Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

11. apríl 2024

Félagsfólk samþykkti einróma aðgerðir ef til þess kemur

Félagsfólk í Sameyki og Félags flugmálastarfsmanna á félagsfundi í Kelfavík í dag.

Fjölmennur félagsfundur var haldinn síðdegis í dag með félagsfólki í Félagi flugmálastarfsmanna og Sameyki sem starfar hjá Isavia á Keflavíkurflugvelli. Fundurinn var haldinn á Park Hótel Radisson í Keflavík og var umræðuefni fundarins aðallega þrennt; vísun kjaradeilurnnar til ríkissáttasemjara, skipulag vinnutímans og álagsgreiðslur, og félagakosning um aðgerðir.

Formaður FFR, Unnar Örn Ólafsson, sagði að meginkröfur félagsins væru að jafna réttindi félagsfólks sem starfar hjá Isavia. Hann sagði að félagið væri ekki að fara fram á meira en samið var um á almenna vinnumarkaðnum, heldur að jafna kjör félagsfólks sem vinnur sömu störf á mismunandi kjörum.

„Við erum ekkert endilega að fara fram á hærri kjarasamninga frá því sem stóru félögin hafa verið að gera. Við viljum bara jafna ákveðin réttindi innan starfshópsins sem hafa myndast innan fyrirtækisins, þetta er staðan hjá okkur núna. Nú er búið að vísa þessari sameiginlegri deilu okkar og félaga okkar í Sameyki til ríkissáttasemjara og þess vegna höldum við nú sameiginlegan félagsfund með Sameyki í dag til að skýra ykkur frá stöðunni og fá umboð ykkar fyrir ákveðnum aðgerðum ef til þess kemur,“ sagði Unnar.

Þórarinn sagði að forystufólk félaganna litu nú svo á að um einn hóp væri að ræða sem stendur í þessari kjarabaráttu saman.

„Við lítum svo á að um einn hóp sé að ræða og erum við í þeirri vinnustellingu núna. Við ætlum okkur að vera það þar til lending næst í þessum málum. Samningarnir sem búið er að skrifa undir á almenna vinnumarkaðnum eru misjafnir á milli margra stéttarfélaga út frá kostnaði, virðismat þeirra er með ólíkum hætti. Á þessum fjórum árum sem búið er að semja á almenna markaðnum getur kostnaðarmatið verið allt frá 14 prósentum upp í nærri 20 prósent eftir stéttarfélögum. Meginreglan er sú að þar sem launin eru lægri er prósentan hærri, og á móti, þar sem launin eru hærri er kostnaðarprósentan lægri.“

Þá sagði Þórarinn að það sem félögin ætli að sækja, er almennileg lokaniðurstaða í því hvað samningarnir muni kosta fyrir launagreiðandann Isavia.

„Við þurfum líka að stilla okkur af þegar umræðan um launaliðinn byrjar með tilliti til þess hvað samningarnir munu koma til með að kosta fyrir launagreiðandann. Við höfum borið kjarasamningana saman sem gerðir voru síðast hjá opinberum starfsmönnum við önnur félög, og það er ljóst á útreikningum okkar að það hallar á launafólk í okkar félögum. Í því samband vil ég nefna, að hjá launafólki í Félagi flugumferðastjóra sem ávinnur sér réttindi til töku orlofs ávinnur sér um leið launarétt í því orlofi. Hjá okkar félagsfólki er það ekki þannig, það vinnur sér inn orlofstímann en er launalaust á meðan orlof stendur yfir. Við viljum bara fá þessi réttindi líka fyrir okkar félagsfólk,“ sagði Þórarinn á fundinum.

Unnar sagði að það væri mikilvægt fyrir framhaldið að geta fengið umboð félagsfólks fyrir aðgerðir ef til þess muni koma að kjaraviðræðurnar sigli í strand. Viðræðurnar eru nú á borði ríkissáttasemjara sem fer með verkstjórn yfir þeim.

„Við viljum auðvitað taka samtalið við Isavia undir handleiðslu sátta áður en við förum að kjósa um þær aðgerðir sem við fáum umboð fyrir hér í dag. Þetta snýst um að fá hjá ykkur umboð til að fara í kosningu um eftirfarandi aðgerðir; yfirvinnubann, þjálfunarbann og skærur sem geta verið t.d. 4. klst. vinnustöðvun. Um er að ræða að fá heimild frá ykkur fyrir þessum aðgerðum sem við getum nýtt ef til þess kemur,“ sagði Unnar.

Félagsfólk samþykkti einróma með handauppréttingu tillögur formanna Sameykis og FFR um heimild til að fara í rafræna atkvæðagreiðslu meðal félagsfólks um aðgerðir til að knýja á um kjarasamning.

  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)