1. maí 2024
Ræða formanns 1. maí
Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis.
Ágæta fundarfólk, til hamingju með baráttudaginn okkar 1. maí 2024!
Það er stutt síðan stéttarfélögin innan ASÍ samþykktu nýja kjarasamninga. Grunnurinn að þeim samningum var sameiginlegt markmið okkar allra - að vinna á verðbólgu og lækka vaxtabyrði heimilanna.
Ríkið kemur að verkefninu undir slagorðinu „Vaxandi velsæld“, og ætlar að setja 20 milljarða á ári í sérstök velferðarverkefni, sem eiga að styðja við markmið kjarasamninganna.
Og hvernig rímar væntanlegur stuðningur við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar? Erum við kannski að tala um gamlar lummur? Ríkisstjórnin ætlar ekki að mæta þessum velferðarverkefnum með því að nýta auðlindarentu okkar sameiginlegu auðlinda, og það á ekki að sækja fjármuni til þeirra sem sannarlega eru aflögufær með því að endurhanna skattkerfið.
Ó, nei! Það á að endurskipuleggja, sameina og hagræða - enn á ný! Og við vitum hvað það þýðir.
Þessi hugtakanotkun ráðherra í ríkisstjórn Íslands er ávísun á niðurskurð, eins og best sést á því að það á ekki að setja inn 10 milljarða í örorkukerfið eins og áætlanir stóðu til – nei það má sko fresta þeirri aðgerð! Það á að sækja peningana fyrir velferðarkerfið ofan í vasa öryrkja og launafólks. Enda hefur ríkisstjórnin alltaf litið á mánaðarlaun vinnandi fólks, sem aðal tekjulind sína. Peningaöflunum er hlíft, þeim sem nýta auðlindir þjóðarinnar er hlíft, en launafólki er ekki hlíft.
Talandi um að láta breiðu bökin bera byrðarnar!
Á sama tíma og rætt er um hagræðingaraðgerðir hjá ríki og hinu opinbera, þá eru allir kjarasamningar lausir hjá opinberu stéttarfélögunum sem eru innan BSRB, BHM og KÍ. Allt tal ríkisstjórnarinnar um hagræðingu í stað fjármögnunar, hjálpar ekki til við að finna lausnir. Til að mynda þá verður að ganga frá trúverðugu og fjármögnuu samkomulagi um Jöfnun launa milli markaða í þessum samningum. Annað er ekki í boði.
Á hátíðarstundum fjármála- og stjórnmálaelítunnar er gjarnan flutt ræðan um hvað við Íslendingar höfum það nú gott. Þá er gjarnan vísað í ríkidæmið, hversu mikil velferðin sé á Íslandi og hversu hagkerfið sé að skila miklum auðæfum. Almennt launafólk veit hins vegar að fyrir stóran hluta vinnandi fólks er Ísland ekki velferðarríki. Það er ekki hægt að tala um velferðarríki þegar Ísland er lang neðst Norðurlandanna, á hlutfallslegu framlagi af landsframleiðslu til velferðarkerfisins – já 17 sætum neðar en Danmörk.
Í okkar ágæta samfélagi eiga um 40% launafólks erfitt, eða mjög erfitt, að ná endum saman. Þetta sýna endurteknar kannanir Vörðu – rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins. Varða hefur sýnt fram á að 40% launafólks geti ekki mætt 80.000 króna óvæntum útgjöldum. Þetta þýðir með öðrum orðum að hjá 40% launafólks er staðan sú, að það má ekki við því að þvottavélin bili!
Er þetta velferðarkerfi eins og við viljum hafa það?!
Og hvaða hópar skyldu það nú vera sem við erum að vísa til hér? Þar ber fyrst að nefna mæður sem búa einar með börnum sínum og einstæðir feður, fólk með erlendan bakgrunn og öryrkjar.
Eigum við kannski að ræða eitthvað ummæli fyrrverandi fjármálaráðherra rétt fyrir hrun: Drengir, sjáið þið ekki veisluna?
Á Íslandi búa 10.000 börn eða 13,1% allra barna á Íslandi við fátækt. Þetta hlutfall var 12,7% árið 2022 og hlutfall fátækra barna utan höfuðborgarsvæðisins er enn hærra, eða 15,8%! Í skýrslu UNICEF frá síðasta ári fjölgaði fátækum börnum næstmest á Íslandi, í samnburði við öll lönd ESB og OECD á tímabilinu frá 2012 til 2021.
Kæru félagar: sjáið þið ekki veisluna?
Hvers konar framtíðarsýn er hér á ferð? Það er að minnsta kosti ekki sú framtíðarsýn að stuðla að jafnrétti og jöfnum tækifærum fyrir alla. Þetta er ekki framtíðarsýn sem stuðlar að því að allir þegnar samfélagsins fái sanngjörn tækifæri á að þroska hæfileika sína og getu til hagsbóta fyrir allt samfélagið.
Í stað þessarar dapurlegu þróunar þá þarf að setja kraft og metnað í að byggja upp sterkt barnabótakerfi, gjaldfrjálsa menntun fyrir börnin okkar, gjaldfrjálsar og næringarríkar máltíðir í skólum, það þarf að efla læknisþjónustu innan skólakerfisins og draga úr kostnaði vegna þátttöku barna í íþróttum, listnámi og tómstundastarfi.
Á 1. maí er ekki annað hægt en að minnast á veisluna í húsnæðismálum. Það eru 45 þúsund heimili á leigumarkaði og að meðaltali fer um 45% ráðstöfunartekna launafólks í húsaleigu og allt upp í 60-70% þar sem verst lætur. Á næstunni er búist við skriðuföllum af stökkbreyttum lánum og afborgunum. Höfum við heyrt af einhverjum sérstökum aðgerðum við byggingu varnargarða fyrir það fólk, sem talið var trú um af yfirvöldum á árunum 2019 og 2020 að nú væri sko rétti tíminn til að taka húsnæðislán!
Nei, það á ekki að byggja neina varnargarða þar!
Það sem við heyrum eru skilaboðin frá Umboðsmanni skuldara, að nú sé ástæða til að draga upp rauðu flöggin. Nú er launafólk, þau sem tóku þessi lán, hvatt til að leita til Umboðsmanns skuldara vegna þess hvernig þau hafa stökkbreyst. Aðgerðarleysi stjórnvalda hefur verið hrópandi. Og kannski ættum við ekki að undrast þegar við horfum upp á þá spillingu og rugl sem viðgengst hefur undanfarið hjá ríkisvaldinu! Hvernig má það til dæmis vera, að aðal spillingar- og vanhæfisgosarnir geti allt í einu orðið forsætisráðherra landsins?
Kæru félagar!
Á baráttudegi launafólks 1. maí árið 2024 er ástæða til að minna á að:
1) Almenningur krefst mannsæmandi launa þannig að hægt sé að lifa af dagvinnulaunum og útrýma fátækt.
2) Við krefjumst þess að fólk geti búið í mannsæmandi húsnæði á viðráðanlegu verði og að staðið verði við loforð stjórnvalda um stórfellda uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.
3) Við krefjumst þess að sameiginlegar auðlindir verðir nýttar í þágu almennings, en ekki færðar innlendum- og erlendum auðstéttunum á silfurfati.
4) Við krefjumst breytinga á skattkerfinu þannig að auðmenn og efnameira fólk skili réttmætum hluta til samneyslunnar og velferðarkerfisins.
5) Við krefjumst þess að velferðarkerfið verði varið og styrkt og það verði byggt upp að norrænni fyrirmynd, en ekki einkavætt í þágu peningaaflanna.
Á baráttudegi verkafólks minnum við stjórnvöld og atvinnurekendur á, að nú er nóg komið af skrípaleikjum og ábyrgðarleysi. Við ætlum okkur að breyta samfélaginu og sterk saman byggjum við sterkara samfélag.
Til hamingju með daginn!