Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

13. febrúar 2024

Ríkið framfylgir ekki lögum um sölu áfengis á Íslandi

Frá málþinginu Lýðheilsa og áfengi-hver vilja kúvenda stefnunni og bjóða hættunni heim? Ljósmynd/Axel Jón

Í dag fór fram málþing í Þjóðminjasafninu um lýðheilsumál og bar yfirskriftina, Lýðheilsa og áfengi hver vilja kúvenda stefnunni og bjóða hættunni heim? Árni Einarsson, framkvæmdastjóri Fræðslu og forvarna – félags áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu hvatti til í opnunarræðu að íslenskt samfélag stæði saman í því að efla lýðheilsu og ábyrgð þegar litið væri til aðgengis að áfengi hér á landi.

„Stjórnvöld verða að móta stefnu í lýðheilsumálum sem leggja forvarnarstarfinu lið í stað þess að grafa undan því með auknu aðgengi að áfengi og skeytingarleysi gagnvart aukinni þörf á íhlutun og meðferð. Við, almenningur, þurfum að krefjast þess að lagt sé mat á fórnarkostnað þess, til dæmis með lýðheilsumati,“ sagði Árni.


Frá málþinginu sem haldið var í Þjóðminjasafninu.

Neysla áfengis eykst á Íslandi en lækkar í Evrópu
Alma Möller, landlæknir, sagði á málþinginu að þjóðin stæði frammi fyrir miklum áskorunum í heilbrigðiskerfinu sem berst í bökkum.

„Við sjáum það að heilbrigðiskerfið berst í bökkum hér á landi sem er vegna aukinnar eftirspurnar eftir þjónustu en líka vegna aukins kostnaðar. Ofan á það bætist skortur á starfsfólki. Heilbrigðiskerfið er ekki sjálfbært eins og það er í dag og það verður ekki tekist á við það nema með breyttum áherslum þ.á.m. lýðheilsu, sagði Alma.

Alma sagði að í heiminum deyja um 3 milljónir manna árlega vegna neyslu áfengis, þar af 600 þúsund deyja í slysum vegna beinnar afleiðinga neyslu áfengis og 230 þúsund deyja í sjálfsvígum sem rakin eru beint til áfengisneyslu. 13 prósent eru á aldrinum 20-39 ára og helmingur 50 ára og eldri. Frá árinu 2010 hefur áfengisneysla hér á landi aukist um 8 prósent á með önnur lönd í Evrópu keppast um að 10 prósent lækkun á neyslu áfengra drykkja í álfunni. Á Íslandi hefur áfengisdrykkja aukist um 6 lítra að meðaltali á mann frá árinu 2000 og 7 prósent allra núlifandi landsmanna hafa sótt sér meðferð vegna áfengissýki á sjúkrahúsinu Vogi.

„Lýðheilsa er ekki bara mál ráðherra og embættismanna, hún er mál samfélagsins alls. Það er mjög vel þekkt hversu skaðlegt áfengi er og margir verða áfengisfíkn að bráð í okkar samfélagi. Það er eitur og veldur eituráhrifum á líffærin, á lifur, heila og líka geðheilsu. Við erum á öfugri vegferð miðað við önnur lönd í Evrópu samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofnuninni sem hafa yfirlýst markmið að lækka áfengisneyslu um 10 prósent fyrir árið 2025.“


Alma Möller, landlæknir.

Þá sagði hún að samkvæmt kostnaðargreiningu vegna áfengisneyslu hér á landi nam hann ríflega 100 milljörðum króna auk annars óáþreifanlegs kostnaðar árið 2021.

„Þetta er gríðarlegur kostnaður fyrir heilbrigðiskerfið og nemur hann um 2,6 prósent af landsframleiðslunni sem er 3796 ma. kr. Það er svipaður kostnaður og í OECD löndunum sem er frá 1,5 til 2,6 af vergri þjóðarframleiðslu. “

Hún endaði erindi sitt með því að kalla eftir að ekki verði gefið eftir í lýðheilsubaráttunni og taldi upp þrjú atriði því til stuðnings.

1. Aukið aðgengi að áfengi mun auka neyslu og auka sjúkdómsbyrði og þjáningu
2. Aukið aðgengi að áfengi mun auka kostað samfélagsins
3. Seljendur hagnast, öll önnur tapa

Íslenska ríkið með einkaleyfi á smásölu áfengis á Íslandi
Bjarki Már Baxter, lögfræðingur, fjallaði um dóm í hæstarétti Svíþjóðar 7. júlí sl. um netsölu áfengis sem bregður ljósi á hvað má og hvað ekki. Hann sagði að það sé gríðarlega mikilvægt þegar kemur að umræðu um sölu áfengis á Íslandi að skilgreina hvað er smásala innan lögsögu Íslands og er háð einkarétti ÁTVR, og hvað sé sala í öðru landi.

„Einstaklingur hefur leyfi til að kaupa sér áfengi til eigin nota samkvæmt lögum sem grundvölluð eru á EES samningnum. Þetta er einkainnflutningur á áfengi til eigin nota, ekki til endursölu í smásölu. Þessi heimild er með þeim hætti að einstaklingurinn sjálfur greiðir öll gjöld sem fylgja innflutningi; tolla og önnur gjöld hér á landi. Um nákvæmlega þetta fjallaði þessi sænski dómur um. Í stuttu máli sagt snerist málið um danskt fyrirtæki sem bar lénið .se og seldi áfengi til neytenda í Svíþjóð. Sænska ríkið stefndi fyrirtækinu fyrir að selja áfengi í landi þar sem það hefði einkaleyfi á smásölu. Hæstiréttur Svíþjóðar dæmdi danska fyrirtækinu í hag vegna þess að það var með engar starfsstöðvar í Svíþjóð og rak áfengislagerinn sinn í Danmörku. Auk þess sendi það áfengið til þess sem pantaði vöruna í Svíþjóð með óháðu flutningsaðila eins og DHL eða sambærilegu,“ sagði Bjarki Már.


Bjarki Már Baxter, lögfræðingur.

Þá sagði hann það vera brot á áfengislögum að hér á landi er stunduð smásala sem er með starfsemi á Íslandi í samkeppni við ÁTVR.

„Það getur ekkert fyrirtæki á Íslandi selt vöru í gegnum vefsíðu og lofað afhendingu vörunnar á 30 mínútum frá útlöndum. Það er ekki hægt. Þetta er smásala á áfengi og brot á lögum.“

Stjórnvöld vinna eftir lýðheilsustefnu sem þau fara ekki eftir
Þau sem til máls tóku á málþinginu tóku undir þau viðhorf að takmarka þarf aðgengi að áfengi og efla forvarnir svo að færri ánetjast áfengi og að það væri þarft lýðheilsumál. Þingmaður Viðreisnar, Sigmar Guðmundsson, sagðist hafa tröllatrú á forvörnum þegar litið er til aðgengis að áfengi hjá ungu fólki, en þó hefði hann ákveðnar efasemdir um gildi verðstýringa, sérstaklega að ætla sér að ná árangri með verðstýringu eða með takmörkun á aðgengi.


Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar.

„Við erum með svakalega mikla stýringu á aðgengi að fíkniefnum og lyfjum. Samt flæðir þetta yfir samfélagið,“ sagði þingmaðurinn.

Heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, sagði á málþinginu að stjórnvöld vinni eftir heilbrigðisstefnu. „Við vinnum auðvitað eftir heilbrigðisstefnu og við vinnum líka eftir stefnu í lýðheilsumálum,“ sagði ráðherrann.

Á sama tíma framfylgja stjórnvöld ekki lögum um sölu áfengis á Íslandi með því að auka aðgengi að áfengi og leyfa öðrum en ÁTVR að selja áfengi í gegnum vefsíður hér á landi sem, að sögn frummælenda, greinilega flytja inn áfengi og geyma á lager hér á landi til að selja í smásölu. Í Áfengislögum, III. kafli. Innflutningur áfengis 8 gr. segir: Innflutningsleyfi veitir leyfishafa ekki heimild til að selja áfengi í smásölu. Og í 10 gr. segir: Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur einkaleyfi til smásölu áfengis, [sbr. þó 6. gr. a].

Margar þessara vefsíða sem selja áfengi bjóða hraðþjónustu og afhenda áfengið á höfuðborgarsvæðinu innan 30 mínútna. Ríkið er auk þess þar með að auðvelda aðgengi að áfengi þvert á ráðleggingar Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar sem hvetur til þess að aðgengi að áfengi sé heft og verði eingöngu selt í verslunum á vegum ríkisins. Það sé mikilvægur hluti í lýðheilsu hverrar þjóðar að draga úr notkun áfengis með því að takmarka aðgengi og auglýsa það ekki segir á vef stofnunarinnar.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)