Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

14. september 2022

Fjárlagafrumvarpið eykur á framfærslukrísu launafólks

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Í nýju fjárlagafrumvarpi sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í ráðuneyti sínu kemur fram að ríkissjóður ætlar að skera niður í útgjöldum til innviða þjóðarinnar og að einkavæða eignir og þjónustu ríkisins.

 

Heimilin borga
Þeir skattar verða hækkaðir sem leggjast þyngst á almenning. Í fjárlagafrumvarpinu segir: „Meðal aðgerða má nefna hækkun á almennri aðhaldskröfu málefnasviða, með ýmsum undantekningum þó, t.d. á sviði heilbrigðisþjónustu, [bygging á nýjum landspítala] frestun á hluta af áformuðum nýjum útgjaldaheimildum og hliðrun á einstaka fjárfestingarverkefnum. Þá verður innleiðingu á gjaldtöku til að vega á móti tekjutapi vegna umferðar og eldsneytis flýtt að hluta, auk þess sem gripið er til gjaldabreytinga sem auka tekjur ríkissjóðs. Áætlað er að tekjuskattur einstaklinga skili 7,2 ma.kr. meiri tekjum í ríkissjóð á yfirstandandi ári en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins.“ Í frumvarpinu kemur fram að hækka á skatta á olíu og bensín sem mun auka á framfærslukrísu láglaunafólks sem ekki getur fjárfest í rafbílum. Þá munu hærri bifreiðaskattar verða lagðir á ökutæki til að fjármagna vegakerfið með hærra vörugjaldi á bíla sem skila á 2,7 ma.kr. og hækkun á bifreiðagjaldi um 2,2 ma.kr.

„Sístækkandi hópur bíleigenda greiðir mjög lítið fyrir notkun vegakerfisins þar sem tekjur ríkissjóðs af vistvænum bílum eru afar takmarkaðar. Breytingum á bifreiðagjaldi, vörugjaldi og losunarmörkum á næsta ári er ætlað að marka fyrstu skrefin að nýju kerfi, færa tekjurnar nær fyrra jafnvægi og stuðla að því að fleiri bíleigendur taki þátt í óhjákvæmilegum kostnaði við vegakerfið,“ segir í frumvarpinu.

 

Fjármagninu hlíft en almenningi ekki
Fram kemur í frumvarpinu að tekjur ríkissjóðs grundvallast á skattahækkunum í verðlagi og þjónustu, ekki hækkun veiðigjalda, hærri fjármagnstekjuskatti eða hærri skatti á auð þeirra sem hæstar hafa tekjurnar. Engar nýjar leiðir verða farnar í skattheimtu á arði sjávarútvegsfyrirtækja, fjármálafyrirtækja né bankaskatti eða á þá sem hafa fjármagnstekjur í gegnum t.d. sölu á hlutabréfum. Fjármagnseigendum er hlíft við skattahækkunum og þá ætlar ríkissjóður að auka tekjur sínar með því að draga úr afslætti á tollfrjálsri verslun.

„Samhliða þessum jákvæðu horfum er gert ráð fyrir meiri verðlagshækkunum en sést hafa um nokkra hríð. Þessar efnahagshorfur leiða til þess að talsverður bati verður á tekjuhlið ríkissjóðs. Í samræmi við samþykkta stefnumörkun í ríkisfjármálum verður haldið aftur af útgjaldavexti ríkissjóðs,“ eins og stendur í frumvarpinu.


Stefna ríkisstjórnarinnar að einkavæða eignir almennings
Sala Íslandsbanka fyrir tæpa 76 ma.kr., segir í frumvarpinu, mun leiða til þess að draga úr lánsfjárþörf ríkissjóðs og verða til þess að áætlaðar skuldir ríkissjóðs verða um 4–5 prósent lægri af vergri landsframleiðslu en ef bankinn yrði ekki seldur. Þetta er auðvitað tímabundinn ávinningur því útgjöld ríkissjóðs munu halda áfram að vera til og hagnaður af rekstri bankans fer þá beint í vasa þeirra sem kaupa bankann í stað þess að hafna í ríkissjóði.

Stefna ríkisstjórnarinnar er að auka byrðar almennings með auknum kostnaði vegna útgjaldaliða fjölskyldunnar; í rafmagni, húsnæði, matvöru og eldsneyti í stað þess að hækka skatta á arð þeirra sem nýta auðlindir þjóðarinnar og hækka veiðigjöld. Þetta er í anda þess að láta almenning bera allar byrðarnar en hlífa breiðustu bökunum sem ættu að leggja meira af mörkum til samneyslunnar. Meginmarkmið stjórnvalda er að stöðva vöxt skulda sem hlutfalls af vergri landsframleiðslu með því að leggja auknar byrðar á launafólk. Hvorki Ríkisendurskoðun né Fjármálaeftirlitið hafa skilað af sér neinum rannsóknarskýrslum um söluna á Íslandsbanka sem mikill meirihluti almennings var á móti, eða 83 prósent þjóðarinnar samkvæmt könnun Gallup.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að ríkisstjórnin ætli að draga saman fjárfestingar um 16,6 prósent í kjölfar þess að COVID-19 faraldrinum er lokið. Dregið verður úr stofnframlögum til almenna íbúðakerfisins um 2 ma.kr. Þannig er útlit fyrir að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur standi ekki fyrir því að almenningur, þ.a.m. ungt fólk og efnalitlar fjölskyldur, geti komið sér þaki yfir höfuðið. Ekkert er um það fjallað í fjárlagafrumvarpinu að ríkið standi fyrir auknu framboði á húsnæði.

Þá er haldið áfram að skera niður bótakerfin þar sem barnabætur og húsnæðisstuðningur lenda í niðurskurði á sama tíma og fordæmalausar hækkanir á greiðslubyrði húsnæðiskostnaðar lendir þungt á ungum barnafjölskyldum og láglaunafólki.


Sveltistefna í heilbrigðiskerfinu
Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2023 mun ríkisstjórnin halda áfram á þeirri braut að svelta heilbrigðiskerfið og sjúkrahús fjármagni með því að draga saman fjárheimildir um rúman hálfan milljarð króna. Það er augljóst að heilbrigðisstofnanir eiga í miklum erfiðleikum og skortur á fjármagni í málaflokkinn skerðir bæði þjónustuna og gæði hennar – sem almenningur reiðir sig á. Sveltistefnur eru venjulega settar fram til að hafa áhrif á viðhorf almennings til þjónustunnar sem er svelt; að viðhorfin breytist á þann veg að fólk hafi jákvæðara viðhorf á stefnu ríkisstjórnarinnar að einkavæða þjónustu fremur en að ríkið geri það. Sjúkrahúsþjónusta fær krónutölulækkun upp á -1% sem er veruleg raunlækkun fjárframlaga. Fram kemur í fjárlagafrumvarpinu að heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2023 er áætluð 122.049,5 m.kr. og lækkar um 545,4 m.kr. frá gildandi fjárlögum.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)