Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

2. júlí 2024

Þakklát inn í Þórsmörk

Þrjár skipulagðar ferðir inn í Þórsmörk með Lífeyrisdeild Sameykis er nú lokið en uppselt hefur verið í þær allar. Um 50 manns voru í hverri ferð. Farið var frá Reykjavík að morgni dags og ekið áleiðis í Þórsmörk með pissustoppi á Hvolsvelli. Þá var hossast eftir vegslóða yfir ár og læki inn í Bása í Þórsmörk.

Hinn ljúfi félagi í Lífeyrisdeildinni, Hörður Gíslason, sá um að leiðsegja í ferðunum og hafði hann frá nógu að segja og fór létt með að gera. Við þökkum honum sérstaklega fyrir góða leiðsögn sem fróðleiksfúsir drukku í sig í ferðunum.

Þegar komið var í Bása var fólki boðin kjötsúpa og vegansúpa með hrökkbrauði og viðbiti eins og gengur. Síðan var spjallað og hlegið og farið saman í mislanga göngutúra um svæðið sem er ægifagurt allt um kring. Það fylgir því sérstök tilfinning að standa inn í Básum og líta á grænar hlíðar fjallanna vaxnar birkiskógi, og mosavaxna mela og grýttan jökulárfarveginn. Allt stórfengleg náttúra. Og blíðan, hún lét ekki á sér standa þó stundum hafi himininn verið misgrár á að líta.

Jæja, eftir að allir voru orðnir saddir af súpu, hrökkbrauðsáti og göngutúrum var haldið til baka eftir vegslóðanum yfir Krossá með viðkomu í skálanum í Langadal. Þar virtu félagar í Lífeyrisdeild Sameykis fyrir sér enn betur fegurð Langadals. Þá var snúið til baka aftur yfir Krossá og næst stoppað við Gígjökul sem er skriðjökull úr Eyjafjallajökli.

Við Gígjökul var áður stórt og djúpt lón sem nú er horfið eftir að hlaup úr Eyjafjallajökli hljóp þar fram við eldgosið 2010. Mikilfenglegt þótti ferðafélögunum að virða þetta fyrir sér. Fróðir um Gígjökul segja að hann hafi látið verulega á sjá og hörfaði upp í skarðið þegar gaus, en hefur núna síðustu árin verið að skríða fram aftur. Þarna hafa komið í ljós nýir klettar og heilu fjöllin sem áður voru hulin ís. Sjón er sögu ríkari sagði okkar fólk um þetta fyrirbæri og sté upp í Norðurleiðarútuna.

Þegar ekið var upp á þjóðveginn við Seljalandsfoss áleiðis til höfuðborgarinnar var stefnan tekin upp Emstruveg inn í Fljótshlíð og þaðan komið niður á Hvolsvöll. „Fögur er hlíðin“ kvað okkar maður forðum.

Samkvæmisblaðran er sterk í okkar fólki og þoldi hún léttilega að ekið var á löglegum hraða á Fröken Selfoss þar sem snæddur var kvöldverður. Á matseðlinum var ofnbökuð bleikja með smælki og grænmeti sem skolað var niður með hvítu og rauðu léttvíni eða óáfengum drykkjum. Í eftirrétt voru svokallaðar „Brownies“ sem eru að uppruna ammrískar með slettu af mjólkursætu og molasopi með. Allt eins og blómstrið eina.

Þegar þarna var komið sögu var mannskapurinn orðinn sæll og þreyttur, og enn á ný var stigið um borð í rútuna og ekið heim á leið yfir Hellisheiði til Reykjavíkur þar sem hver og einn þakkaði fyrir ljúfa dagsferð og að hafa skapað saman góðar minningar.

 

Sjá má ljósmyndir úr ferðunum í myndasafni Sameykis hér.