Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

15. febrúar 2024

Stofnanir ársins 2023

Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri, tók við viðurkenningu ásamt samstarfsfólki sínu í Vestumiðstöð. Ljósmynd/BIG

Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu tilkynnti um valið á Stofnun ársins 2023 fyrr í dag en titlana Stofnun ársins og Fyrirmyndarstofnun hljóta þær stofnanir sem þykja skara fram úr að mati starfsfólks á sviði mannauðsmála.

Ár frá ári hefur þátttaka í könnuninni aukist og aldrei hefur verið betri þátttaka í Stofnun ársins en nú. Í ár tóku nærri 17.000 þátt í könnuninni sem var framkvæmd í október og nóvember 2023. Reykjavíkurborg er þátttakandi í könnuninni með allt sitt starfsfólk í annað sinn en allt starfsfólk hjá ríkinu hefur tekið þátt síðan 2011.


Stofnun ársins 2023 – borg og bær: Vesturmiðstöð. Ljósmynd/BIG

Val á stofnun ársins er samstarfsverkefni margra aðila; Sameykis, Kjara- og mannauðssýslu ríkisins, Mannauðs- og starfsumhverfissviðs borgarinnar og svo að sjálfsögðu stofnananna og starfsstaðanna. Niðurstöður könnunarinnar veita bæði afar mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi vinnustaða og samanburð við aðrar stofnanir. Í könnuninni er hægt að bera saman starfsumhverfi ríkis og borgar með góðum hætti.


Hildur Ragnarsdóttir, forstjóri Þjóðskrár, tók á móti viðurkenningunni. Ljósmynd/BIG

Tilgangur með vali á Stofnun ársins er að taka eftir og verðlauna vinnustaði sem ná framúrskarandi árangri við stjórnun mannauðs. Þá nýtist könnunin stjórnendum til að vinna að umbótum í stjórnun og starfsumhverfi. Að lokum veitir könnunin aðhald til hagsbóta fyrir starfsfólk, skjólstæðinga, viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila.


Njörður Njarðarson, forstöðumaður Félagsmiðstöðvarinnar Sygin hélt þakkarræðu á Stofnun ársins 2023. Ljósmynd/BIG.

Titlana Stofnun ársins 2023 hljóta þær stofnanir sem þykja skara fram úr í þeim þáttum sem könnun Sameykis náði yfir að mati starfsfólks þeirra.

Stofnanir ársins 2023 – borg og bær eru: Vesturmiðstöð, Hitt húsið og Félagsmiðstöðin Sigyn.
Hástökkvari ársins 2023 hjá borg og bæ er Íbúðakjarni Hringbraut B.

Stofnanir ársins 2023 – ríki eru: Fjölbrautarskóli Suðurnesja, Þjóðskrá Íslands og Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum.

Hástökkvari ársins 2023 hjá ríkinu er Hugverkastofan.

Stofnanir ársins 2023 – sjálfseignastofnanir og fyrirtæki í almannaþjónustu er: Heilsustofnun NFLÍ.

Niðurstöðurnar voru kynntar að loknu vel heppnuðu málþingi um mannauðsmál og var yfirskrift þess Velsæld á vinnustað. Fyrirlesarar á málþinginu voru: Helena Jónsdóttir, klínískur sálfræðingur, Sóley Kristjánsdóttir, stjórnenda- og vinnustaðaráðgjafi hjá Gallup, Ragnhildur Vigfúsdóttir, mark- og teymisþjálfi og Tómas Bjarnason, sviðsstjóri stjórnendaráðgjafar Gallup.

Fyrirmyndarstofnanir ársins í öllum flokkum má sjá í sérritinu hér. Þar eru nánari niðurstöður úr könnuninni. Allar nánari upplýsingar má líka finna á vef Sameykis, sjá hér.

Ljósmyndir frá málþinginu og hátíðinni er hægt að skoða hér.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)