Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

29. apríl 2024

Aðgerðapakki

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis. Ljósmynd/BIG

Við verðum með öllum ráðum að verja almannaþjónustuna og velferðarkerfin, og vera vel á vaktinni hvað það varðar. Niðurskurður og skert almannaþjónusta bitnar á öllum almenningi.

Eftir Þórarin Eyfjörð

Í kynningu á aðgerðum stjórnvalda, sem tengdust undirritun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, kom fram að ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga ætla sér sameiginlega að tryggja róttækar aðgerðir til að greiða fyrir kjarasamningum á vinnumarkaði til næstu fjögurra ára. Þannig á aðgerðapakkinn að styðja við sameiginlegt markmið stjórnvalda og samningsaðila um að leggja grundvöll að vaxandi velsæld, auka kaupmátt og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta.

Kostnaðarmatið sem tengist aðgerðunum er allt að 80 milljarðar króna á samningstímanum. Þar á að leggja áherslu á að byggja upp heilbrigðari húsnæðismarkað og stuðla að fjölskylduvænna samfélagi. Allur pakkinn á síðan að framkalla lækkun verðbólgu og vaxta og auðvelda fólki lífið. Fullyrt er að ráðstöfunartekjur fjölskyldna aukist verulega á samningstímanum og er þar talað um 500 þúsund krónur á ári.

Þessi ásetningur stjórnvalda er virðingarverður og full ástæða til að fagna þeim skrefum sem styrkja munu tekjulægri hópa í samfélaginu, ungt fólk sem er koma undir sig fótunum og stofna fjölskyldu, og ekki síst hjálpa þeim sem trúðu á fagnaðarerindi Seðlabankans á árunum kringum 2019 og tóku rífleg lán til að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Allt sem verða má til þess að styrkja samfélagslegar áherslur og jöfnuð er af hinu góða, en nauðsynlegt er að vera á varðbergi ef böggull skyldi fylgja skammrifi.

Þegar stjórnvöld eru innt eftir því hvernig eigi að fjármagna aðgerðapakkann hefur verið fátt um svör. Úr Fjármálaráðuneytinu hefur þó heyrst að ekki eigi að fara í blóðugan niðurskurð heldur eigi að sameina stofnanir og hagræða. Hér er ástæða fyrir opinbert starfsfólk að hafa varann á. Fyrrverandi ráðherra talaði oftsinnis mjög skýrt um nauðsyn þess að selja ríkiseignir og útvista verkefnum.

Við verðum með öllum ráðum að verja almannaþjónustuna og velferðarkerfin, og vera vel á vaktinni hvað það varðar. Niðurskurður og skert almannaþjónusta bitnar á öllum almenningi. Okkar hlutverk er að tryggja eftir bestu getu að launafólk hjá hinu opinbera verði ekki látið greiða fyrir þann stöðugleika sem nú er vonast eftir.


Höfundur er formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)