Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

17. maí 2022

Mesta óánægjan hjá vaktavinnufólki þar sem innleiðingarferlinu var ekki fylgt

Komið hefur fram að þar sem mesta óánægjan ríkir með styttingu vinnuvikunnar hefur skort á að starfsfólkið taki beinan þátt í kerfisbreytingunni með umbótasamtali og umbótaverkefnum.

Í könnun sem Gallup gerði fyrir Sameyki þar sem mæld var ánægja og óánægja með styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki, kom í ljós að mesta ánægjan var hjá þeim stofnunum þar sem starfsfólkið tók þátt í að innleiða breytinguna, og voru þannig beinir þátttakendur í innleiðingarferlinu. Mesta óánægjan var þar sem innleiðingarferlinu var sleppt að öllu leiti eða að hluta og nýtt vaktakerfi sett á án þess að starfsfólk tæki þátt í því að aðlaga það með stjórnendum.

Heildaránægja með styttingu vinnuvikunnar er talsvert mikil. Aðeins 15 prósent eru óánægð með styttingu vinnuvikunnar og meira en sjö af tíu eru ánægð. Stór hluti innan 15 prósent óánægðra er starfsfólk sem vinnur í vaktavinnu við öryggis og eftirlitsstörf ásamt starfsfólki sem starfar við ræstingar.

Mun meiri ánægja er með innleiðinguna á styttingu vinnuvikunnar í hópi dagvinnufólks. Nærri átta af hverjum tíu í dagvinnu eru ánægðir með verkefnið en aðeins fjórir af hverjum tíu sem vinna vaktavinnu.



Óánægja hjá fólki í vaktavinnu birtist í þremur þáttum sem mikilvægir eru í umbótasamtalinu í innleiðingarferlinu og er vísbending um þar hafi stjórnendur misstígið sig í innleiðingarferlinu: spurt er hvort starfsfólk í vaktavinnu nýtir sér styttinguna, hvort vinnutíminn styttist í raun og hvort gæði vinnunnar haldist eða jafnvel aukist.

Mesta ánægjan er í stofnunum Félags og lýðheilsumála. Í könnuninni sést að mesta óánægjan er hjá heilbrigðisstofnunum, sýslumannsembættum, löggæslu og hjá starfsfólki í fangelsum. Komið hefur fram að þar sem mesta óánægjan ríkir með styttingu vinnuvikunnar hefur skort á að starfsfólkið taki beinan þátt í kerfisbreytingunni með umbótasamtali og umbótaverkefnum sem áður er getið um. Þá hefur skort á að stofnanir fjölgi starfssfólki til að mæta styttingunni og aukið fjármagn frá viðkomandi ráðuneytum sem fylgja átti kerfisbreytingunni skili sér inn til stofnana.

Sterkt samband er milli hvort gripið var til aðgerða og ánægju með styttingu vinnuvikunnar og hvort starfsfólkið hafi verið þátttakendur þegar vinnuvikan var stytt. Tveir af hverjum þremur sem eru „mjög óánægðir“ segja að „ekkert hafi verið gert“ en aðeins einn af fjórum meðal þeirra sem eru „mjög ánægðir“ taka undir það. Þá sögðust 67 prósent innan vaktavinnukerfa mjög óánægð með endurskipulagningu vinnuvikunnar.

Tæp 34 prósent þeirra sem vinna vaktavinnu segja að starfshlutfallið hafi hækkað vegna styttingu vinnuvikunnar og rúmlega 26 prósent að það hafi lækkað. Þegar skoðað er ánægja með starfshlutfallið í vaktavinnu eftir breytingarnar segja 26 prósent starfsfólks í vaktavinnu vera mjög ánægt með að það hafi lækkað, 18 prósent er mjög ánægt með að það breyttist ekki og 10 prósent mjög ánægt með að starfshlutfallið hækkaði.



Það er ljóst samkvæmt könnun Gallup að þar sem skortur var á að stjórnendur stofnana hafi farið eftir innleiðingarferlinu og haft starfsfólk sem sinnir vaktavinnu með í breytingunum var óánægjan mest.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)