Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

17. nóvember 2023

Jólin á hverjum degi allt árið á þriðju vaktinni

Hulda Tölgyes og Þorsteinn V. Einarsson flytja erindi á trúnaðarmannaráðsfundi Sameykis.

Á fundi trúnaðarmannaráðs í gær fjölluðu hjónin Þorsteinn V. Einarsson og Hulda Tölgyes um aðra og þriðju vaktina.

Hulda Tölgyes er sálfræðingur og starfar við einstaklingsmeðferðir. Hún stendur fyrir námskeiðum og fyrirlestrum um þriðju vaktina. Þorsteinn V. Einarsson er kynjafræðingur og hefur fjallað um karlmennskuhugmyndir, muninn á skaðlegri og jákvæðri karlmennsku, og hvernig karlar og drengir geti stutt við jafnrétti með eigin breytni.

Þau sögðu að þriðja vaktin snúist um hugrænu byrðina sem fylgir hinni ólaunuðu ábyrgð – yfirumsjón og verkstýringu á heimilis- og fjölskylduhaldi sem oft nær líka inn á vinnustaðinn. Þau vörpuðu ljósi á áhrif ójafnrar ábyrgðar á þessum ólaunuðu störfum sem lent hefur á konum miklu frekar en körlum. Erindið byggir á fræðilegri og persónulegri reynslu þeirra þar sem þau flétta sálfræðilegu- og kynjafræðilegu sjónarmiði saman við persónulega glímu sína við þriðju vaktina á eigin heimili. Aldeilis fræðandi og skemmtilegt erindi.

„Konur eru fremur en karlar á þriðju vaktinni allt árið um kring allan sólarhringinn. Jólin eru á hverjum degi allt árið hjá konum. Auðvitað eru einhverjar undantekningar á því og samvæmt rannsóknum um gagnkynhneigð sambúðarform lendir þriðja vaktin mun meira á konum en körlum. Jafnvel líka þegar um einstæða foreldra er að ræða, eru einstæðar mæður frekar en einstæðir feður á þriðju vaktinni. Þá eru konur einnig samkvæmt rannsóknum miklu frekar í hlutastörfum heldur karlar. Það er einfaldlega vegna þriðju vaktarinnar. Þær hafa minni frítíma og af verri gæðum en karlar þar sem frítími kvenna er samnýttur heimilisverkum og umönnum barna – þriðju vaktinni. Það er auðvitað ekkert mjög afslappandi fyrir konur að vera á vaktinni í fríum sínum á meðan karlar njóta frítíma í miklum mæli án ábyrgðar á börnum og heimili. Við þurfum að tala um þetta með upplýsandi hætti svo við jöfnum þessa ábyrgð og það mun taka sinn tíma,“ sagði Hulda.

Þorsteinn sagði að til að jafna þetta mikla bil samkvæmt könnun Gallup þurfi til vitundar- og viðhorfsbreytingar hjá körlum. Karlmenn sjái frekar um hæfilega íþyngjandi ábyrgð eins og að skipta um dekk á bílnum, taka til í bílskúrnum, laga þakkantinn, bora gat, negla nagla o.s.frv.

„Karlar eru heldur ekki í streituástandi við þessa iðju sem telst til annarrar vaktarinnar. Það eru konur sem eru í mestri streitunni í okkar samfélagi en ekki karlar. Það er vegna þess að þær taka einfaldlega meiri ábyrgð en karlar á tilfinningum, skipulagningu og fjölbreyttum verkefnum sem tengjast uppeldi barna og heimilis,“ sagði Þorsteinn.

Fjallað er um aðra og þriðju vaktina í skýrslu á vef Stjórnarráðsins sem lesa má hér.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)