Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

17. nóvember 2022

Áhersla á aðgerðaleysi í fjárlagafrumvarpinu

Heiður Margrét Björnsdóttir, hagfræðingur BSRB. Ljósmynd/BSRB

Meðal gesta á Fulltrúaráðsfundi sem haldinn var í gær var Heiður Margrét Björnsdóttir, hagfræðingur hjá BSRB.

Heiður fór yfir helstu atriði fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2023 og sagði að frumvarpið skipti almenning máli vegna þess að það festi þær fjárveitingar sem eru til ráðstöfunar fyrir næsta ár. Það skipti máli að gerðar væru athugasemdir við frumvarpið svo ekki væri hægt að stöðva fjárveitingar til mikilvægra mála sem varða samfélagið.

„Frumvarpið lýsir okkar hagkerfi þar sem einkaneysla hefur aldrei verið sterkari, hagvöxtur meiri og kaupmáttaraukning mikil. Þetta er svona lýsing á einu stóru góðu partíi þar sem toppnum er varla náð og allir eru með allt til alls og geta veitt sér það sem þeir vilja. Okkar sýn [BSRB] er að það er alls ekki lýsandi fyrir stöðu allra í þjóðfélaginu og ekki sé tekið tillit til ólíkra hópa, allra síst tekjulágu hópanna. Markmiðið sem ríkisstjórnin leggur út frá í frumvarpinu er að takmarka útgjöld til innviðanna og sporna við þenslu. Þar birtist það með skýrum hætti sem við höfum óttast, að það á að ná jafnvægi í ríkisfjármálum með skertri opinberri þjónustu en ekki aukinni tekjuöflun þar sem sannarlega er svigrúm til staðar.“

 

Villandi orðræða í frumvarpinu
Heiður vísaði til þess að að ríkissjóður hefur verið rekinn með halla og við blasir að ríkisstjórnin er ekki með fjárlagafrumvarpinu að takast á við þær áskoranir sem blöstu við fjórða hverju heimili í landinu á síðasta ári þegar 38 þúsund heimili áttu erfitt með að ná endum saman samkvæmt Hagstofu Íslands.

„Þetta gerist áður en verðbólgan fer almennilega af stað og vextir fara að hækka. Í þessum hópi þeirra 38 þúsund heimila eru einstæðir foreldrar 52 prósent sem áttu erfitt með að ná endum saman. Orðræðan í frumvarpinu er sérstök. Þar er því haldið fram að um gríðarlega uppsafnaða kaupmáttaraukningu sé að ræða og það vekur athygli að frumvarpið er lagt fram í september á þessu ári en tölurnar sem notaðar eru til grundvallar eru frá ársbyrjun 2022 sem byggja að meðaltali ársins á undan. Mjög sérstakt.“

 

Áskoranir ekki ávarpaðar í frumvarpinu
„Það sem veldur vonbrigðum í frumvarpinu er að áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir eru ekki ávarpaðar og þar af leiðandi engar lausnir við þeim. Það er rosalega lítið að frétta í þessu frumvarpi. Ef þú stingur hausnum í sandinn geturðu ekki leyst vandann sem blasir við þér. Ekki er brugðist við núverandi efnahagsástandi sem neinu nemur, verðbólgan er núna 9,4 prósent og það sér ekki fyrir endann á kaupmáttarrýrnun launafólks. Það eru nánast engar breytingar á gjaldahliðinni en á tekjuhliðinni felast breytingarnar í frumvarpinu í að leggja aukin gjöld á almenning. Þessi hækkun á gjöldum á almenning leiðir til hækkunar á verðbólgu og er verðbólguhvetjandi framkvæmd. Fjármálaráðherra segir að þetta sé gert til að sporna gegn þenslu. Ég er enn að melta hvernig á að sporna gegn þenslu með gjaldhækkunum. Hvernig er hægt að auka verðbólgu og sporna gegn þenslu með sömu aðgerðinni?“ spurði Heiður fundargesti.

 

Einkavæðingarstefnu beitt til að ná niður skuldum
Hún sagði að við þetta metnaðarlausa fjárlagafrumvarp, og vísaði í frétt á Kjarnanum, bættist að ná niður skuldum ríkissjóðs væri einungis ein leið; sala á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Það væri ein af forsendum frumvarpsins sem gengið væri út frá.

„Þessu hafnar BSRB alfarið. Bandalagið telur fullljóst að ríkisstjórnin er ekki fær um að selja bankann svo að samfélagsleg sátt náist um það. Það væri eðlilegra að ríkið beitti sér með virkum hætti sem eigandi og bætti bankaumhverfið fyrir almenning í landinu. Hlutverk hagstjórnar er að beita henni til að bæta lífskjör allra þegna og tryggja að lífskjörin séu sjálfbær til framtíðar. Þegar Seðlabankinn hækkar stýrivexti hefur það áhrif á allan almenning, ekki bara suma. Þess vegna er svo mikilvægt að ríkisstjórnin bregðist við stýrivaxtahækkunum með því að styðja þá hópa sem aðgerðirnar lenda verst á. Það er sorglegt að það eru engin viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þessu í fjárlagafrumvarpinu,“ lýsti Heiður Margrét og lagði áherslu á aðgerðaleysið á meðan byrðar fólks þyngjast eins og allir vita – fyrir utan ríkisstjórnina sem sér þetta ekki og skilar auðu hvað þetta varðar í frumvarpinu.

 

Kerfislægur halli á ríkissjóði
Með því að bregðast ekki við og nýta tekjustofna til að taka á augljósum vanda í heilbrigðiskerfinu, húsnæðiskerfinu og fleiri þáttum fjársveltra innviða væri ríkisstjórnin blind og yki vandann með aðgerðaleysi.

„Heilbrigðiskerfið er enn að jafna sig eftir heimsfaraldurinn og skortir fé til rekstrarins og uppsafnaðrar eftirspurnar eftir þjónustu. Að gera ekki neitt þýðir að ástandið muni einungis versna að mati BSRB. Það er kerfislægur halli á rekstri ríkissjóðs, þ.e. að gjöldin eru hærri en tekjurnar og það er ekki útséð að það muni breytast. Það er tilkomið vegna skattalækkana á síðasta kjörtímabili og ekkert var gert á móti til að þær væru sjálfbærar til lengri tíma. Þessi mismunur á tekjum og gjöldum helst því inni ef ekki eru sóttar tekjur til reksturs ríkissjóðs á móti. Þá beitir ríkisstjórnin aðhaldi sem bitnar á grunnþjónustunni og notendum hennar sem verða að bíða lengur eftir læknisþjónustu, fá ekki læknisþjónustu, og svo starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar sem verður fyrir auknu álagi.“

Um húsnæðismál í fjárlagafrumvarpinu sagði Heiður að ríkisstjórnin stæði aðgerðalaus gegn þeim vanda. Þar kemur fram að ekki er gert ráð fyrir neinum auknum fjárveitingum til húsnæðismála heldur þvert á móti lækka þær um 2 milljarða, úr 3,7 í 1,7 milljarða. Ekki er gert ráð fyrir auknum stofnframlögum til húsnæðisuppbyggingar þrátt fyrir að fyrir liggi samkomulag ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu húsnæðis því byggja þarf tugi þúsunda íbúða. Þá benti hún á að leiguverð hefur hækkað langt umfram húsnæðisbætur frá því að nýtt kerfi tók við 2017. Rúmlega fjórðungur heimila á leigumarkaði greiðir meira en 40 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í húsaleigu.

Fréttin var uppfærð 21. nóvember kl. 9:21.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)