Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

7. nóvember 2022

Vagnstjórar af pólskum uppruna mótmæla einkavæðingu Strætó bs.

Hin sveitarfélögin sem vilja einkavæða þjónustuna verði látin sjá sjálf um sína strætisvagnaþjónustu.

Pétur Karlsson, trúnaðarmaður Sameykis og formaður Félags atvinnubílstjóra hjá Strætó bs., og Ágústa Sigurðardóttir, vagnstjóri og trúnaðarmaður Sameykis í fagdeild Strætó bs., funduðu í morgun með pólskumælandi vagnstjórum Strætó bs.

Pétur sagði á fundinum að aukinn hiti væri kominn í hóp vagnstjóra hjá Strætó bs. vegna einkavæðingaráforma sveitarfélaganna. Þeir vildu þrýsta á viðræður við stjórnmálafólk og þá sem stjórna Strætó bs. Hann sagði að þétta yrði raðirnar þegar bregðast ætti við þessum einkavæðingaráformum. Sanna Magdalena Mörtudóttir og Trausti Breiðfjörð Magnússon borgarfulltrúar Reykjavíkur fyrir Sósíalistaflokkinn sátu fundinn og sagði Pétur að þau væru sterkir bakhjarlar vagnstjóranna í borgarstjórn.

 

„Við viljum ekki missa vinnuna okkar“
„Þessi fundur snýst um að kynna stöðuna sem komin er upp. Vagnstjórar hafa talað um að fara í mótmælaverkfall og vagnstjórar hafa lagt fram tillögu um að þeir fari í verkfall vegna þessara áforma sveitarfélaganna. Við mótmælum þessum áformum,“ sagði Pétur. Þá útskýrði hann að verkfall þyrfti að skoða vel vegna tillits til laga og kjarasamninga.

„Ef vagnstjórar færu fyrirvaralaust í verkfall myndu þeir fá skriflega áminningu og verða í kjölfarið sagt upp störfum. Samstaða allra verður að vera til staðar þegar við förum í mótmælaaðgerðir og þess vegna viljum við upplýsa ykkur um stöðuna hjá Strætó. Augljóst er að sveitarfélögin eru að fjársvelta fyrirtækið til þess að geta einkavætt það. Þetta er lævís leið að færa rök fyrir því að með einkavæðingu sparist launakostnaður. Þetta þýðir að reka á vagnstjóra til að ráða aðra á lægri launum og stinga launamuninum í eigin vasa. Launakostnaðurinn er ekki vandamálið, þetta er einungis aðferð til að færa reksturinn til ákveðinna aðila og draga úr þjónustunni. Stjórn Strætó ræður ekki við verkefnið og sveltistefna ríkisstjórnarinnar hvetur til þessa með því að veita ekki fjármunum sem hún hefur lofað til rekstrarins. Þá vilja sveitarfélögin ekki heldur standa undir rekstrinum,“ sagði hann og í kjölfar þessara orða varð mikill kliður og köll heyrðust um salinn.

„Framkvæmdastjóri Strætó bs. er framkvæmdaaðili á verkum stjórnarinnar. Það er greinilegt því hann segir eitt en gerir annað. Hann nýtur ekki trausts okkar. Strætóbílstjóri getur verið rekinn án fyrirvara og ástæður uppsagna eru sjaldnast útskýrðar með vísun til kjarasamninga. Maður veit aldrei hvað gerist næst. Varðandi verkföll er nauðsynlegt að vinna eftir lögum og reglum. Annað er þó hægt að gera, og það er að vinna hægar, fara í eins konar hægavinnuverkfall. Við þurfum að skoða vel hvernig við bregðumst við en það verður að hafa áhrif,“ sagði Pétur við fundargesti.

Mikill hiti var í vagnstjórum því víða er pottur brotinn í samskiptum framkvæmdastjóra og starfsfólks Strætó og vilja vagnstjórarnir vekja athygli almennings á að verið er að eyðileggja fyrirtækið.

 

Virðingarleysi Strætó bs. fyrir réttindum vagnstjóra
„Strætó bs. virðir ekki kjarasamninga við mig,“ sagði einn fundargesta. „Ég er með meirapróf, hef ekið lengi hjá fyrirtækinu og er menntaður bifvélavirki. Launin virðast ekki miðast við þá menntun því ég er á sömu launum og nýráðinn starfsmaður sem ekki er með sömu akstursréttindi og ég, né menntun. Þetta finnst mér ekki sanngjarnt og hlýtur að vera kjarasamningsbrot,“ sagði vagnstjóri hjá Strætó.

Pétur svaraði því til að það væri ekki rétt af Strætó bs. að mismuna fólki í launum með þessum hætti. Samkvæmt kjarasamningum gilti starfsaldur og starfsreynsla til hærri launa og þá ætti iðnnám að vera viðurkennt til launahækkunar. Þetta vissu yfirmenn og stjórn fyrirtækisins.

 

 

Ekki hlustað á Pólverja hjá Strætó
Pétur minnti á að vagnstjórar eiga samkvæmt kjarasamningum veikindarétt og hvatti þá til að fylgjast vel með stöðunni hjá sér í þeim efnum. Þegar veikindarétturinn rennur út tekur við styrktarsjóður Sameykis og minntist hann um leið á lífeyrissjóðakerfið og fleiri réttindi sem fylgja því að vera í Sameyki.

„Þetta snýst ekki aðeins um Pólverja sem starfa hjá Strætó, sagði Pétur, heldur líka íslenska vagnstjóra og hvernig leiðakerfin hafa verið eyðilögð. Því miður er það þannig að það virðist ekki hlustað á starfsfólk af útlendum uppruna innan fyrirtækisins. Þessir vagnstjórar er ekki með og við verðum að breyta því. Við viljum að við séum öll vel upplýst, alveg sama af hvaða uppruna við erum. Allir vagnstjórar Strætó bs. mótmæla þessari eyðileggingu. Við viljum að hugmynd okkar um að SVR verði tekið upp á ný verði skoðuð hjá Reykjavíkurborg. Hin sveitarfélögin sem vilja einkavæða þjónustuna verði látin sjá sjálf um sína strætisvagnaþjónustu; Seltjarnarnes, Garðabær, Hafnarfjörður og Mosfellsbær sem vilja eindregið einkavæða þjónustuna. Við viljum að Reykjavíkurborg reki einungis strætisvagna fyrir höfuðborgina. Gamla leiðakerfið verði tekið upp endurbætt og þjónustan aukin við notendur. Sveitarfélögin geta svo saman rekið borgarlínuna í framtíðinni,“ sagði Pétur í lok fundar.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)