Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

8. febrúar 2024

Tímarit Sameykis á leið inn um bréfalúguna

Mynd/Gervigreind AI.

Tímarit Sameykis er nú á leið til félagsfólks í pósti. Þar kennir ýmissa grasa. Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, skrifar um kröfugerðir vegna komandi kjarasamninga og segir: „Fjölmargir þættir brenna á okkar félagsfólki um þessar mundir. Hvað varðar sameiginlega þætti hjá launþegahreyfingunni allri þá má nefna efnahagsþróun síðustu ára, stýrivaxtahækkanir, verðbólgu, hækkun húsnæðiskostnaðar ásamt fleiru. Þessi þróun hefur komið hart niður á launþegum og stórlega dregið úr kaupmætti ráðstöfunartekna.“

Forsíða tímaritsins er gerð af gervigreindarforriti og vísar í burðargrein tímaritsins sem fjallar um aðför stjórnvalda og sérhagsmuna í atvinnulífinu að verkfallsrétti launafólks. Í greininni er rakið hvernig ríkisstjórnin skipuleggur auknar valdheimildir ríkissáttasemjara með það að markmiði að koma í veg fyrir verkföll launafólks að áeggjan hagsmunaaðila í atvinnulífinu. Lynge Madsen hjá HK Stat stéttarfélagi í Danmörku segir okkur hvernig valdheimildum ríkissáttasemjara er háttað þar í landi.

Rýnt er í haustskýrslu Kjaratölfræðinefndar en tilgangur hennar er að fyrir liggi áreiðanlegar upplýsingar og sameiginlegur skilningur aðila um laun og efnahag sem nýtast við undirbúning og eftirfylgni kjarasamninga á hverjum tíma. Nefndin fjallar um gögn sem liggja til grundvallar kjarasamningagerð á hverjum tíma og eru grundvöllur fyrir launamyndun á vinnumarkaði.

Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastýra Vörðu – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins skrifar um hvernig velferðarkerfið stendur á brauðfótum og segir að slæm andleg líðan og slæm fjárhagsstaða eru systur og það sést ítrekað í rannsóknum Vörðu. Andleg heilsa þeirra hópa sem standa verr fjárhagslega er ávallt verri þrátt fyrir að ekki sé hægt að fullyrða um orsakasamhengið.

„Niðurstöður rannsókna Vörðu hafa ítrekað sýnt að þau velferðar- og stuðningskerfi sem ætlað er að gera fólki kleift að sjá fyrir sér og börnum sínum óháð hjúskaparstöðu hafa brugðist,“ skrifar Kristín Heba.

Í blaðinu fjalla Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir og Hildur Halldórsdóttir sérfræðingar í mannauðsmálum um velsæld starfsfólks á vinnustað. Þær skrifa um sjö mikilvæga þætti að velsæld.

Margt fleira forvitnilegt má lesa um í tímaritinu eins og grein fræðslustjóra Sameykis, Jóhönnu Þórdórsdóttur, um gervigreind, og grein um Styrktar- og sjúkrasjóð Sameykis en sjóðurinn afgreiddi afgreiddi 10.905 umsóknir á árinu 2023. Þá er fjallað um störf trúnaðarmanna og svo er auðvitað Stoppað í matargatið eftir Harald Jónasson á sínum stað að ógleymdum fleiri föstum liðum eins og skopi Halldórs Baldurs, krossgátunni og af vettvangi Sameykis.

Ef félagsfólk vill afþakka Tímarit Sameykis er hægt að gera það hér.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)