Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

23. ágúst 2023

Stýrvextir hækka og kaupmáttur launa rýrnar

Peningastefnunefnd. Ljósmynd/Seðlabanki Íslands

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,5 prósentustig og eru stýrivextir nú 9,25 prósent og hafa ekki verið hærri síðan í desember 2009 rúmlega ári eftir bakahrunið. Um er að ræða fjórtándu vaxtahækkunina í röð frá því í maí 2021 þegar stýrivextir voru í sögulegu lágmarki eða 0,75 prósent.

Seðlabanki Íslands hækkar stýrivextina til að draga úr eftirspurn úr hagkerfinu og þannig beitir bankinn stýrivaxtahækkunum til að hemja verðbólguna.

Áhrif þessa hækkana hafa mikil áhrif á launafólk og lánakjör heimilanna sem hafa greitt 31 milljarð króna meira í vexti af húsnæðislánum á fyrstu þremur mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra og er þetta 60 prósent hækkun á einu ári, segir í frétt á Heimildinni. Um það segir Peningastefnunefnd: „Framlag húsnæðisliðarins til verðbólgu hefur minnkað, dregið hefur úr alþjóðlegum verðhækkunum og gengi krónunnar hækkað. Innlendar verðhækkanir hafa hins vegar reynst þrálátar og eru enn á breiðum grunni. Undirliggjandi verðbólga hefur því minnkað hægar en mæld verðbólga og var 6,7% í júlí.“

Þetta þýðir á mannamáli að fólk á erfiðara með að eignast heimili, ungar fjölskyldur geta það jafnvel alls ekki. Þá renna stýrivaxtahækkanir beint úr í verðlagið og nauðsynjavara, húsnæðislán og þjónusta hækkar í verði sem lendir á launafólki með þeim afleiðingum að kaupmáttur rýrnar. Verðbólgunni er því viðhaldið í hækkandi verði á húsnæði, hærra leiguverði íbúða, hækkandi matvöruverði o.s.frv. Þá er ljóst að breytilegir óverðtryggðir vextir íbúðalána munu hækka í kjölfar þessa ákvörðunar Peningastefnunefndar en óverðtryggðir vextir íbúðalána voru fyrir tveimur árum rúmlega 3 prósent en eru nú rúm 10 prósent.

Í yfirlýsingu SÍ segir að nauðsynlegt sé að herða taumhaldið vegna þess að verðbólguvæntingar standast ekki og að koma verði í veg fyrir víxlverkun launa og verðlags. „Í ljósi þess er nauðsynlegt að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar. Einkum er mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags. Vísbendingar eru um að áhrif vaxtahækkana undanfarin misseri séu að koma skýrar fram og mun peningastefnan á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.“

 


Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis.

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis segir þessar hækkanir stýrivaxta viðstöðulausa aðför að almenningi og að fjarvera ríkisstjórnarinnar veki sérstaka athygli á meðan almenningur og launafólk tekur höggið. Þá segir Þórarinn að ríkisstjórnin ætli ekki að hjálpa þjóðinni með því að gera breytingar á skattkerfinu né millifærslukerfunum sem hafa verið skert í tíð ríkisstjórnarinnar.

„Þetta ferli sem hefur verið í hækkun stýrivaxta hefur tekið á sig þá mynd að það er verið að gera viðstöðulausa atlögu að almenningi. Fjarvera ríkisstjórar Íslands við stjórnun efnahagsmála hefur vakið sérstaka athygli í því samhengi. Ríkisstjórnin ætlar sér ekki að verja almenning og launafólk með sértækum aðgerðum, heldur á það að taka á sig höggið. Ríkisstjórnin ætlar ekki að hjálpa fölskyldum þessa lands að komast í gegnum þá skafla sem nú blasa við. Það á ekki að gera róttækar breytingar á skattkerfinu og millifærslukerfunum, bankarnir fá að leika lausum hala í glórulausum hækkunum á vöxtum og þjónustugjöldum og engar skorður eða skynsöm gjaldtaka er tekin af ferðaþjónustunni. Hvað þá heldur að það sé verið að taka til hendinn og koma böndum á húsnæðismarkaðinn. Þetta eru glæsileg skilaboð eða hitt þá heldur inn í kjarasamningavinnuna sem núna er að fara af stað á öllum vinnumarkaðanum,“ segir formaður Sameykis.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)