náist.

Undanfarin ár hafa íslenskir vinnustaðir hvatt og hugað að líkamlegri heilsu starfsfólks, t.d. með ýmsum heilsuátökum og bættri aðstöðu á vinnustað. Í ljósi ofangreinds er sjónum í vaxandi mæli beint að andlegri heilsu. Hægt er að sjá mörg fordæmi bæði hér á landi og frá nágrannalöndum okkar þar sem vinnustaðir huga að fyrirbyggjandi aðgerðum hvað andlega heilsu varðar og hvernig hægt er að styrkja starfsfólk andlega. Nú virðist vera aukin þörf á að stjórnendur geti átt samtöl við starfsfólk um andlega heilsu þess og er það ekki síst til komið vegna yngri kynslóða á vinnumarkaði sem leggja meiri áherslu á opna umræðu um andlega heilsu. Styrkja og þjálfa þarf stjórnendur til að taka þessi samtöl svo þeir séu betur í stakk búnir til að styðja sitt starfsfólk og leiðbeina með mögulegar lausnir varðandi andlega heilsu. Auk þess hefur verið rætt um að þrautseigja og seigla geti verið mikilvægir þættir til að styrkja andlega heilsu. Vinnustaðir geta lagt áherslu á að styrkja þessa þætti með þjálfun og fræðslu. Einstaklingar geta styrkt sig í þrautseigju og allir ættu að geta fundið leiðir til að efla sig í þeim efnum.

Liggy Webb talar um nokkra þætti sem mikilvægt er að efla til að byggja upp innri styrk og þrautseigju. Þetta eru þættir eins og að hafa trú á sjálfum sér, efla jákvæðar hugsanir, ná að stýra tilfinningum sínum, óttast ekki ágreining, fagna breytingum sem eðlilegum hluta af lífinu, þjálfa sig í að snúa áskorunum upp í tækifæri, forgangsraða eigin velsæld, skapa jákvæð tengsl, venja sig á að sleppa takinu og halda áfram, og síðast en ekki síst að eiga von, von um að allt eigi eftir að fara vel.

Þetta eru allt þættir sem við öll getum tileinkað okkur og æft okkur í. Við getum byrjað strax í dag svo að við eigum auðveldara með að takast á við áskoranir, m.a. í okkar starfsumhverfi.

Gangi ykkur vel!


Höfundar starfa hjá AUKI – mannauður og stjórnendaráðgjöf.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)