Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

2. maí 2024

„Verðbólgan er versti óvinur launafólks“

Á fyrstu mánuðum ársins runnu kjarasamningar í Sameyki út, bæði á almennum og opinberum markaði. Undirbúningur fyrir samningana hefur staðið frá síðastliðnu hausti. Það hefur verið fundað með félagsfólki okkar víða um land á félagsfundum, og kröfugerð rædd á Trúnaðarmannaráðsfundum og í vinnu samninganefnda. Þessi undirbúningur skilaði kröfum um vaxandi kaupmátt, launaskriðstryggingu, lagfæringar á Betri vinnutíma, aðgerðir í vaxta- og verðbólgumálum, jöfnun launa milli markaða, aðgerðir í skattamálum og margt fleira sem varðar okkar hóp og samfélagið allt. Á fundum okkar komu einnig fram kröfur um róttækar lagfæringar á vaxtabótum og húsaleigubótum, því niðurskurður á þeim stuðningskerfum hefur bitnað verst á þeim sem lægstu launin hafa. Áhersla var lögð á blandaða leið til launahækkana og að tekið yrði næsta skref til að stytta vinnuvikuna enn frekar niður í 35 stundir, eins og áhersla stéttarfélaganna innan BSRB hefur verið.

Kjarasamningar á almenna markaðnum, aðgerðapakki og jöfnun launa milli markaða
Samhliða kjarasamningunum á almenna vinnumarkaðnum, sem nýlega var skrifað undir, fylgdi aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar. Þær aðgerðir eiga að taka á fjölmörgum þáttum sem skipta félagsfólk okkar verulegu máli. Má þar nefna vaxtabætur, barnabætur, öfluga uppbyggingu á húsnæðismarkaði, stuðning við leigjendur, ókeypis skólamáltíðir, aðgerðir gegn kynbundnum launamun og fleira. Allar þessar aðgerðir eru góður grunnur til að hjálpa til við gerð kjarasamninga. Æskilegt hefði þó verið að útfærðar aðgerðir hefðu fylgt aðgerðapakkanum þar sem lýst væri marktækum aðgerðum ríkis, borgar, sveitarfélaga og atvinnulífsins, um hvernig þessir aðilar ætli að tryggja minnkandi verðbólgu og lækkun vaxta. Engin skuldbindandi yfirlýsing hefur litið dagsins ljós um hvernig þessir aðilar ætla að tryggja að verðbólga hjaðni og vextir eigi eftir að lækka.

Stytting vinnuvikunnar og vaktahvatinn
Á félagsfundum var meðal annars bent á að Betri vinnutími í vaktavinnu hefði í mörgum tilfellum snúist upp í andhverfu sína. Nýtt vinnutímaskipulag þyrfti að laga í grundvallaratriðum og tryggja þyrfti fyrirsjáanleika í vinnutímaskipulagi og launamynduninni sjálfri. Þar væri allt of flotkenndur vaktahvati höfuðástæða þess hve illa hefði tekist til með breytingarnar á vaktakerfunum. Vaktahvatann þyrfti að endurskoða frá grunni og sjá til þess að vaktavinnufólk gæti gengið að launamyndun og vinnutímaskipulagi, sem væri ekki lakara en það kerfi sem fyrir var. Til að ná því marki þyrfti fyrst og fremst áræðni við að endurhanna kerfið.

Nokkuð algengt hefur verið að félagsfólk okkar bendi á að stjórnendur á vinnustöðum þekki ekki nægilega vel samkomulagið um styttingu vinnuvikunnar og hafi ekki alltaf réttu tólin og tækin til að stilla upp bestu mögulegu útfærslu vinnutímans hverju sinni. Nauðsynlegt er því að finna lausnir sem einfalda alla umsýslu við skipulag vinnutímans. Komið hefur í ljós að breytingarnar á vaktavinnukerfinu sem samið var um 2020 hafa ágalla sem nauðsynlegt er að lagfæra og eru bæði launagreiðendur og félagsfólk okkar sammála um það. Kerfið þarf að vera gegnsærra, vaktahvatinn má ekki vera eins kvikur og ráðandi í launamyndun eins og hann er nú og vaktaskipulagið verður að ná því marki að mætingar starfsfólks í hverjum mánuði verði hóflegar. Enn fremur er nauðsynlegt að vaktaskipulag á hverjum vinnustað sé sveigjanlegt, taki mið af verkefnum vinnustaðarins og sé skipulagt út frá sýn starfsfólks og stjórnenda á hvernig best sé að skipuleggja vinnutímann.

Stytting vinnuvikunnar í dagvinnu hefur heilt yfir gengið mun betur. Almennt sjáum við að félagsfólk okkar og stjórnendur hafa gegnum umbótastarf náð að tryggja góða þjónustu áfram, verkefnin hafa ekki goldið fyrir styttri vinnutíma og heilt yfir hefur verkefnið gengið vel. Örfá tilvik hafa komið upp þar sem umbótasamtölin hafa ekki verið í besta farvegi og í slíkum tilvikum er lykillinn að farsælli framvindu að koma á skipulegum samtölum á vinnustöðunum. Þar verður að taka verkefni og vinnuskipulag til umræðu, einnig hefðbundin neysluhlé og jafnvægi vinnu og einkalífs. Þar sem vinnustaðir hafa mætt áskorunum á þessu sviði hefur nýtt vinnufyrirkomulag haft mjög góð áhrif.

Staða launafólks
Það er ekki neinum blöðum um það að fletta að verðbólgan er versti óvinur launafólks – ásamt hinum frjálsa markaði þar sem allt leyfist. Launafólk er nú þegar búið að skila mjög góðu framlagi til samfélagsins á undanförnum árum. Eftir fordæmalausa samstöðu í COVID-19 faraldrinum höfum við séð stjórnlausa hækkun stýrivaxta, verðbólgan æðir upp og enn og aftur hefur verið farið fram á að að verkalýðshreyfingin stilli launakröfum í hóf. Óskir Seðlabankans rættust með hóflegum launahækkunum í kjarasamningum á almenna vinnumarkaðnum. Þrátt fyrir það sjáum við stýrivexti standa í stað, húsaleiguverð hækka, verðbólgu aukast milli mælinga og verðhækkanaþrýstingur á nauðsynjavörum virðist vera viðvarandi. Vert er að muna að efnahagsstjórnin er ekki á ábyrgð verkalýðshreyfingarinnar, heldur ríkisstjórnar og seðlabanka hverju sinni.

Nýlega kynnti Varða – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins skýrslu þar sem skoðuð eru launakjör og efnahagslegur veruleiki launafólks innan BSRB og ASÍ. Þar kemur fram að staða launafólks er gríðarlega ólík þegar hún er skoðuð eftir starfsgreinum. Fjárhagsstaða þeirra sem starfa í heilbrigðisþjónustu er verst og þau sem starfa við kennslu, fræðslu-, uppeldis-, og tómstundastörf standa þar nálægt. Það er augljóst að umönnunarstéttunum er markvisst haldið niðri í launum. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það að þarna ræður för mat á virði þeirra starfa sem konur sinna helst í okkar samfélagi. Þessi staða er algerlega óviðunandi og það er nauðsynlegt að opna augun fyrir þessu meini á íslenskum vinnumarkaði. Það verður ærið verkefni að koma þessum málum í rétt horf, en það er nauðsynlegt að hefja þá vegferð strax.

Eitt af mikilvægu verkefnunum sem við stöndum frammi fyrir er jöfnun launa milli markaða. Samningurinn um það verkefni var undirritaður 2016 samhliða breytingum á lífeyrissjóðunum sem færðu almenna markaðnum aukinn rétt. Ekki er hægt að segja að samvinna launagreiðenda og launafólks í þessu verkefni hafi gengið sem best frá því að samkomulagið var undirritað. Enn er langt í land með niðurstöðu og tímasettar aðgerðir. Verkefnið fer hins vegar ekki frá okkur og það er mikilvægt að sýna þrautseigju og þolinmæði í að koma því á réttan stað.


Höfundur er formaður Sameykis og 1. varaformaður BSRB.

Greinin birtist fyrst í 2. tbl. Tímarits Sameykis.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)